Til þess að ná því mikilvæga markmiði að halda aftur af hlýnun loftslagsins og jafnvel snúa þróuninni þarf að ríghalda í ákveðið markmið: Aðeins má vinna/nýta um þriðjung þekktra birgða í jörð af kolum, olíu og gasi ef halda á sífellt hraðari loftslagshlýnun innan við 2°C hækkun meðalhita jarðar. Nýtinguna verður að fasa út á eins fáum árum og unnt er. Til viðbótar verður að sjá til þess að sem minnst verði nýtt af kolum en að jarðgas (í fyrsta sæti) eða olía (í öðru sæti) komi sem mest í stað kolanna við orkuframleiðslu. Kolin losa mest af gróðurhúsagösum fyrir hvert brennt tonn en gasið minnst. Til þessa þarf pólitískar ákvarðanir. Tímabil slíkra aðgerða verður að leiða til heildar kolefnishlutleysis, þ.e. þar til kolefnislosun og kolefnisbinding taka að snúa við alvarlegri loftslagsþróun sem er vísindalega staðfest. Þessar staðreyndir merkja að héðan af má hvergi opna nýjar olíu- og gaslindir.
Staðan nú merkir líka í raun að ekki má snerta frekari orkuauðlindir af þessu tagi á norðurslóðum. Leyft neyðarmagn olíu og gas má að mestu komast yfir annars staðar en norðan heimskautsbaugs. Enn sem komið er fer vinnslan þó yfir þau mörk á heimsvísu og raunar herðir á henni fremur en hitt. Vonir eru engu að síður bundnar við að ríki heims þrói vistvæna orkugjafa hraðar en nokkru sinni, meðal annars jarðvarma, sólarorku og sjávar- og vindafl, jafnvel kjarnorku. Þar eru nokkrir lyklanna að sjálfbærri framtíð en við ramman reip að draga. Aðrir eru er t.d. sparnaður, minni neysla og þróun hringrásarhagkerfis. Ótal hagsmunaaðilar og auðhringir í orkugeiranum, iðnaði og þjónustu hafa staðið fast gegn nægum framförum, ýmist sjálfir eða fyrir tilstuðlan stjórnmálamanna sem margir hverjir afneita með öllu umhverfisvá vegna loftslagsbreytinga, hvað þá að manninum sé að miklu leyti um að kenna.
Íslendingar eiga áfram að hafna rannsóknum, og enn frekar, vinnslu olíu og gass, við Jan Mayen. Gildir einu þótt hagnast megi á henni. Sú dýra vinnsla, jafnt sem frekari rannsóknir, dregur ekki úr olíu- og gasvinnslu annars staðar heldur bæri hún þess vitni að við viljum taka þátt í kapphlaupinu um að hagnast á efni sem þegar er vitað um í nægum mæli, meira að segja of miklum mæli. Vissulega verður erfitt fyrir sum ríki eða sjálfstjórnarsvæði, sem reiða sig á sölu olíu, kola og gass, að ná landi í loftslagsmálum, en þau neyðast til þess. Við erum ekki þar.
Ýmsir sérfræðingar um kolvetnisauðlindir og um jarðlög við Jan Mayen telja litlar líkur vera til þess að rannsóknir staðfesti vinnanlega olíu á Drekasvæðinu. Það var einmitt niðurstaðan sem leiddi til að erlendu fyrirtækin tvö skiluðu inn sínum leyfum eftir veruleg fjárútlát. Eftir það var hárrétt bann lagt með lögum á frekari athafnir í þessa átt á svæðinu. Orð brennandi olíusinna og t.d. Viðskiptaráðs um að opna nú fyrir frekari rannsóknir á Drekasvæðinu eru alvarleg og hættuleg tímaskekkja. Við afsölum okkur ef til vill fé með því að láta jarðefnin liggja en fáum framtíðarlífsgæði í staðinn fyrir skýjaborg byggða á úreltri og fokdýrri orkuvinnslu við erfiðar aðstæður norðan heimskautsbaugs.
Allmörgum þykja hugmyndir um að hverfa frá olíu- og gasvinnslu við Jan Mayen óðs manns æði. Það minnir á að engum hefði þótt öðru vísi farið, hefði einhver á söguöld sagt að ekki mætti nýta nær allan stöndugan skóg á landinu. Viljað heldur halda til haga miklu af þessu nauðsynlega, endurnýjanlega og verðmæta brenni og trjávið sem hér var. Um afleiðingar skógareyðingarinnar deilum við vart lengur. Afsökun landnema var raunar sú að önnur, rík orkuauðlind var ekki í boði og hugmyndir um sjálfbærar skógarnytjar ekki til í samfélögum miðalda. Við erum sannarlega langt frá þeirra sporum en þau hræða. Við getum lifað ágætu lífi án þess að leita að og nýta auðlind sem er nú þegar tekin að valda alvarlegri umhverfisvá, líkt og skógareyðing gerði til forna. Við getum lagt drjúgan skerf til andófs gegn losun gróðurhúsagasa með því að vinna ekki olíu og gas, og bera um leið ekki ábyrgð á brennslu íslenskrar olíu og gass. Austur svarta gullsins inn í örlagaríkan vítahring jarðefnabrennslu og síversnandi loftslagsbreytinga gengur ekki upp og má ekki takast. Landsmenn eiga ekki að skilja eftir sig þá arfleifð að hafa aðeins kunnað sér óhóf, eina ferðina enn, heldur taka fullan þátt í að snúa loftslagsþróuninni til hins betra.
Höfundur er jarðvísindamaður og rithöfundur.
Athugasemdir (1)