Fjórtán manns frá Asíu hafa frá því í lok ágústmánaðar verið stöðvuð á Keflavíkurflugvelli með fölsuð skilríki. Fólkið er ekki í gæsluvarðhaldi en má hvorki koma inn í landið né halda ferð sinni áfram. Þau eru því í úrræði á afmörkuðu svæði sem lögreglan getur fylgst með á grundvelli laga um útlendinga og laga um landamæri.
Þetta staðfestir Ómar Annisius, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, í samtali við Heimildina. „Við erum enn að vinna í því að staðfesta auðkenni þessara aðila. Það er verk í vinnslu. Við erum að vonast eftir því að fá einhverja samvinnu frá þessum einstaklingum til þess að aðstoða okkur við að bera kennsl.“
Blm: Er grunur um að þetta gæti verið mansal?
„Við útilokum það alls ekki,“ segir Ómar.
Gefa upp rangt þjóðerni
Allir einstaklingarnir höfðu komið frá Asíu til Evrópu, inn á Schengen-svæðið þaðan sem þau ferðuðust til Íslands og ætluðu sér að halda áfram til Kanada. „Þetta eru allt mismunandi staðir innan Evrópu sem þetta fólk er að ferðast frá.“
Spurður nánar út í eðli skilríkjanna segir Ómar þau vera frá ýmsum löndum – Suður-Kóreu, Japan og Taívan, til dæmis.
Blm: Haldið þið að þau séu að villa á sér heimildir með tilliti til þjóðernis?
„Já,“ segir Ómar, sem vill ekki tjá sig um það hvort fólkið hafi verið í samfloti. Þá segir hann enn ótímabært að segja í hvaða erindagjörðum einstaklingarnir voru.
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar er um Kínverja að ræða.
Gríðarlegt álag á lögregluna
Blm: Er einhver grunur um að það hafi verið stærri hópur – komust einhverjir í gegn?
„Ég get ekki staðfest að svo stöddu að einhver hafi komist í gegn. En við erum í samskiptum við Evrópulögregluna og önnur ríki til að reyna að ná betur utan um ástandið og sjá hvort þetta sé mögulega hluti af einhverju stærra verkefni, ef svo má segja.“
Ómar segir aðspurður að málið sé óvenjulegt, málið eigi sér ekki fordæmi. „Það er óvenjulegt að sjá svona marga koma á svona stuttum tíma, svo sannarlega. Það sem er í raun sami áfangastaðurinn – Kanada í þessu tilfelli. Þetta setur gríðarlegt álag á ákveðna innviði og á lögregluna. Þarna mæðir rosa mikið á að við þurfum að hafa úrræði til þess að geta tekist á við verkefni af þessari stærðargráðu.“
„Við erum í samskiptum við Evrópulögregluna og önnur ríki til að reyna að ná betur utan um ástandið og sjá hvort þetta sé mögulega hluti af einhverju stærra verkefni, ef svo má segja“
Hann bætir við að málið kristalli mikilvægi þess að koma á einhvers konar úrræðum við landamærin þegar svona mál komi upp – en Ómar segist sannfærður um að fleiri slík mál lendi á borði lögreglu í framtíðinni. „Það sem ég myndi mest vilja sjá – og lögreglan – er að það væri einhvers konar vistunarúrræði á landamærunum þar sem við gætum verið að hýsa einstaklinga sem fá ekki landgöngu og eru til skoðunar.“
Fyrst að sjá núna að herjað sé á Ísland
Ómar bætir því við að lögreglan á Suðurnesjum, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóri séu að vinna náið saman við úrlausn þessa máls. „Við erum líka í mjög góðum samskiptum við dómsmálaráðuneytið.“
Spurður hvort hægt sé að setja málið í samhengi við alþjóðlega þróun segist Ómar telja að svona mál hafi verið viðvarandi í töluverðan tíma.
„Við erum kannski fyrst að sjá núna að það sé verið að herja svona grimmt á Ísland. Ísland er náttúrulega þessi tengivöllur við bæði Evrópu og Bandaríkin. Þannig að þarna eru menn að reyna að koma sér í gegn og nýta sér flugstöðina til að reyna að komast á áfangastað. En við erum staðráðin í því að standa vaktina og erum að beita þeim mótvægisaðgerðum sem við getum – við höldum bara áfram með okkar baráttu.“
Athugasemdir (1)