Í mars árið 2022 hækkaði gas- og rafmagnsreikningurinn minn þar sem ég bý í Bretlandi um 75 prósent. Skyndilega varð það fjárhagsleg ákvörðun að hita heimilið, elda mat og fara í sturtu. Ástæðan var snörp hækkun á heimsmarkaðsverði orku í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Skyndihækkunin lék mörg heimili grátt. Þetta hefði þó ekki þurft að fara svona.
Ávinningsins of langt að bíða
Frá því að ég fluttist til Bretlands árið 2002 hafa átta ríkisstjórnir viðrað áhyggjur sínar af samdrætti í innlendri orkuframleiðslu. En þrátt fyrir fjölda stýrihópa hefur staðið á úrbótum.
Í skýrslu, sem gerð var árið 2003 í forsætisráðherratíð Tony Blair, voru hugmyndir um nýtt kjarnorkuver settar á ís. Þótti kostnaðurinn of hár og ávinningsins of langt að bíða. Stjórnvöld vildu árangur strax. Í stað fjárfestinga í innviðum til framtíðar skyldi heldur stefnt að „markaðslausnum“ og „hagræðingu“.
En það er ekki aðeins á sviði orkumála sem slíkrar óþolinmæði gætir.
Í sjónvarpsþættinum Silfrið á mánudagsköld ræddu gestir þáttarins ástand húsnæðismarkaðarins á Íslandi. Vaxtaumhverfið bar óhjákvæmilega á góma og velti einn viðmælenda upp þeirri hugmynd að Íslendingar skoðuðu upptöku evru í von um aukinn stöðugleika.
Fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson vakti athygli á viðbrögðum formanns VR, Höllu Gunnarsdóttur, við hugmyndinni í þættinum, sem honum þóttu hæðnisleg. Halla sakaði evrusinna um að leita „töfralausna“. Hún hló („hæðnislega“ eins og Illugi komst að orði) þegar hún lýsti því sem „ótrúlegri einföldun“ að „stilla því upp“ sem svo að sú töfralausn væri evran. „En jafnvel þótt svo væri,“ sagði Halla okkur ekki geta beðið á meðan við tækjum „rifrildið um evruna“. „Það þarf aðgerðir núna,“ sagði hún.
Eru félagsmenn VR sáttir?
Ef Tony Blair hefði hafið byggingu orkuvers árið 2003 væri breskur almenningur ekki að greiða 75 prósentum hærra orkuverð árið 2025 en hann gerði fyrir innrás Rússa í Úkraínu.
Eins og Blair finnst Höllu Gunnarsdóttur framtíðin órafjarri. En morgundagurinn er nær en við höldum.
„Ætli allir félagsmenn VR séu sáttir við að þetta mikla hagsmunamál íslenskrar alþýðu bæði í bráð og lengd sé slegið svo léttilega út af borðinu með hæðnishlátri?“ spurði Illugi á Facebook í kjölfar ummæla Höllu.
Ef forfeður okkar, sem byggðu virkjanir, lögðu vegi, grófu göng og reistu spítala, hefðu sagt „þetta er of dýrt og tekur of langan tíma“, yljuðum við okkur nú við langeld í torfhúsum.
Auðvitað þarf húsnæðismarkaðurinn bráðaaðgerða við. En að setja plástur á sárið í dag firrir okkur ekki ábyrgð á að hefja langtímameðferð á meininu sem leiðir til lækningar í framtíð.
Framtíðarsýn er ekkert til að hæðast að
Skammsýni er eitt mesta mein samtímans. Stjórnmálafólk hugsar ekki lengra en til næstu kosninga, atvinnurekendur fram að næstu ársfjórðungsskýrslu.
Langtímaáætlanagerð er ekki töfralausn. Það er þvert á móti skyndilausnin sem er töfralausnin; loforðið um að eitthvað sé hægt að laga með því að smella fingri – án fyrirhafnar, flókinna samtala og jafnvel tímabundins sársauka.
Framtíðarsýn er ekkert til að hæðast að. Þvert á móti væri óskandi að hennar nyti við víðar.
Árið 2003 virtist árið 2025 vera í órafjarlægð. Í dag þykir okkur mörgum 2003 hafa verið í gær.
Hvað sem okkur finnst um evruna ber okkur að eiga um hana samtal. Það er ábyrgðarleysi að drepa málinu á dreif með hæðnisglósum og fullyrðingum um að það sé svo langt í framtíðina.












































Athugasemdir