Ég man ekki hvenær ég fór í sturtu síðast. Sem þýðir að það sé of langt síðan. Klukkan nálgast miðnætti og ég væri svo innilega til í að vera farin upp í rúm að sofa. En yngra barnið festi ekki svefn og ég er bara rétt að byrja á þessum pistli sem ég átti að skila í dag. Ég hef verið í sömu fötunum í tvo mánuði. Líf mitt er í kössum, þakið múrryki og ég veit ekki hvar neitt er. Ég er ekki með internet, ofn eða helluborð. Eina rennandi vatnið er kalt og úr skítugum baðherbergisvaski.
Já, kæri lesandi, ég er stödd í miðju maraþoni miðaldra fólksins – framkvæmdum. Í allt sumar höfum við maðurinn minn verið að hlaupa upp og niður þrjár hæðir. Upp með tvö tonn af múr. Niður með þrjú tonn af ónýtum gólfefnum og innréttingum. Upp með gólfefni og eldhúsinnréttingu. Niður með meira rusl. Eina leiðin fyrir fjögurra manna fjölskyldu í okkar launaflokki að stækka við sig er að kaupa gamla íbúð og gera nánast allt sjálfur. Liggja andvaka af peningaáhyggjum, fá höfnun á frekari hækkun á yfirdráttarheimild. Vona það besta.
En við erum rík. Í samanburði við vini okkar sem eru innflytjendur, flóttafólk eða öryrkjar. Í samanburði við nánast alla jarðarbúa. Hugsa sér heppnina! Að fæðast einmitt hér og nú!
Stundum hugsa ég samt hvað það væri næs að fá einhverjar millur á mánuði. Eða bara eina. Eiga foreldra sem keyptu fyrir mann íbúð. Vera kvótakrakki. Að hafa aldrei þurft að standa í röð á kassa að skrapa saman afgangskrónunum af öllum reikningum og kreditkortum til að eiga fyrir því litla sem er í körfunni.
Alvöru ríkidæmið birtist mér samt ekki í tölunum á bankareikningnum. Heldur í mestu buguninni þegar vinir okkar og fjölskylda fóru að birtast, hvert af öðru, eins og björgunarsveitin mætt að redda fólki sem lagði af stað upp á jökul í gallabuxum og strigaskóm. Við lofum að gera þetta aldrei aftur. Takk.
Athugasemdir