Ríkislögreglustjóri hefur ráðið stjórnendaráðgjafann Þórunni Óðinsdóttur, eiganda fyrirtækisins Intru ráðgjafar, til starfa á skrifstofu embættisins. Ráðningin er tímabundin og var staðan ekki auglýst.
Fréttastofa RÚV greindi frá því í gær að Þórunn hefði í gegnum Intru fengið greiddar 160 milljónir króna fyrir ýmis og fjölbreytt verkefni hjá embættinu. Hún er stjórnendaráðgjafi og sérfræðingur í Lean Management, en var falið að velja gardínur og fara í skoðunar- og innkaupaferðir í Jysk og IKEA fyrir embættið.
Í svari embættis ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Heimildarinnar kemur fram að hún muni halda áfram verkefnum sem tengjast húsnæðismálum embættisins. Þar segir einnig að Þórunn hafi verið ráðin 5. september síðastliðinn og gegni stöðu sérfræðings á skrifstofu ríkislögreglustjóra. Hún sinnir verkefnum sem tengjast húsnæðismálum embættisins og stjórnunarráðgjöf, en ráðningin gildir í þrjá mánuði.
Þórunn hefur þó gegnt ígildi fulls starfs hjá embættinu mun lengur, en í fréttaflutningi RÚV segir að á fyrstu sex mánuðum þessa árs hafi Intra fengið greiddar hátt í þúsund klukkustundir, sem jafngildir fullri dagvinnu.
Ákvörðunin um fastráðningu var tekin „í lok sumars þegar ljóst var að niðurstaða vegna húsnæðismála embættisins myndi dragast á langinn“, að því er segir í svari embættisins.
Fyrra samstarf fyrir tugi milljóna
Þórunn hefur á undanförnum árum veitt ríkislögreglustjóra og stofnunum undir stjórn Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur víðtæka stjórnunarráðgjöf. Samkvæmt gögnum sem fréttastofa RÚV greindi frá í gær hefur embættið keypt þjónustu af Intru fyrir um 160 milljónir króna, og heildargreiðslur frá stofnunum undir stjórn Sigríðar Bjarkar nema um 190 milljónum króna.
Þjónustan hefur meðal annars tengst innleiðingu á Lean Management-verkferlum og umbótastarfi innan embættisins. Það er þó ekki síst ráðgjöf Þórunnar um skipulag vinnurýma, þar á meðal val á gardínum, sorpflokkunarílátum og uppsetningu á píluspjöldum, sem hefur vakið athygli.















































Athugasemdir