„Að undanförnu hef ég fengið afar eindregna hvatningu frá flokksmönnum til þess að gefa kost á mér í þetta hlutverk. Sú áskorun er komin frá ungum sem öldnum úr öllum áttum. Niðurstaða mín er sú að fram sé komið raunverulegt ákall innan flokksins um endurnýjun í ásýnd forystunnar.“
Þetta segir Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, í tilkynningu til fjölmiðla en hann hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis varaformanns Miðflokksins.
Þingmennirnir Bergþór Ólason og Ingibjörg Davíðsdóttir hafa einnig gefið kost á sér til varaformanns. Landsþing flokksins mun fara fram dagana 11.-12. október.
„Nú vex úr grasi kynslóð Íslendinga sem er líklega pólitískari en nokkru sinni fyrr og tækifærin fyrir Miðflokkinn í þessum hópi eru meiri en flestir gera sér grein fyrir. Líklega hefði maður uppskorið hlátur fyrir aðeins örfáum árum ef maður hefði spáð því að árið 2024 væri Miðflokkurinn farinn að vinna Krakkakosningar, en svona eru tímarnir að breytast.
„Verði ég kjörinn varaformaður Miðflokksins, mun ég róa að því öllum árum með núverandi forystu að nýta þetta dauðafæri. Við þurfum núna að færa út kvíarnar og halda áfram stækka flokkinn á okkar trausta grunni,“ segir Snorri.
Athugasemdir