Í vikunni bárust fréttir af því að foreldrum barna í fjörutíu grunnskólum í suðvestur Lundúnum sé nú bannað að mæta á íþróttaviðburði á vegum skólanna. Er ástæðan óásættanleg hegðun foreldra, sem ausa margir svívirðingum yfir börnin, sýna skipuleggjendum ruddaskap og ryðjast inn á hlaupabrautir til að stöðva för annarra barna en þeirra eigin í skólakapphlaupinu.
Það eru þó ekki aðeins breskir foreldrar sem snúa nú bakinu við almennri háttsemi.
- Helmingur alls starfsfólks breskra leikhúsa segist íhuga að segja upp vegna slæmrar hegðunar leikhúsgesta sem kalla í auknum mæli fram í fyrir leikurum, áreita starfsfólk, slást sín á milli og kasta af sér vatni í sætum sínum.
- Breskir verslunarmenn keppast við að leita leiða til að stöðva flóðbylgju ofbeldis í garð afgreiðslufólks.
- Heilbrigðisstarfsmenn upplifa síaukinn ótta í starfi vegna ógnandi hegðunar sjúklinga og ættingja þeirra.
Hvert sem litið er í Bretlandi – í skólum, verslunum, leikhúsum og heilsugæslustöðvum – má sjá skilti þar sem almenningur er minntur á að sýna öðrum góðvild og kurteisi. Fleiri en Bretar virðast þó þurfa á slíkri áminningu að halda.
„Viðbrögð margra við bón ungrar konu, sem bað samfélagið um að koma móður sinni í háska til hjálpar, voru hins vegar harðneskjuleg.“
Harðneskjuleg viðbrögð
Í síðustu viku var tónlistarkonan og aðgerðasinninn, Margrét Kristín Blöndal, eða Magga Stína, handtekin af ísraelska hernum þar sem hún sigldi sem sjálfboðaliði með hjálpargögn til Gaza.
Í kjölfarið biðlaði dóttir Möggu Stínu til íslenskra stjórnvalda og almennings um að beita sér fyrir því að móðir hennar yrði leyst úr haldi.
Viðbrögð margra við bón ungrar konu, sem bað samfélagið um að koma móður sinni í háska til hjálpar, voru hins vegar harðneskjuleg.
Árvökull Facebook-notandi tók saman fjölda þess fólks sem hæddist að ákalli hennar á samfélagsmiðlum með því að smella hlæjandi-„emoji“ tákni á umfjöllun um málið. Á þriðja hundrað manns, sem komu fram undir notendamynd og nafni – brosandi ömmur og fjölskyldufeður að knúsa börnin sín – virtust ekki finna hið minnsta til með konu í nauð og áhyggjufullri dóttur hennar.
Rithöfundurinn Bragi Páll Sigurðarson gagnrýndi kaldlynd viðbrögðin. „Ef þú hefur einhvern tímann velt því fyrir þér hvað þú hefðir gert í helförinni þá ertu að gera það núna.“ Í færslu á Facebook birti hann ljósmynd af kinnfiskasognum fanga í Auschwitz útrýmingarbúðunum, sem bar rauðan þríhyrning í barminum til merkis um að vera pólitískur fangi.
„Ertu ósammála skoðunum Möggu Stínu?“ spurði Bragi Páll. „Fagnar þú því að hún hafi verið fangelsuð fyrir engar sakir? Vonast þú til þess að fangavistin verði henni erfið? Þá vilt þú einfaldlega rauðan þríhyrning á Möggu og aðra sem þú ert ósammála og þarft að spyrja þig hvar þú fórst út af sporinu.“
Er fólk gott?
Hver hefðir þú verið í Þriðja ríki Hitlers?
Bragi Páll hvetur samborgara sína til að íhuga hvernig þeir vilji svara spurningunni: „Hvað gerðir þú? Brástu við í sinnuleysi? Hæðni? Eða samkennd og kærleika.“
Bragi Páll er örlátur í garð hópsins sem hann gagnrýnir og kemst að þeirri niðurstöðu að: „Fólk er gott. Við erum góð. Sýnum það.“
En í veröld þar sem fullorðnu fólki er ekki treystandi til að sækja íþróttaleiki barna, starfsfólk verslana sætir ofbeldi og leikhúsgestir stunda frammíköll og míga í sætin sín er erfitt annað en að velta fyrir sér hvort mannkynið eigi raunverulega skilið slíka tiltrú.
„En kannski er ummælakerfið ekki birtingarmynd á fráviki frá meðfæddri gæsku.“
Hugsunarlaus barbarismi
Bandaríski blaðamaðurinn William Shirer varð frægur fyrir fréttaflutning sinn frá Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar. Uppgangi nasismans lýsti hann svo: „Flestum Þjóðverjum, að mér virtist, stóð á sama þótt þeir væru smám saman sviptir frelsinu, þótt mikilfenglegri menningu þeirra væri tortímt og í staðinn kæmi hugsunarlaus barbarismi. ... Þvert á móti virtust þeir styðja það af einlægum ákafa.“
Af viðbrögðum notenda samfélagsmiðla við raunum Möggu Stínu að dæma skirrast nú margir við að „sýna“ hvað þeir eru „góðir“.
En kannski er ummælakerfið ekki birtingarmynd á fráviki frá meðfæddri gæsku. Kannski er illkvittnin ekki til marks um fólk sem fór stuttlega „út af sporinu“ og þarf ekki annað en að finna leiðina aftur að sinni náttúrlegu góðmennsku.
Kannski er gæska ekki fasti heldur val. Suma daga vöknum við og veljum – sem samfélag eða einstaklingar – að vera góð, sýna börnum umhyggju, nágrannanum kurteisi, konu í hremmingum samstöðu og dóttur hennar samkennd. En aðra daga vöknum við og veljum – sem samfélag eða einstaklingar – að láta undan myrkari kenndum sálarinnar, láta almennt velsæmi og siðmenninguna lönd og leið og gefa okkur á vald „hugsunarlausum barbarisma“ af „einlægum ákafa“.
Hvað ætlar þú að velja í dag? Gæsku eða grimmd?
Athugasemdir