Það er enn myrkur þegar fólk fer á fætur í Finnbogastaðaskóla í Trékyllisvík í Árneshreppi á Ströndum kaldan laugardagsmorgun seint í september og gerir sig klárt í göngur og seinni réttir.
Skólinn, sem gekk nýlega í endurnýjun lífdaga þegar piltur og stúlka hófu þar skólagöngu eftir nokkur tómleg ár, er aftur orðinn fullur af lífi. Virka daga á milli rétta hefur staðarhaldarinn og leiðbeinandinn Sigrún Sverrisdóttir boðið öllum sínum gestum á grunnskólaaldri að taka þátt í skólastarfinu. „Mest voru fimm aðkomukrakkar hér í vikunni. Sjö nemendur í allt. Það er jafnmargt og var í skólanum árið 2016, áður en snarfækkaði,“ segir Davíð Már Bjarnason.
Sigrún, kona hans, rekur skólann auk þess sem þau hjónin tóku við búskap í Litlu-Ávík þegar þau fluttu í sveitina með Viktoríu, dóttur sinni, fyrir fáum árum.


Athugasemdir