„Fyrstu viðbrögðin voru þau að það voru engin stórtíðindi í fyrsta fjárlagafrumvarpi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson þingmaður og formaður Framsóknarflokksins um nýtt fjárlagafrumvarp sem kynnt var í morgun. Hann bætir því við að það sé: „Engin sleggja til að slá niður verðbólgu og vexti.“ Blaðamaður spyr þá hvort hann telji frumvarpið til þess fallið að draga úr verðbólgu. Hann svarar: „Hægt og rólega.“
Aðspurður hvort honum þyki raunhæft að minnka halla ríkissjóðs niður í fimmtán milljónir á næsta ári segir Sigurður Ingi: „Þetta er bjartsýn spá. Þau byggja á því að hagvöxtur haldi áfram að vera hér öflugur og öflugri en til að mynda í Evrópu.“ Slíkt sé bjartsýnt „miðað við það að þá þyrfti ríkisstjórnin líka að vera með einhverja hvata til verðmætasköpunar í landinu öllu – sem ég hef haft áhyggjur af að þau sé ekki að leggja næga áherslu á,“ segir hann.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra kynnti fyrr í dag fjárlagafrumvarp ársins 2026. Þar er gert ráð fyrir því að dregið verði úr hallarekstri ríkisjóðs. Áætlað er að hann verði 15 milljarðar á næsta ári en í fyrra var hallinn 62 milljarðar. Markmiðið er að árið 2027 verði ríkisrekstur hallalaus.
Vanáætluð útgjöld til heilbrigðismála
Sigurður Ingi segist hafa áhyggjur af því að útgjöld til heilbrigðismála séu vanáætluð. „Ég hef trú á því að heilbrigðismálin munu taka meira til sín og ég er að tala af reynslu síðustu ára. Það kallar ávallt á aukið fjármagn hvort sem það er stighækkandi kostnaður við lyf eða nýja tækni,“ útskýrir hann. Því þurfi að áætla mun meira en frumvarpið geri ráð fyrir. „Talsvert meira en þau eru að leggja hér til. Þannig ég held að hér sé áskorun fyrir kerfið,“ segir hann.
Þá segir Sigurður Ingi Framsókn einnig hafa áhyggjur af tekjulægri hópum samfélagsins. „Við höfum áhyggjur af því að það verði sífellt erfiðara hjá þeim, ekki síst ungu fólki með börn. Samkvæmt þessu eru ekki neinar áætlunar um að hækka barnabætur eða annað slíkt fyrir þann hóp,“ útskýrir hann.
Má jafna lífeyri
„Svo höfum við séð að eftir kerfisbreytingu á örorkukerfinu, þá er grunnörorkulífeyrir orðin fimmtíu þúsund krónum hærri en ellilífeyrisþega,“ segir hann og bætir við: „Ég átti von á því að það yrðu plön um að jafna það.“
Hann gagnrýnir einnig að ekki hafi verið sérstök útgjöld til húsnæðismála. „Hvorki til þess að auka stofnframlög eða hlutdeildarlán eða jafnvel húsnæðisbætur,“ segir hann.
Athugasemdir