Í tilefni af hvatningarátaki Landverndar og Grænfánans „Nægjusamur nóvember“ velti ég fyrir mér sambandinu milli nægjusemi og hagkerfis okkar. Hagkerfið grundvallast á stöðugum hagvexti og verður þess vegna alltaf að framleiða og selja meira og meira. Það er andstæðan við nægjusemi, en nægjusemi færir okkur ánægju með það sem við höfum og við finnum ekki þörfina til þess að vilja alltaf meira og meira. Nægjusemi og okkar hagkerfi stangast á, eru ósamrýmanleg. En hvað gerum við nú þegar við vitum að nægjusemi er lykillinn að sjálfbærri þróun og árangri í loftslagsmálum, markmiðum sem við höfum skuldbundið okkur til að fylgja?
Vítisvél vaxtar
Hugmyndin um að efnisleg lífsgæði geti vaxið endalaust hefur mótað hugsunarhátt okkar, bæði sem einstaklinga og samfélag. Þetta er sprottið upp úr trú okkar í vestrænum samfélögum á endalausan hagvöxt sem forsendu framfara og lífsgæða. Sú staðreynd að við höfum afneitað því að auðlindir Jarðar eru takmarkaðar hefur komið okkur í þessa hræðilegu stöðu núna með loftslagshamförum samhliða hnignun vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni.
Hafið þið hugleitt þá staðreynd að hnattræna hagkerfið okkar mun tvöfaldast á 24 ára fresti ef hagvöxtur verður um 3% á ári? Hvaðan á slík geta að koma þegar Jörðin og auðlindir hennar vaxa ekki? Hagvöxtur sprettur ekki úr engu heldur er tengdur orku-, land- og auðlindanotkun sem hefur sín náttúrulegu takmörk. Hingað til höfum við í vestrænum löndum getað mætt auknum hagvexti m.a. með því að nýta og ofnýta svæði annars staðar í heiminum og sömuleiðis losa úrgang víðs vegar um heiminn. Við höfum þannig lifað á náttúru, auðlindum og starfskrafti annarra, oft fátækari landa. En þessir möguleikar eru að verða uppurnir. Tækniframfarir geta vissulega aukið nýtni en til lengri tíma leiðir hagvöxtur ávallt til meiri auðlindanýtingar, losunar og mengunar.
Það var ekki hlustað á niðurstöður Rómarsamtakanna frá árinu 1972 sem vöruðu við því að óendanlegur hagvöxtur væri ómögulegur og spáðu að vistfræðilegum takmörkum yrði náð innan fáeinna áratuga ef mannkynið breytti ekki um stefnu. En vonandi munum við hlusta núna því Jörðin gefur okkur mjög skýrt til kynna að við getum ekki haldið áfram á sömu braut. Það bætist sífellt í hóp vísindafólks sem er sannfært um að hagvöxturinn er stórt vandamál varðandi ástand Jarðar og fjölmargar rannsóknir styðja við þessa niðurstöður.
Við sitjum við stýrið
Hver ákveður hvað gott líf þýðir? Er það kerfi sem byggir á veldisvexti eða er það fólkið? Gott líf má ekki kosta okkur Jörðina og ekki heilsuna heldur. Meira þýðir ekki endilega betra, nema þar sem er skortur. Ef við ætlum að lifa góðu lífi innan þolmarka Jarðar þá þurfum við betri hugmyndir um samfélagslegar framfarir en stöðugan hagvöxt. Við höfum allt of lengi látið telja okkur trú um að ofgnótt sé ávísun á gott líf. Hagkerfið stjórnar okkur en ekki við því. Nægjusemi er mótvægisaðgerð gegn núverandi hagkerfi þar sem við stýrum sjálf þörfum og löngunum okkar. Robert F. Kennedy sagði fyrir 57 árum síðan að „Allt of lengi höfum við látið persónulega hæfni/innri gæði og samfélagsleg gildi víkja fyrir söfnun efnislegra eigna.“ Sá vöxtur sem við ættum að rækta er vitsmunalegur, siðferðilegur, félagslegur og andlegur. Mannleg þróun er eitthvað allt annað en hagvöxtur. Við ættum t.d. að horfa til „Innri þróunarmarkmiða“ til að efla hæfni einstaklinga og samfélaga til að stuðla að sjálfbærri þróun. Við stuðlum að eigin vellíðan með t.d. félagslegum samskiptum, hreyfingu, að vera í náttúrunni, skapandi starfsemi, að hjálpa öðrum og að vinna að málefnum sem okkur finnst mikilvæg. Þannig getum við blómstrað í öðru en neyslumenningu og með minni umhverfisáhrifum.
Tölum um hagkerfið
Að rækta nægjusemi í daglegu lífi er eitt af lykilskrefum til að minnka álag á náttúru og loftslag og saman getum við stuðlað að breyttri neyslumenningu. Sú þróun er sem betur fer hafin t.d. með fjölgun nytjamarkaða og stefnu um aukið hringrása- og deilihagkerfi. En á meðan við sitjum í viðjum hagkerfis sem öskrar á vöxt munu þessar mikilvægu aðgerðir einstaklinga og samfélags ekki duga. Ef markmið er hagvöxtur, verður meira en ekki minna. Krafan um hagvöxt hefur m.a. knúið áfram framleiðslu á alls kyns vörum sem við höfum lítil not fyrir. Það er kominn tími til að ákveða hvað það er sem við þurfum og viljum framleiða. Við þurfum að tryggja að allir hafi aðgang að lífsnauðsynlegum vörum og þjónustu og við þurfum að auka jöfnuð og velferð allra. Til viðbótar því að halda áfram að stuðla að aukinni nægjusemi þurfum við í ríkum, vestrænum löndum að opna fyrir gagnrýna umræðu og auka þekkingu okkar á öðrum hagkerfum. Hagkerfum sem krefjast ekki aukins hagvaxtar og virða þolmörk Jarðar. Nokkrar útgáfur af slíku hagkerfi hafa þegar verið hannaðar af fræðafólki víðs vegar um heiminn og eru í alþjóðlegri umræðu. Það er á okkar ábyrgð að setja vextinum takmörk áður en það verður of seint.
Miðvikudaginn, 12. nóvember n.k. klukkan 19:00 sýnir Landvernd myndina „The Cost of Growth“ í Bíó Paradís þar sem varpað er öðru ljósi en venjulega á tilgang og afleiðingar hagvaxtar.
Höfundur er fræðslustjóri og sérfræðingur í menntateymi hjá Landvernd.
















































Athugasemdir (1)