Gat hefur fundist á sjókví á eldissvæði Arctic Sea Farm við Eyrarhlíð í Dýrafirði. Samkvæmt fréttatilkynningu Matvælastofnunar eru vísbendingar um „að gatið hafi verið á kvínni í nokkurn tíma án þess að framleiðandi hafi tilkynnt um tilvist þess til Matvælastofnunar“.
„Matvælastofnun lítur málið alvarlegum augum og hefur hafið rannsókn,“ segir í tilkynningunni.
Laxeldisfyrirtækjum er gert að sinna eftirliti með starfsemi sinni. Samkvæmt gögnum var neðansjávareftirliti við Eyrarhlíð sinnt á 30 daga fresti líkt og reglugerð kveður á um og tilkynnt til stofnunarinnar að ekkert athugavert hefði komið fram við neðansjávareftirlitið. Gatið var u.þ.b. 20x40 cm að stærð.

Lokið var við að slátra öllum laxi úr eldiskvínni þann 6. júlí síðastliðinn. Stofnunin hefur kallað eftir frekari gögnum frá Arctic Sea Farm sem gætu varpað skýrari ljósi á atvikið. Að rannsókn lokinni verður gefin út eftirlitsskýrsla um rannsóknina og birt á mælaborði fiskeldis á heimasíðu Matvælastofnunar.
Arctic Sea Farm hf. hefur starfsleyfi til eldis á laxfiskum með hámarkslífmassa allt að 10.000 tonnum í sjókvíum í Dýrafirði. Félagið er að öllu leyti í eigu Arctic Fish Holding AS, sem er norskt laxeldisfyrirtæki. Endanlegt móðurfélag þess heitir MOWI ASA.
Félagið gerir upp í evrum, en það hagnaðist um 1,9 milljarða króna í fyrra og var fjöldi starfsmanna í heild 52.
Forstjóri Arctic Fish er Daníel Jakobsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði og formaður bæjarráðs. Félagið heldur úti fiskeldi á tíu stöðum í fimm fjörðum: Patreksfirði, Tálknafirði, Arnarfirði, Dýrafirði og Ísafjarðardjúpi.
Athugasemdir