Snjó hefur kyngt niður á Suðvesturhorninu undanfarna tíma. Óundirbúnir ökumenn og erfiðar aðstæður hafa sett svip sinn á höfuðborgarsvæðið það sem af er morgni. Nokkrir bílar hafa endað utan vegar á Reykjanesbraut í morgun og varar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu við slæmri færð.
Snjómokstur hófst klukkan fjögur í morgun og hafa fleiri en tuttugu snjóruðningstæki verið í notkun á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir það hefur gengið erfiðlega að halda helstu leiðum auðum, því sífellt meiri snjór fellur úr lofti.

Einn vegfaranda sem ljósmyndari Heimildarinnar tók tali var í óða önn að moka bílinn sinn úr stæði til að ná í dekkjaskipti sem hann átti bókuð klukkan 9.
Svo virðist sem margir ökumenn hafi ekki verið búnir að skipta af sumardekkjum fyrir snjókomuna, sem hafði verið varað við í gær. Spám bar þó ekki alveg saman um hversu mikið vetrarveður yrði í dag og hafði heldur verið dregið úr viðvörunum um morgunsnjó eftir því sem leið á gærdaginn.
Gular veðurviðvaranir taka gildi á Vesturlandi, Höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi um hádegisbil í dag. Á vef Veðurstofunnar segir að akstursskilyrði muni versna.

Enn eru vetrarfrí í grunnskólum í Reykjavík og léttir það á umferð upp að einhverju marki. Úlfhéðinn Ullur Jónþórsson er einn þeirra nemenda sem eru í fríi í dag og hafði hann sett upp jólasveinahúfu áður en hann arkaði af stað út í bakarí í snjónum. „Hvað gerir maður á svona vetrarmorgni?“ sagði mamma hans Elísabet Stefánsdóttir og hló.

Samkvæmt upplýsingasíðu Reykjavíkurborgar er mokstrinum forgangsraðað. Stofnbrautir, strætóleiðir og fjölfarnar safngötur eru í forgangi og eiga að vera færar fyrir klukkan sjö að morgni. Aðrar meginumferðargötur skulu hreinsaðar fyrir klukkan átta.
Stofnstígar, ásamt helstu leiðum að strætóbiðstöðvum og skólum, eiga að vera greiðfærir fyrir klukkan átta en almennir stígar fyrir hádegi. Snjómokstur og hálkuvarnir við strætóbiðstöðvar, skóla, sundlaugar og velferðarstofnanir eru unnin eftir þörfum.















































Athugasemdir