„Að spá fyrir um framtíðina er eins og að aka niður einbreiðan sveitaveg að næturlagi með ljósin slökkt á meðan horft er út um afturrúðuna,“ er haft eftir Peter Drucker, bandarískum stjórnunarfræðingi. Árangurinn er oft eftir því:
1876: „Vel má vera að Ameríkanar hafi þörf fyrir síma en ekki við. Við eigum nóg af sendisveinum.“ – William Preece, starfsmaður Breska póstsins.
1903: „Hesturinn er kominn til að vera en bifreiðin er ekkert annað en stundardella – tískufyrirbrigði.“ – Forstjóri Sparisjóðs Michigan sem ráðlagði viðskiptavini frá því að fjárfesta í bílaframleiðandanum Ford.
1943: „Ég tel að stærð tölvumarkaðarins á heimsvísu sé fimm tölvur.“ – Thomas Watson, forstjóri IBM.
1946: „Sjónvarpið mun ekki halda markaðshlutdeild nokkurs staðar lengur en í sex mánuði. Fólk mun fá nóg af því að sitja og glápa á kassa úr krossviði hvert einasta kvöld.“ – Darryl Zanuck, yfirmaður kvikmyndaframleiðandans 20th Century Fox.
1964: „Eldhús munu senn útbúa mat sjálfkrafa.“ – Isaac Asimov, rithöfundur.
1981: „Farsímar munu svo sannarlega ekki leysa landlínuna af hólmi.“ – Marty Cooper, uppfinningamaður.
2007: „Það er ekki nokkur leið að iPhone-inn nái nokkurri markaðshlutdeild.“ – Steve Ballmer, framkvæmdastjóri Microsoft.
Árið er 2025
Árið 2023 skrifaði þekktur barnabókahöfundur grein í Morgunblaðið sem bar heitið „Árið er 2025“. Greinin vakti gríðarlega athygli en í henni gagnrýndi höfundurinn íslenska uppalendur harðlega. Spáði hann fyrir um að árið 2025 hefðu foreldrar „ekki lengur tíma til að vera foreldrar“.
Útlistaði hann ástæðuna í útvarpsviðtali næsta dag. Taldi hann foreldra of upptekna af áhugamálum sínum til að sinna foreldrahlutverkinu. Fullyrti hann að „langflestir foreldrar“ vissu að þeir væru „ekki að standa sig nógu vel“.
Ekki leið á löngu uns allir og amma þeirra voru orðnir sérfræðingar um dáðleysi foreldra. „Vandinn í dag er sá, að konur/mæður á Íslandi, eru hættar að vera inn á heimilinu og ala upp börnin sín,“ fullyrti spekúlant í athugasemd um málið á Vísi. „Það skyldi þó ekki vera að fólk brenni ekki út í vinnunni heldur miklu frekar vegna alls sem það tekur sér fyrir hendur utan vinnu,“ varpaði annar fram.
En eins og dæmin sýna er hægara sagt en gert að spá fyrir um framtíðina.
Streituvaldandi hlutverk
„Æ fleiri Íslendingar velja að eignast ekki börn,“ kvað í fyrirsögn á Vísi í vikunni. Samkvæmt nýrri rannsókn fræðimanna í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands er fæðingartíðni hér á landi „í frjálsu falli“.
Ásdís Aðalbjörg Arnalds, lektor í félagsráðgjöf, ræddi ástæður þess hvers vegna fólk veldi að eignast ekki börn.
„Fólk sér þetta sem streituvaldandi hlutverk,“ sagði Ásdís. „Við sjáum það bæði í rannsóknum hérlendis og erlendis að foreldrahlutverkið er orðið miklu fyrirferðameira en það var hér áður og foreldrar í dag eyða miklu meiri tíma með börnunum sínum en foreldrar gerðu áður.“
Allt er ekki nóg
Árið er 2025. Þvert á spá barnabókahöfundarins verja foreldrar nú meiri tíma með börnum sínum en nokkru sinni fyrr.
Sem hluti af rannsókn á fæðingartíðni tók Ásdís Aðalbjörg viðtal við ungar konur sem ekki höfðu tekið ákvörðun um barneignir. Ein fyrirstaða sem konurnar nefndu margar var sú gífurlega „sérfræðikunnátta“ sem þeim fannst þær þurfa að búa yfir til að verða foreldri; allar bækurnar sem þær þyrftu að hafa lesið og öll handtökin sem þær þyrftu að hafa tileinkað sér.
Ásdís sagði það að vissu leyti gott að fólk vildi vera undirbúið, en kannski þyrfti að fara milliveg. „Þurfum við að gera allt?“ spurði Ásdís.
Ef marka má sófasérfræðingana er svarið: Allt er ekki einu sinni nóg.
Samkvæmt mönnum, sem hafa lokið því verki að „fokka upp“ eigin afkvæmum og vantar nú eitthvað að gera í frítíma sínum, er ekki lengur nóg að veita börnum ást og umhyggju, þak yfir höfuðið og næringu. Það er heldur ekki nóg að muna eftir sparinestisdeginum í skólanum, náttfatadegi, búningadegi, bangsadegi, bekkjarkvöldi, mömmumorgni, foreldraviðtalinu, öskudegi, jólaföndri, dósasöfnun, fjáröfluninni og kökubasarnum. Það er ekki nóg að keyra þau í fimleika, fótbolta og fiðlutíma, kenna þeim að tefla og rökræða, fara með þau á skíði og til Tene og klæða af þeim kuldann með úlpu fylltri kanadískum gæsadún.
Því sama hvað oft foreldrar rífa af afkvæmum sínum iPaddinn, græta dómara af hliðarlínunni á fótboltamótum og fela spínat í pastasósunni, sama þótt þeir hái daglega baráttu við að vernda ungviðið frá illu á borð við síma, sykur, gervisykur, plast, teflon, ofurunnin matvæli, herta jurtafitu, Andrew Tate, flassara, költ og Staksteina Morgunblaðsins, sjá sjálfskipaðir uppeldisfræðingar í hverju horni djöfulinn og foreldra í fjallaklifri, jóga eða „bottomless brunch“.
Ýmsar ástæður hafa verið tilgreindar fyrir lækkandi fæðingartíðni: Efnahagsþrengingar, húsnæðisskortur, skortur á leikskólaplássum, sjálfselska kvenna og hnignandi siðferði.
Árið 2025 má bæta kenningu í pottinn. Einn þáttur í hríðfallandi fæðingartíðni er gegndarlaus foreldrafordæming sófasérfræðinga.
Athugasemdir (4)