Ferðaþjónusta snýst ekki fyrst og fremst um fjölda ferðamanna á gefnu tímabili. Hún á að vera sjálfbær atvinnugrein. Þar með snýst hún um ýmis fjárhagsleg gildi og um umhverfisþolmörk og samfélagsálag. Eins og aðrar atvinnugreinar á ferðaþjónusta líka að vera fagleg, vönduð og ánægjuleg fyrir neytandann jafnt sem veitandann enda eru ferðalög ein helsta afþreying og lærdómsleið samtímans.
Enn er spölur í land með sjálfbærni ferðaþjónustu á Íslandi og ekki laust við að oftar sé horft til höfðafjöldans á ári hverju en sjálfbærnimarkmiðanna. Umræða um þolmörk t.d. umhverfis og samfélaga vítt og breitt um land er lítt áberandi. Dreifing tekna af greininni er heldur ekki mikið rædd en þá helst hvernig fjármagn úr þjónustu við ferðafólk á landsbyggðinni hefur tilhneigingu til að leita til baka til höfuðborgarsvæðisins, þaðan sem margar fjárfestingar í ferðaþjónustu eru ættaðar.
Inn í þetta mynstur fléttast svo ástand innviða og áhrif milljónanna, sem hér ferðast, á þá og samfélagið. Nefna má vegi, ýmsar stofnanir í heilbrigðisþjónustu, stofnanir og félög viðbragðs- og hjálparliða, auk lögreglu og landvarða, og t.d. vanburða þjónustufyrirtæki eða stofnanir sem ferðamenn reikna með að geta auðveldlega leitað til. Mjög víða eru vegir í tötrum, samfélagsálag mikið, vegalengdir á milli þjónustustaða of langar og erfitt getur reynst að anna ásókn í þjónustu eða sinna útköllum. Aðstöðu vantar á mörgum stöðum, svo sem göngustíga, bílastæði, öryggisbúnað, merkingar og fjölbreyttari gistiaðstöðu. Vissulega er staðan góð eða sæmileg hér og hvar en í heild er alllangt í að 2,5 til 3,5 milljón ferðamenn á ári, svo einhver tala sé tínd til, mæti hér sem víðast bæði viðunandi eða góðum innviðum. Er ekki sá mikli fjöldi einmitt keppikefli í greininni? Hvar liggja breytileg fjöldamörk (í takt við vöxt samfélagsins) sem leyfa sjálfbærni að nást? Hvernig eflum við innviðina samhliða?
Tilefni greinarinnar er innviðagjald, 2.000 – 2.500 kr /sólarhring, fyrir hvern farþega sk. skemmtiferðaskipa. Erlend skipafélög/ferðaskrifstofur á þessu sviði bregðast ókvæða við og fréttir streyma um neikvæð áhrif gjaldsins á skipakomur til landsins. Vel má vera að gjaldtakan komi á óvart og fyrirsjáanleiki hafi mátt vera meiri. Aðalatriðið er þó að gjaldendur verða að skilja og virða tilefnið og sætta sig við þessa lágu upphæð í samanburði við veltu og hagnað úr skemmtiferðaútgerð og hátt ferðaverð í þessum geira. Íslenskir viðskiptaaðilar í honum ættu að gera það sama.
Norðurslóðaferðir fjögurra stórra skipafélaga kosta á bilinu 1.203 til 25.800 dollara skv. netsíðum sem auðvelt er að skoða. Verð er háð aðbúnaði farþega og lengd ferða (7 til 15 nætur). Augaleið gefur að 2.500 kr. fyrir eina aðkomu farþega hér við land og 10.000 kr. fyrir fjórar (eða 2.000 og 8.000 kr.) eru ekki upphæðir sem fæla ferðamenn frá landinu, þ.e. fyrir fólk sem sem greiðir ca. 150.000,- fyrir ódýrustu ferð með viðkomu á Íslandi og um 450.000-500.000,- fyrir einna algengustu 12 nátta norðurslóðaferðirnar, sem ég fann í fljótu bragði, og innihalda gjarnan 3-4 hafnarkomur hjá okkur. Samanburður talna gefur vísbendingar um hvaða „fælingarmátt“ innviðagjaldsins er að ræða.
Víða eru svona gjöld innheimt. Val af handahófi: Á Bermuda eru greiddir 25 dollarar, 12 á Barbados, í Alaska 34 dollarar til ríkisins, sýnist mér, og víða mun lægri aukaupphæð til borga og bæja (í Juneau er hún 13 dollarar og Haines hyggur á 9 dollara). Í Mexíkó eru greiddir 5 dollarar (apríl-september) en sums staðar þar er mun hærra gjald fyrirhugað. Santorini í Miðjarðarhafinu krefst 20 evra en á Ibiza er gjaldið 4-6 evrur. Til Amsterdam koma yfir 20 milljón ferðalanga á ári. Þar er skipagjaldið rúmar 14 evrur og mikill áhugi á að fasa út komur skipanna á næstu árum vegna álags á höfn og aðra innviði. Ísland verður ekki furðueyja í þessum efnum ef staðið er við að innheimta gjöld af tímabundnum notendum á ferðalagi um landið, eyrnamerktum til bættra innviða.
Höfundur er jarðvísindamaður og rithöfundur.













































Athugasemdir