Fulltrúar Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna komu í dag í veg fyrir að ráðið samþykkti ályktun um tafarlaust vopnahlé í Gaza, þar sem ísraelski herinn stendur fyrir mannskæðri innrás í Gazaborg samhliða því sem alþjóðastofnanir hafa skilgreint sem þjóðarmorð á Palestínumönnum.
Ályktunin kvað á um „kröfu um fyrirvaralaust, skilyrðislaust og varanlegt vopnahlé í Gaza sem allir aðilar virða“. Sömuleiðis fólst í ályktuninni að mannúðaraðstoð yrði hleypt á svæðið. Þetta féllust Bandaríkin ekki á og beittu neitunarvaldi sínu í ráðinu. Bandaríkin hafa neitunarvald í ráðinu, sem og Bretland, Kína, Frakkland og Rússland.
„Bandaríkin hafna þessari óásættanlegu ályktun. Það er löngu tímabært að Hamas leysi alla gísla strax úr haldi og gefist samstundis upp. Bandaríkin munu áfram vinna með samstarfsaðilum sínum að því að binda enda á þessa hryllilegu átök,“ sagði fulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Morgan Ortagus, áður en hún beitti neitunarvaldinu.
Bandaríkin beittu síðast neitunarvaldi gegn sambærilegri ályktun í júní síðastliðnum.
Fyrr í dag tóku Bandaríkin þó þátt í að fordæma loftárás Ísraels í Katar sem átti sér stað í síðustu viku.
Innrás í Gaza-borg
Ísraelski herinn sendi í dag skriðdreka og orrustuþotur til árásar á Gaza-borg, vegna fyrirhugaðrar hertöku. Ísraelsk yfirvöld hvöttu Palestínumenn til að flýja suður. Herinn tilkynnti um fráfall fjögurra hermanna.
Blaðamenn AFP og sjónarvottar sáu stöðugan straum fólks leggja leið sína suður á við, gangandi, á ökutækjum og vögnum, með fábrotnar eigur sínar staflaðar upp.
„Það er stórskotahríð, loftárásir, skothríð úr fjórhjóladrónum og öðrum drónum. Sprengjuregnið hættir aldrei,“ sagði Aya Ahmed, 32 ára, sem leitar skjóls með 13 ættingjum sínum í Gaza-borg.
„Heimurinn skilur ekki hvað er að gerast. Þeir (Ísraelar) vilja að við flytjum suður — en hvar eigum við að búa? Það eru engar tjaldbúðir, engin farartæki, engir peningar.“
Palestínumenn segja að kostnaðurinn við að komast suður hafi rokið upp, í sumum tilvikum yfir 1.000 Bandaríkjadali.
„Aðstæðurnar eru ólýsanlegar — mannfjöldi út um allt, sprengingar óma, konur og karlar gráta og öskra á meðan þau ganga með eigur sínar,“ sagði Shadi Jawad, 47 ára, og lýsti þrautagöngu fjölskyldu sinnar þegar þau flúðu heimili sitt á miðvikudag.
„Guð minn, sendu eldflaug til að taka okkur burt og lina kvölina,“ bætti hann við.
Aðgerðirnar hafa vakið reiði á alþjóðavettvangi, þar sem landsvæðið er þegar rústir einar eftir nær tveggja ára stríð og hungursneyð, sem SÞ hefur lýst yfir, ríkir í Gaza-borg og nágrenni.
Athugasemdir