Í ræðu sinni á landsfundi Miðflokksins í dag talaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, meðal annars harðlega gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið, gegn uppbyggingu Borgarlínu og fyrir bæði endursaminni aðalnámskrá og skynsemi þess að reyna á nýtingu olíu- og gasauðlinda á Íslandi.
Fimmta landsþing Miðflokksins var sett í dag en það fer fram á Hilton Nordica í Reykjavík um helgina. Á morgun munu flokksmenn velja sér nýjan varaformann en þrír þingmenn flokksins eru í framboði – Bergþór Ólason, Ingibjörg Davíðsdóttir og Snorri Másson.
Þjóðrækni og skynsemi
Í formannsræðu sinni lagði Sigmundur Davíð áherslu á mikilvægi þjóðrækni – þess að Íslendingar gerðu sér grein fyrir því hverjir þeir væru og styrktu löngunina til að vernda og efla land og þjóð – og þess sem hann kallar heilbrigða skynsemi.
„Pólitík og ákvarðanataka í stjórnmálum hefur í auknum mæli markast af kerfisræði, rétttrúnaði og kreddum sem ganga jafnvel svo langt að vart hefur orðið við algjöran viðskilnað við raunveruleikann,“ sagði Sigmundur Davíð. „Þegar við leyfum okkur svo að beita skynseminni fremur en að elta ríkjandi tíðaranda eða rétttrúnað geta stórkostlegir hlutir gerst.“
Mistök hafi einkennt stjórn landsins
Þegar skynsemi væri látin víkja fyrir kreddum fylgdu mistök, sagði formaður Miðflokksins. En ýmisleg „fyrirsjáanleg mistök“ hefðu átt sér stað við stjórn landsins. Í því samhengi nefndi hann meðal annars staðsetningu nýs Landspítala og ný lög um útlendinga sem Sigmundur segir hafa gert innflytjendamál á Íslandi stjórnlaus.
„Það voru fyrirsjáanleg mistök að ætla að setja reglur um hvernig fólk eigi að tjá sig og hugsa og senda alla landsmenn á innrætingarnámskeið. Það eru mistök að halda slíkum tilraunum áfram þrátt fyrir reynslu aldanna og grundvallarmikilvægi tjáningarfrelsis. Það voru fyrirsjáanleg mistök að álpast inn í loftslagsstefnu Evrópusambandsins og binda svo enn ákafari markmið í loftslagsmálum í landslög.“
Verði ekki breytingar á stjórn landsins, segir Sigmundur, munu stjórnvöld halda áfram að gera fyrirsjáanleg mistök.
„Þetta gerðist og mun gerast áfram nema það verði breytingar á stjórn landsins. Og það gerist ekki öðruvísi en að kjósendur sýni, í tæka tíð, að þeir séu búnir að fá nóg af umbúðamennsku og rugli og styðji heilbrigða skynsemi til valda.“

Segir hælisleitendur oft á vegum glæpagengja
Sigmundur Davíð ljáði máls á skoðunum sínum á hælisleitendamálum, en hann segir öflugt velferðrakerfi vera ósamrýmanlegt opnum eða lekum landamærum.
Þá sagði hann að að mati Evrópulögreglunnar kæmu yfir 95 prósent þeirra hælisleitenda sem til Evrópu á vegum glæpagengja. „Nú hafa hættuleg gengi glæpamanna gert velvild vestrænna ríkja að söluvöru. Þau hafa selt væntingar um betri lífskjör sem móttökulöndunum er ætlað að uppfylla. Ísland var gert að söluvöru þeirra sem skipuleggja slíkar ferðir og regluverkið hér og framkvæmd þess hafa ýtt undir það.“
Í stað þess að taka á móti fólki sem hefur engin áform um að aðlagast íslensku samfélagi leggur Sigmundur Davíð til að styðja frekar við fólk á nærsvæðum átaka og annarra hamfara.
Þá undirstrikaði hann mikilvægi þess að nýta Dyflinarreglugerðina þegar fólk kæmi til Íslands í gegnum önnur örugg ríki. Þannig mætti „strax ná tökum á vandanum og draga þannig stórlega úr möguleikum skipulagðrar glæpastarfsemi á að hafa landið, samfélagið og fólk í erfiðri stöðu að féþúfu.“
Varar við Evrópusambandinu
Sigmundur Davíð var afdráttarlaus í gagnrýni sinni á Evrópusambandið og það sem hann sagði áform ríkisstjórnarinnar að koma Íslandi inn í ESB „með öllum tiltækum ráðum,“ en hann segir slíka áherslu eingöngu geta stafað af viðskilnaði við raunveruleikann og heilbrigðri skynsemi.
„Evrópusambandið er í krísu. Hagvöxtur er lítill, fyrirtæki og heilu atvinnugreinarnar hrekjast í burtu, regluverkið er orðið svo yfirgengilegt að jafnvel forsprakkar samrunaþróunarinnar geta ekki annað en gengist við því. Það er við þessar aðstæður sem ríkisstjórnin einbeitir sér að því umfram allt annað að komast um borð í hið sökkvandi skip.“
Þá talaði formaður Miðflokksins einnig gegn því að Ísland gengist við loftslagsstefnu Evrópusambandsins og tæki þátt í gjaldlagningu vegna flugsamgangna og skipaflutninga. „Heilbrigð skynsemi kallar á að strax verði ráðist í að endurskoða íþyngjandi kvaðir og fráleit refsigjöld sem lögð eru á Íslendinga vegna loftslagsmála. Ísland, sem er best í heimi á þessu sviði, má ekki láta Evrópusambandið áfram draga sig inn í glórulausa stefnu sambandsins sem gerir ekki annað en að hrekja iðnað úr álfunni og skerða lífskjör.“

Athugasemdir (1)