„Við vonum að samkomulagið verði virt, því það er eina leiðin áfram,“ sagði Dr. Varsen Aghabekian, utanríkisráðherra Palestínu, á blaðamannafundi í forsætisráðuneytinu í dag. „Það er komið nóg af drápum og við þurfum að binda endi á ofbeldið og gagn-ofbeldið. Í dag horfum við til bjartari framtíðar.“
Aghabekian er í opinberri heimsókn á Íslandi í boði Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra. Tilviljun ræður því að hún sé stödd hér á landi þegar vopnahlé virðist vera í augsýn á Gaza eftir tveggja ára linnulausan hernað Ísraela á svæðinu.
„Það hefði átt að stöðva þetta miklu fyrr, því það var hægt að stöðva það.“
Hún ræddi við blaðamenn í stjórnarráðinu eftir hádegisfund með Þorgerði og Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra. Hún sagðist þurfa að trúa á að allir aðilar samkomulagsins sem tilkynnt var um í morgun muni virða það.
„Ég verð að trúa því að þetta sé mögulegt. Ég verð að tryggja að allir vinni að því markmiði,“ sagði hún. „Það hefði átt að stöðva þetta miklu fyrr, því það var hægt að stöðva það. Við vitum öll að þetta stríð var hægt að stöðva.“
Aghabekian var meðvituð um að íslenskur ríkisborgari, Margrét Kristín Blöndal, eða Magga Stína, væri í haldi ísraelskra stjórnvalda eftir að ísraelski herinn stöðvaði för báts sem hún var um borð í. Báturinn var stöðvaður á alþjóðlegu hafsvæði utan við Gaza-ströndina og var markmið leiðangursins að flytja neyðaraðstoð til stríðshrjáðra íbúa. Ráðherrann sagði Palestínumenn þakkláta Möggu Stínu.

„Palestínumenn kunna að meta hvers kyns aðgerðir, frá hvaða stofnun eða einstaklingi sem er, sem stígur fram til að sýna að við erum að reyna að rjúfa umsátrið, kúgunina, hernámið. Og því erum við mjög þakklát fyrir hana, en okkur þykir einnig mjög leitt það sem er að gerast hjá henni. En við vitum að þetta hefur verið mynstrið, og fyrri flotar hafa verið stöðvaðir,“ sagði hún.
„Aftur og aftur verðum við að segja að Ísrael hafi engan rétt til að stöðva flotana á alþjóðlegu hafsvæði. Þetta er brot á alþjóðalögum. Ég vona að samlandi ykkar verði látin laus eins fljótt og auðið er, og hún komist heim heil á húfi.“
Athugasemdir