Rússneskur dómstóll dæmdi í dag 18 ára gamlan götutónlistarmann, sem flutti lög gegn stríðinu, í fangelsi í þriðja sinn á meðan stjórnvöld í Kreml grípa til takmarkalausra aðgerða gegn hvers kyns merkjum um andóf eða andstöðu.
Öll opinber gagnrýni á hernaðaraðgerðir Moskvu í Úkraínu, Vladimír Pútín forseta eða herinn er bönnuð samkvæmt víðtækum ritskoðunarlögum sem mannréttindasamtök hafa líkt við lög Sovétríkjanna.
Diana Loginova, tónlistarnemi þekkt undir sviðsnafninu Naoko, var handtekin í síðasta mánuði eftir að hafa haldið óvænta götutónleika í Sankti Pétursborg þar sem hún flutti lög eftir útlægu rússnesku listamennina Monetochka og Noize MC.
Flutningurinn fór sem eldur í sinu um netheima og vakti athygli á tímum þar sem opinber andstaða við Kreml og stríðið í Úkraínu er nánast engin.
Hún hefur þegar afplánað tvo 13 daga dóma en var handtekin aftur og ákærð fyrir ný brot strax eftir að hafa verið sleppt í bæði skiptin.
Mannréttindalögfræðingar hafa sagt að söngkonan sé nú föst í „fangelsishringekju“, aðferð þar sem saksóknarar bera fram röð minniháttar ákæra á hendur sakborningum til að halda þeim stöðugt í gæsluvarðhaldi.
Í nýjasta málinu var hún fundin sek um að hafa skipulagt fjöldasamkomu fólks og dæmd í 13 daga fangelsi til viðbótar, að því er fréttaritari AFP greindi frá í dómshúsinu í Sankti Pétursborg.
Frá handtöku Loginovu hefur fjöldi myndbanda til stuðnings henni og hljómsveit hennar Stoptime flætt yfir TikTok, á meðan aðrir ungir götulistamenn hafa sýnt henni samstöðu opinberlega og þar með átt á hættu sektir eða fangelsisdóma sjálfir.
Gítarleikari hljómsveitarinnar, Alexander Orlov, var einnig dæmdur í 13 daga fangelsi til viðbótar.
Í réttarsalnum sat hann á milli lögfræðings síns og grímuklædds lögreglumanns.
Götusöngvarar í öðrum rússneskum borgum sem komu fram til stuðnings Loginovu hafa einnig verið handteknir.
Bannaður flutningur fyrir nokkrum vikum.
Daginn áður greindu óháðir fjölmiðlar frá því að dómstóll í borginni Perm, meira en 1.500 kílómetra austur af Sankti Pétursborg, hefði dæmt hina 20 ára gömlu listakonu Jekaterínu Romanovu í 15 daga fangelsi.
Romanova, einnig þekkt sem Jekaterína Ostasheva, hafði komið fram til stuðnings Loginovu í Perm og hafði þegar verið dæmd í sjö daga fangelsi fyrr í mánuðinum.
Þúsundir hafa verið handteknar síðan Rússland bannaði gagnrýni á herinn skömmu eftir að hafa hafið allsherjarinnrás sína í Úkraínu í febrúar 2022.













































Athugasemdir (3)