Grunur leikur á um að kettir hafi verið veiddir í búr við íbúðahús í Árbæ. Matvælastofnun, Dýraþjónustu Reykjavíkur og lögreglunni hefur verið gert viðvart vegna málsins.
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar týndist köttur í hverfinu fyrir um tveimur vikum og leitaði eigandi hans ákaft að honum. Eigandinn sá fellibúrið við hús í Árbæ og tók af því myndirnar sem fylgja með fréttinni.
Í fellibúrinu var dós af túnfiski sem ætla má að hafi átt að lokka kettina inn í búrið. Segja tveir viðmælendur Heimildarinnar að íbúar hússins hafi viðurkennt í samtali við þá að búrið hafi verið notað til að veiða ketti. Þá hafi komið fram í samtölum þeirra við nágranna að fleiri kettir hafi horfið í hverfinu.

Ekki hefur þó fengið staðfest að kettir hafi endað í umræddu búri en sögusagnir þess efnis geisa á samfélagsmiðlum. Fjallaði DV meðal annars um þær færslur í frétt í gær.
Fjöldi tilkynninga til MAST
„Við höfum vissulega fengið til okkar tilkynningu um aðila sem er með fellibúr,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar (MAST), sem sinnir eftirliti vegna illrar meðferðar á dýrum. „Við höfum rannsakað þetta, fengið fleiri ábendingar og skoðað þetta aftur.“
„Viðkomandi segir að það hafi aldrei komið dýr í gildruna“

Hún segir að strangt til tekið sé ekki ólöglegt að eiga fellibúr. „Fellibúr eru til þess fallin að handsama ketti, kanínur eða laus dýr og valda ekki dýrunum skaða. Við höfum í raun og veru engar sannanir fyrir því að viðkomandi sé að láta kettina hverfa. Það er allt annað. Viðkomandi segir að það hafi aldrei komið dýr í gildruna.“
Hrönn segir búr af þessu tagi oft vera notuð til að hjálpa dýrum í neyð, til dæmis þegar þau flýja svæði vegna eldsvoða. „Að eiga eða nota slík búr, það er ekkert ólöglegt við það,“ segir hún en segist ekki geta staðfest neina tengingu á milli tilvist búrsins og hvarfs katta í hverfinu.
Fjarlægðu ekki búrið
Dýraþjónusta Reykjavíkur (DÝR) staðfestir að hafa fengið vitneskju um búrið en ekki gert það upptækt eins og fram kom í frétt DV. „Við fjarlægðum sannarlega ekki búr úr Árbænum í síðustu viku en fengum upplýsingar um að þar væri fellibúr ætlað köttum og könnuðum því hvort það væri nokkuð gamalt búr frá Reykjavíkurborg, en svo reyndist ekki vera,“ segir í svari DÝR við fyrirspurn Heimildarinnar.
„Þar sem strangar reglur gilda um meðferð slíkra búra og lagaskylda er um ákveðna tíðni eftirlits með búrunum höfum við þá starfsreglu að tilkynna ávallt notkun slíkra búra til MAST sem fer með eftirlit með velferð dýra,“ segir ennfremur í svari DÝR.
Athugasemdir