Árið 1972 var nýju kreditkorti hleypt af stokkunum í Bretlandi undir slagorðinu „Access takes the waiting out of wanting“. Access-kortið naut mikilla vinsælda og frelsaði marga undan því að bíða eftir því sem þeir þráðu. En það er ekki alltaf jafngefandi að fá löngunum sínum svalað og virðist í andartakinu.
Dagur einhleypra var haldinn hátíðlegur í vikunni – aðallega að því er virtist af kaupmönnum sem auglýstu tilboð á hinum ýmsa varningi í tilefni dagsins. Handan hornsins er svo svartur föstudagur, netmánudagur og jólatilboðsdagar.
Í garð gengur tími óheyrilegrar, ónauðsynlegrar eyðslu. Þótt ásetningurinn sé góður – margt af því sem við kaupum á næstu vikum eru jólagjafir sem eiga að sýna ástvinum væntumþykju – er niðurstaðan harmleikur.
Peningar og guð
Fyrir 70.000 árum varð stökkbreyting í heila mannsins. Í kjölfarið tóku tungumálahæfileikar tegundarinnar óvæntum framförum. Í stað þess að tjá sig aðeins um það sem við blasti í raunheimum – tré, steina, vatnsból og ljón sem lágu í leyni – fór maðurinn að geta tjáð sig um hluti sem ekki voru til í alvörunni. Hann fór að skálda upp sögur.
Samkvæmt ísraelska sagnfræðingnum og metsöluhöfundinum Yuval Noah Harari liggja sögur til grundvallar getu mannsins til að vinna saman í stærri hópum en nokkur önnur dýrategund. Þúsundir, jafnvel milljónir einstaklinga, geti sameinast um sögu og unnið að sameiginlegu markmiði í krafti hennar – sögur um atriði sem ekki séu til í alvörunni heldur fyrirfinnist aðeins í sameiginlegum hugarheimi mannsins á borð við þjóðríki, mannréttindi, lög, guð – og peninga.
Í aðdraganda jóla reiðum við fram kreditkortið oftar en á öðrum árstímum. Þegar við teygjum okkur í veskið teljum við okkur meðvituð um verðið sem við greiðum – „það gera 2.990 kr.“ En erum við það?
„Ég er að deyja! Deyja!“
Í bókinni „The Top Five Regrets of the Dying“ fjallar Bronnie Ware, ástralskur hjúkrunarfræðingur sem starfaði lengi á líknardeild, um samtöl sín við fólk á dánarbeðinum. Bók Ware er sláandi sönnun þess að eftirsjá dauðvona fólks er nánast alltaf sú sama. Á dánarbeði eru flestir miður sín yfir að hafa ekki lifað lífinu til fulls á meðan þeir áttu þess kost. Fólk er jafnframt slegið yfir því hversu stutt lífið var.
Ware vitnar í Grace, „smávaxna konu með stórt hjarta“. „Líttu á mig,“ sagði Grace. „Ég er að deyja! Deyja! Ég hef beðið árum saman eftir að verða frjáls en nú er það um seinan.“
Grafin lifandi
Peningar kunna að vera sameiginlegur hugarburður mannkyns. En peningar eru meira en bara saga.
Gjarnan er sagt að tími sé peningar. En ef tími er peningar eru peningar líka tími.
Ruslahaugar veraldarinnar eru fullir af lítið notuðum fatnaði, flatskjám sem enn virka og brauðgerðartækjum sem aldrei voru notuð; hlutum sem eitt sinn voru keyptir fyrir peninga sem einhver fékk í skiptum fyrir tíma sinn – tíma sem ekki var varið með fjölskyldu eða vinum, tíma sem ekki fór í að sinna hugðarefnum, tíma sem aldrei kemur til baka.
Í hvert sinn sem við greiðum fyrir óþarfa sem endar sem óbreytt rusl grafið í jörðu urðum við tíma okkar; við urðum líf okkar.
Við erum jörðuð þegar við erum öll. Er ekki óþarfi að við séum grafin lifandi?
Næst þegar þú setur stefnuna út í búð, mundu eitt. Ekki nokkur sála sagði á dánarbeðinum: Ég vildi að ég hefði keypt meira dót í Kringlunni meðan ég átti þess kost.













































Athugasemdir