Fjarskipta- og fjölmiðlafélagið Sýn, sem skráð er í kauphöllina, gagnrýnir harðlega frumvarp menningarráðuneytisins um menningarframlag streymisveitna, vegna þess að efni Sýnar virðist ekki falla undir markmið ráðuneytisins um eflingu íslenskrar tungu og menningar.
Frumvarpinu er ætlað að skattleggja erlendar streymisveitur og nýta féð sem menningarframlag til að „hvetja til fjárfestingar í framleiðslu kvikmynda, stuttmynda, leikins sjónvarpsefnis og heimildamynda, sem eru á íslensku eða hafa aðra íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun“. Það sem Sýn telur helst athugavert við frumvarpið er að meginhluti efnis Sýnar telst ekki styrkhæft, því það telst gjarnan skemmtiefni.
„Lagt er til að fréttir, útsendingar frá íþróttaviðburðum, leikja- og skemmtidagskrá, auglýsingar, textavarpsþjónusta eða fjarkaup, teljist ekki til innlends efnis í skilningi frumvarpsins,“ segir í skýringu með frumvarpinu.
Skemmtiefni er burðarstólpinn í efnisframleiðslu Sýnar, svo sem spurningaþátturinn Kviss með Birni Braga, Bannað að hlæja með Auðunni Blöndal og Alheimsdraumurinn með Auðunni, Pétri Jóhanni, Sveppa og Steinda jr. Sýn segir í umsögn sinni að „löggjöfin muni fyrst og fremst leggja byrðar á þá innlendu aðila sem nú þegar eru burðarásar í framleiðslu á íslensku dagskrárefni“ og lýsir „verulegum áhyggjum“ af atriðum frumvarpsins.

„Með því að útiloka heilu efnissviðin, svo sem fréttir, íþróttir og skemmtidagskrá, og með því að setja fram huglægt og teygjanlegt skilyrði um „íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun“, er verið að innleiða hljóð- og myndmiðlunartilskipunina með mun strangari hætti en hún krefst,“ segir í umsögn Sýnar, þar sem þröng afmörkun í skilgreiningum styrkhæfs efnis eru sögð ígilda „gullhúðun“, sem er tilvísun til óþarflega strangra ákvæða í innleiðingu laga.
Frumvarpið byggir á Evrópulöggjöf sem heimilar sérstaka skattlagningu streymisveita til að styðja evrópska framleiðslu.
Sýn sendi frá sér afkomuviðvörun í síðustu viku vegna verri afkomu en ætlað var, í kjölfar þess að auglýsingasala og sala á áskriftum reyndist undir áætlun. Sýn fjárfesti í réttinum til að sýna Enska boltann og hefur komið fram að félagið hafi greitt 1,3 til 1,4 milljarða króna fyrir réttinn á ári hverju á tímabilinu 2025 til 2028.
Fyrr á árinu fór Sýn í endurskoðun vörumerkjastefnu og lagði niður vörumerkið Stöð 2, ásamt því að leggja áherslu á að gera Sýn+ (áður Stöð 2) að streymisveitu og leggja niður áskriftir að línulegri dagskrá. Árangurinn hefur verið undir áætlunum.
Athugasemdir