Karlmaður á áttræðisaldri var í dag dæmdur fyrir að taka út rúmar 40 milljónir króna af reikningum látinnar móður sinnar. Maðurinn hafði verið fulltrúi erfingja við skipti á dánarbúi hennar. Hann var auk þess dæmdur fyrir peningaþvætti, þar sem hann millifærði hluta peninganna á milli eigin reikninga.
Dómur í málinu féll í dag og var maðurinn dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brotin. Hann játaði sök fyrir dómi og taldi dómurinn sannað að hann hefði bæði gerst sekur um fjárdrátt og peningaþvætti.
Fjárdrátturinn fór fram með sjö millifærslum og úttektum á árunum 2019 til 2021, samkvæmt dómnum, og tók maðurinn í heild 40.303.203 krónur af bankareikningi dánarbúsins. Hann tók út eða millifærði fjárhæðirnar yfir á eigin reikninga.
Síðar nýtti hann hluta fjárins með því að leggja fimm milljónir króna inn á reikning dóttur sinnar og millifæra rúmar 14 milljónir milli eigin reikninga, sem var talið fela í sér peningaþvætti.
Við ákvörðun refsingar var tekið tillit til þess að maðurinn væri rúmlega sjötugur, hefði ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi, hefði játað brotin skýlaust og að nokkur tími hefði verið liðinn frá brotunum. Hins vegar vó þungt að hann hefði dregið að sér háar fjárhæðir úr dánarbúi móður sinnar, á kostnað annarra erfingja.
Athugasemdir