François Bayrou, forsætisráðherra Frakklands, sem lengi hefur átt í vök að verjast, tilkynnti óvænt í gær að hann hefði beðið Emmanuel Macron forseta um að boða til aukafundar þingsins 8. september. Bayrou þarf stuðning til að knýja fram aðhaldsaðgerðir sem eiga að stemma stigu við skuldasöfnun ríkisins en helstu stjórnarandstöðuflokkarnir, frá hægri til vinstri, hafa lýst því yfir að þeir muni ekki styðja áform hans.
Yfirlýsingin barst á sama tíma og kröfur um allsherjarverkfall 10. september til mótmæla niðurskurði jukust dag frá degi.
Í dag hvatti Bayrou stjórnmálamenn til ábyrgðar og minnti á að enn væru 13 dagar til stefnu: „Þá verður að svara því hvort menn vilja standa með ábyrgð eða óreiðu,“ sagði hann. „Er hér ekki um neyðarástand að ræða - neyð til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum, draga úr skuldasöfnun og efla framleiðslu?“ spurði forsætisráðherrann. „Þetta er kjarni málsins.“
Le Pen og Mélenchon krefjast harðra aðgerða
Marine Le Pen, leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar, sem hingað til hefur setið hjá í vantraustsatkvæðagreiðslum og þannig gert Bayrou kleift að halda velli, krefst nú að þingið verði leyst upp og boðað til nýrra kosninga.
Jean-Luc Mélenchon, leiðtogi óháðra vinstrimanna, sem áður hefur reynt árangurslaust að fella Bayrou, gekk enn lengra. Hann sagði Macron þurfa að segja af sér ef Bayrou yrði felldur nú. „Macron er sjálfur óreiðan,“ sagði Mélenchon og tilkynnti að hann hygðist leggja fram vantrauststillögu gegn forsetanum: „Hann verður að fara.“
Spennustigið í frönskum stjórnmálum magnast eftir því sem styttist í forsetakosningarnar árið 2027, þegar annað kjörtímabil Macrons rennur sitt skeið. Forsetinn hefur ítrekað verið krafinn um afsögn frá því hann leysti þingið upp í fyrra eftir fylgisauka ystu hægriflokkanna í Evrópukosningum. Sú ákvörðun sökkti landinu í langvinna pólitíska krísu. Macron hefur þó staðfest að hann ætli að sitja út kjörtímabilið og vill forðast að boða til annarra skyndikosinga. Ef Bayrou verður felldur þarf forsetinn hins vegar að skipa sinn sjöunda forsætisráðherra og það myndi varpa þungum skugga yfir síðustu tvö ár hans í embætti.
Fjárlagavandi og óvinsælar aðgerðir
Bayrou tók við af Michel Barnier í desember, en hann var felldur eftir aðeins þrjá mánuði þegar franska Þjóðfylkingin sameinaðist vinstriblokkinni gegn ríkisstjórninni í deilu um fjárlög. Frakkland hefur árum saman eytt um efni fram og er nú undir þrýstingi Evrópusambandsins um að draga úr halla og skuldum.
Bayrou leggur til að sparað verði um 44 milljarða evra (um 7.000 milljarða króna). Meðal þess sem hann leggur til í því skyni er fækkun frídaga og frysting á ríkisútgjöldum. Tillögurnar, sem hann kynnti í júlí sem hluta af fjárlagafrumvarpi fyrir 2026, hafa þó mætt mikilli andstöðu í samfélaginu.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hvetja til þess að fundin verði farsæl lausn. Eric Lombard efnahagsráðherra hét því að „berjast“ fyrir því að ríkisstjórnin lifði af atkvæðagreiðsluna 8. september. „Ábyrgð okkar er að ná samkomulagi – landið þarf fjárlög,“ sagði hann.
Bruno Retailleau innanríkisráðherra varar við því að vantraust gæti sett af stað fjármálakreppu: „Það væri stórkostlega ábyrgðarlaust að steypa landinu í fjármálahrun sem myndi fyrst og fremst bitna á þeim sem minnst mega sín,“ sagði hann.
Markaðir bregðast við
Óvissan endurspeglaðist skýrt á hlutabréfamarkaði í París. CAC 40 vísitalan féll um tvö prósent í morgun, meira en á öðrum helstu mörkuðum Evrópu. Hlutabréf franskra banka hríðféllu og ávöxtunarkrafa á tíu ára ríkisskuldabréf hækkaði sem skýr vísbending um minnkandi traust fjárfesta til franskra skulda. Skuldir Frakklands nema nú 114 prósentum af landsframleiðslu sem sérfræðingar telja ógna fjármálastöðugleika landsins.
Athugasemdir