Evrópa mun þurfa að bera „meginþunga byrðarinnar“ fyrir öryggi Úkraínu, segir JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, á sama tíma og bandarísk stjórnvöld þrýsta á að stríðinu sem hófst með innrás Rússlands árið 2022 ljúki.
Vance var spurður í þættinum „Ingraham Angle“ á Fox News í gærkvöldi um öryggisábyrgðir fyrir Úkraínu og umfang þátttöku Evrópu, málefni sem rædd voru á leiðtogafundum síðustu vikuna með það að markmiði að binda enda á stríðið.
„Jæja, ég tel að við ættum ekki að bera byrðina hér,“ sagði Vance.
„Þetta er þeirra heimsálfa. Þetta er þeirra öryggi, og forsetinn hefur verið mjög skýr, þau verða að stíga fram hér.“
Vance sagði einnig að þótt stjórnvöld í Washington myndu hjálpa til við að binda enda á átökin, yrðu Evrópuþjóðir að leiða öryggisfyrirkomulagið. Hann skilgreindi ekki útfærsluna nánar.
„Bandaríkin eru opin fyrir því að eiga samtalið, en við munum ekki skuldbinda okkur fyrr en við áttum okkur á hvað verður nauðsynlegt til að stöðva stríðið í fyrsta lagi,“ sagði hann.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hitti Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í Alaska í síðustu viku áður en hann bauð Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, og evrópskum leiðtogum til Washington á mánudaginn. Eftir fundinn með Pútín komst Trump að þeirri niðurstöðu að Úkraína ætti að gefa eftir land sem Rússar hefðu þó ekki enn hertekið. Þá hefur hann útilokað Nató-aðild Úkraínu, sem hefði veitt skýrar öryggistryggingar frá vestrænum ríkjum.
Þó svo að Trump hafi fullyrt að Pútín hefði samþykkt að hitta Zelensky og samþykkja vestrænar öryggisábyrgðir fyrir Úkraínu, hefur þessum loforðum verið tekið með mikilli varúð í Kyiv og vestrænum höfuðborgum. Mörg smáatriði eru enn óljós.
Fram kom í dag að Zelensky hefði sagt að hann gæti aðeins hitt Pútín eftir að bandamenn hefðu komið sér saman um öryggisábyrgðir sem myndu koma í veg fyrir frekari árásir Rússa. Um leið hafa Rússar hafnað því að hermenn Natóríkja verði staðsettir í Úkraínu og sömuleiðis útiloka Bandaríkin að staðsetja þar herafla. Eftir stendur því hverjar tryggingar Úkraínu gegn nýrri innrás Rússa yrðu eftir friðarsamkomulag.
Ummæli hans komu á sama tíma og Rússland sendi hundruð dróna og flugskeyti gegn Úkraínu um nóttina í stærstu árásinni síðan um miðjan júlí, þar sem einn lést og margir særðust.
Á miðvikudaginn drógu stjórnvöld í Moskvu úr líkum á leiðtogafundi milli Pútíns og Zelenskys í náinni framtíð og sagði að þeir vildu vera með í umræðum um framtíðaröryggisábyrgðir fyrir Úkraínu.
Þá segir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, að Úkraína sé „ekki áhugasöm“ um langtímafriðarsamning og sakaði landið um að sækjast eftir öryggisábyrgðum sem væru ósamrýmanlegar kröfum Rússlands.
„Úkraínska stjórnin og fulltrúar hennar tjá sig um núverandi ástand á mjög sérstakan hátt, sem sýnir beint að þau hafa engan áhuga á sjálfbærri, sanngjarnri og langvarandi lausn,“ segir hann.
Athugasemdir (1)