Þingmenn úr röðum Miðflokks og Sjálfstæðisflokks hafa beðið dómsmálaráðherra um skýrslu um íbúaþróun á Íslandi og áhrif innflytjenda á hana.
„Mikilvægt er að átta sig á því hver íbúasamsetning er hér á landi og áhrifum innflytjenda á þróun hennar,“ segir í tillögu þingmannanna. „Flutningsmenn vonast til þess að með skýrslunni verði hægt að gera sér grein fyrir hvert umfang fólksflutninga hefur verið hingað til lands. Auk þess hefur fæðingartíðni hér á landi aldrei verið lægri og óvíst hverjar langtímaafleiðingar lægri fæðingartíðni verða.“
Skýrslubeiðnin kemur frá þingmönnunum Snorra Mássyni, Bergþóri Ólasyni, Ingibjörgu Davíðsdóttur, Karli Gauta Hjaltasyni, Nönnu Margréti Gunnlaugsdóttur, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Sigríði Á. Andersen, Þorgrími Sigmundssyni, Diljá Mist Einarsdóttur, Njáli Trausta Friðbertssyni og Vilhjálmi Árnasyni.
Þingmennirnir óska eftir upplýsingum um þróun íbúasamsetningar síðustu tuttugu ára með tilliti til þjóðernis íbúa Íslands og á hvaða grunni innflytjendur hafa fengið dvalarleyfi. Þá óska þeir eftir spá um íbúaþróun næstu 100 árin samkvæmt eftirfarandi sviðsmyndum: „Innflytjendum og afkomendum innflytjenda fjölgi eða fækki og fæðingum Íslendinga fækki, fjölgi eða þær haldist óbreytt.“
Loks er vísað í danska rannsókn sem sýnir að árið 2096 kunni meirihluti íbúa Danmerkur að vera innflytjendur eða börn innflytjenda ef fæðingartíðni og fjölgun innflytjenda haldast óbreytt.
„Landsmenn eldast um leið og aðfluttum fjölgar og afkomendum þeirra,“ segir í tillögunni. „Þetta hefur áhrif á efnahagsmál, innviði, heilbrigðismál o.s.frv. og því mikilvægt að gera eins góðar spár um þessa þróun og mögulegt er. Samanburður er nauðsynlegur og hann er t.d. hægt að fá með því að framkvæma sams konar rannsókn og gerð var í Danmörku og vísað er til hér að framan.“
Athugasemdir (1)