Það er dýrmætur eiginleiki að staldra við áður en stórar og mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Að vaða ekki fram í opinbera umræðu með gífuryrðum sem byggja meira á tilfinningum en upplýsingum. Þessi hæfileiki er sér í lagi mikilvægur þeim sem fara með opinbert vald eða geta komið fram og talað fyrir hönd heillar þjóðar. Með því að íhuga og ígrunda gefst rými til að spyrja sig: Hvað finnst mér í raun? Fyrir hvað vil ég standa? Hver eru mín gildi? En þessi hæfni getur líka snúist upp í andhverfu sína. Þegar varfærnin verður til þess að lítið er sagt eða gert, þegar ígrundunin verður að samfelldri frestun. Þá verður hún að skjóli fyrir afstöðuleysi.
Frá því í október árið 2023, eða í næstum tvö ár, hafa íslensk stjórnvöld íhugað og velt fyrir sér ýmsu um hvernig eigi að bregðast við stöðugum árásum og hernaðaraðgerðum á Gaza. Tveggja ára íhugun varð til þess að undir lok síðasta mánaðar steig utanríkisráðherra fram og sagði að í ráðuneytinu væri verið að íhuga og meta refsiaðgerðir gegn Ísrael. Sama dag og ráðherrann upplýsti um þessa skoðun birtu breska blaðið Guardian, ísraelsk-palestínski fjölmiðillinn +972 Magazine og fréttamiðillinn Local Call, sem skrifar á hebresku, upplýsingar um að ísraelski herinn teldi sjálfur að 83 prósent þeirra sem drepn höfðu verið í maí í árásum á Gaza hefðu verið almennir borgarar. Ekki vígamenn eða liðsmenn Hamas, sem herinn fullyrðir að stríðið beinist að, heldur venjulegt fólk, bæði fullorðnir og börn, sem höfðu unnið sér það eitt til sakar að vera palestínsk að uppruna.
Tölurnar yfir þau sem drepin hafa verið í stríðinu eru orðnar svo stórar að þær eru líklega löngu komin úr öllum tengslum við þann raunveruleika sem við flest erum fær um að skynja. Það er miklu auðveldara að skilja og ná utan um að sex hafi verið skotin til bana heldur en að 64.656 hafi verið drepin í hernaðaraðgerðum. Samhengið við söguna er þó mjög skýrt.
Í ár eru þrjátíu ár frá þjóðarmorðinu í Srebrenica í Bosníu og Hersegóvínu. Þar voru fleiri en átta þúsund bosnískir múslímar – Bosníakar – drepnir á tíu daga tímabili. Fjörutíu þúsund bosnískir múslímar höfðu þá flúið þjóðernishreinsanir Bosníu-Serba, sem þá höfðu staðið frá 1992, og leitað skjóls í borginni, sem átti að vera öruggt svæði. Þó að þrjátíu ár séu liðin er enn verið að bera kennsl á líkamsleifar þeirra sem þarna voru myrt. Í þjóðernishreinsunum Bosníu-Serba var hlutfall óbreyttra borgara af þeim sem létu lífið 57 prósent. Þegar tölur yfir þá sem drepnir voru á þessum tíu dögum í Srebrenica eru skoðaðar einar og sér hækkar hlutfallið í 92 prósent. Enginn deilir um að þetta hafi verið þjóðernishreinsanir og hafa á sjötta tug verið dæmdir fyrir stríðsglæpi og aðild sína að þjóðarmorðinu.
Það er því ekki úr lausu lofti gripið þegar fræðimenn, lögmenn og baráttufólk fyrir mannréttindum segja að Ísrael sé að fremja þjóðarmorð á Gaza. Sú niðurstaða er ekki byggð á tilfinningalegum upphrópunum, heldur á gögnum, þekkingu og vandlega ígrunduðu mati.
Þegar við stöndum frammi fyrir svo skýrum mannúðarhörmungum hlýtur tíminn til áframhaldandi íhugunar og nær takmarkalausrar varfærni í viðbrögðum að þurfa að styttast.
Niðurstaðan sem fékkst í utanríkisráðuneytinu, eftir síðustu íhugun um aðgerðir og viðbrögð, var að banna tveimur ísraelskum ráðherrum að koma til Íslands, sem voru þó ekki á leiðinni, og að uppfæra ekki fríverslunarsamning EFTA við Ísrael. Áhrifin eru engin og aðrar þjóðir, sem við segjumst vilja fylgja að máli, hafa fyrir löngu tilkynnt um sams konar fyrirætlanir.
Íslensk þjóð, og þar með ráðherrar, eru líklega sammála um að hernaðurinn á Gaza sé hryllilegur og í engu samræmi við yfirlýst markmið ísraelskra stjórnvalda um að vernda eigin borgara. Sagan mun ekki dæma það sem við sem þjóð hugsum eða ræðum okkar á milli, heldur það sem við gerum. Ísland hefur áður tekið af skarið, gengið fram með góðu fordæmi og verið rödd frelsis og mannréttinda. Það birtist til að mynda þegar íslensk stjórnvöld gengu fram fyrir skjöldu og viðurkenndu sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna á tíunda áratugnum. Líka þegar stjórnvöld viðurkenndu Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki árið 2011.
Við getum og eigum að taka miklu skýrari afstöðu og grípa til aðgerða sem endurspegla afstöðu okkar um að ekkert réttlætir skipulagt þjóðarmorðá tugum þúsunda saklausra Palestínumanna. Þótt við séum smáþjóð getum við tekið miklu stærri skref. Tíu þúsund Íslendingar hafa þegar skorað á stjórnvöld að styðja við málsókn Suður-Afríku, sem hóf málaferli gegn Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum í fyrra. Fyrrverandi utanríkisráðherra hefur hvatt stjórnvöld til þess að segja sig úr fríverslunarsamningi EFTA við Ísrael, Eurovision-söngvakeppninni, og evrópsku og alþjóðlegu knattspyrnusamböndunum UEFA og FIFA. Það bindur ekki enda á þjóðarmorð að spila ekki fótbolta eða syngja á sviði, en það er líklega það minnsta sem við getum gert.
Nú hljótum við að vera búin að íhuga þetta nógu lengi.
Athugasemdir