Þann 18. júní sl. birti Heimildin lítinn pistil frá okkur félögunum. Tilefnið var að þá voru tíu ár liðin frá samþykkt svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2015-2040. Tímamót sem vert var að minnast.
Við undirritunina varð vatnsvernd hluti af svæðisskipulaginu og þar með komin með traust lagalegt gildi. Bæði kort og reglugerð 555/2015. Heilladagur í hugum okkar sem unnið hafa að vatnsverndarmálum undanfarna áratugi. Öryggi neysluvatnsins var betur tryggt en fyrr, jafnt fyrir almenning og atvinnulíf.
Þegar þessi grein er rituð er verið að fagna 75 ára afmæli Heiðmerkur. Vel fer á því þar sem um vinsælt útivistarsvæði er að ræða fyrir fjölda fólks allt árið. Það er langt frá því að vatnstaka og útivist geti ekki farið vel saman. Við erum að leggja áherslu á að taka verði tillit til neysluvatnsins í skipulagi og framkvæmd. Nýting lands sé á forsendum vatnsverndar. Þá verða einnig viðbrögð við óhöppum, sem alltaf geta gerst, að vera fumlaus og markviss. Það er langt í frá að allt vatnsverndarsvæðið teljist til Heiðmerkur.
Það vill þó svo til að í Heiðmörk eru aðal vatnstökusvæðin. Stór svæði í Heiðmörk s.s. í Vífilsstaðahlíð og við Grunnuvötn eru utan neysluvatnsverndar. Aðeins sunnar eru Kaldárbotnar í upplandi Hafnarfjarðar og framtíðar vatnstökusvæði er í Fagradal í lögsögu Grindarvíkur. Einnig er framtíðar vatnstökustaður við Fossvallaklif í Mosfellsbæ. Minni svæði eru einnig í Mosfellsdal og á Kjalarnesi.
Vatnsverndarsvæðin eru um 270 ferkílómetrar og þar af eru brunnsvæði tæpir tíu ferkílómetrar. Stærsti hluti þess, og sem hér er einkum til umræðu, liggur frá toppi Bláfjalla og landamörkum Ölfuss á Hellisheiði í austri til vesturs um upplandið og Heiðmörkina og inn á Hjallamisgengið. Það nær frá Elliðavatni í norðri og suður fyrir Kaldárbotna. Í suður nær svæðið að landamökum Grindarvíkur norðan Kleifarvatns.
Verndarsvæðið er flokkað eftir eðli og viðkvæmni með tilliti til vatnstökunnar. Reglugerð 555/2015, sem oftast er kölluð heilbrigðissamþykktin, tekur mið af þeirri skiptingu. Ákvæði reglugerðarinnar eru breytileg eftir skilgreiningu svæðis, þ.e. staðsetningu og fjarlægð frá vatnstökustöðum.
Sérstök framkvæmdastjórn um vatnsvernd samræmir leyfisveitingar og skipuleggur eftirlit innan vatnsverndar. Aðkoma framkvæmdastjórnar hefur iðulega leitt til þess að áform hafa tekið talsverðum breytingum. Þannig hefur verið dregið úr áhættu á mengun eða annarri ógn. Það gæti vel verið ástæða til að reifa síðar lauslega á þessum vettvangi nokkur slík tilvik. Einnig áform sem ekki urðu að veruleika vegna andstöðu með vísan til óásættanlegra sjónarmiða. Á vegum Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur um árabil einnig verið starfandi stýrihópur um vatnsverndarmál og á formaður framkvæmdastjórnar þar sæti.
Aukin vatnstaka í einu vatnsbóli getur valdið breytingum í öðru vatnsbóli. Ákvörðun sem gæti virst skaðlaus hjá einni vatnsveitu getur falið í sér mikla ógn fyrir öryggi við öflun neysluvatns annars staðar. Mengun virðir ekki sveitafélagamörk.
Vatnstaka í upplandi höfuðborgarsvæðisins er úr afar gljúpum berglögum frá nútíma, hriplekum og sprungnum. Lítið er um yfirborðsvatn á verndarsvæðinu er grunnvatnsrennsli hratt. Stærð og lögun verndasvæðanna taka mið af ofansögðu, sjá meðfylgjandi kort:

Í umræðu undanfarnar vikur og mánuði er tengjast umferðarmálum og áformum um deiliskipulag fyrir Heiðmörk hefur heyrst að auðvelt sé að flytja vatnsbólin eða vatnstökustaðina ofar í landið. Þannig væri hægt að létta af vatnsvernd og hætta síðan nýtingu svæða við Myllulæk, Gvendarbrunna og Jaðar. Sú framkvæmd er mikil og kostnaðarsöm.
Vara ber sterklega við slíkum hugmyndum. Þar vega þyngst rök um að vatnsverndarsvæðin eru að stórum hluta á hraunlögum frá nútíma, á tímum Reykjaneselda síðustu árþúsundin. Sumar sprungur eru opnar niður í grunnvatnið. Hraunlögin skipta tugum og sigdalir á svæðinu benda til fjölda innskota. Nú er eldvirknitímabil á Reykjanesi í gangi. Vatnstaka á höfuðborgarsvæðinu er sem betur fer úr mismunandi vatnsflaumum sem er ákveðið öryggi. Ef vatnstakan færist innan Heiðmerkur verður breyting þar á.
Það væri vondur kostur að hafa öll eggin í sömu körfunni. Í upphafi skal endinn skoða. Það væri vissulega til bóta að finna ný vatnsból fjarri núvernadi vatnstökustöðum til að auka enn frekar á öryggið, Fagridalur og Fossvallaklif. Fjölga vatnsbólum í stað þess að fækka þeim. Slíkt er mikil framkvæmd. Leit, ákvörðun og framkvæmd er kostnaðarsöm og tekur tíma. Það ætti að hefja þá vinnu og setja það markmið, að þau bætist við ef brýna þörf krefur. Það er eðlileg fyrirhyggja og góð framtíðarsýn.
En höfum í huga að þó að raddir heyrist sem annars vegar vilja aflétta vatnsvernd og færa vatnsból og hins vegar um að skella í lás og loka fyrir aðkomu fólks þá eru ýmsir aðrir leikir færir í stöðunni. Við fullyrðum að vatnsvernd, útivist og gróðurumhirða getur farið saman, ekki síst ef vilji er til að koma þessari umræðu úr þeim skotgrafarfarvegi sem hún nú er í.
Tækifæri til lausna eru nærtæk og komu strax fram við gerð skipulagsins. Það á að fjölga og bæta við fleiri útvistarsvæðum ofan byggðar s.s. í Esjuhlíðum, Skálafelli, Úlfarsfelli, á Hólmsheiði, við Lækjarbotna, Selfjall og Helgafell og dreifa þannig álagi á fleiri svæði enda fer okkur ört fjölgandi.
Hvað Heiðmörk varðar þá ætti það ekki að vera í myndinni að loka fyrir aðkomu almennings. En það mætti breyta mynstrinu. Það liggur fyrir að það eru ákveðnir þættir í umferð um Heiðmörk sem skapa meiri hættu en ásættanlegt er. Annars vegar gegnumakstur allan sólarhringinn sem þyrfti að stöðva. Með einföldum aðgerðum er hægt að tryggja að aka þurfi bifreiðum út úr Heiðmörk á sama stað og farið var inn. Hins vegar er það vetraraksturinn sem er hættulegur. Vegir í Heiðmörk verða fljúgandi hálir þegar þannig viðrar. Umferðarslys af þeim orsökum eru allt of tíð.
„Það liggur fyrir að það eru ákveðnir þættir í umferð um Heiðmörk sem skapa meiri hættu en ásættanlegt er“
Vatnsverndarskipulagið tók gildi 2015. Garðabær og Hafnarfjörður hófu strax eða í kjölfarið úrbætur sem ræddar höfðu verið í aðdragandanum. Góðum bifreiðastæðum var komið fyrir í útjaðrinum og göngustígar bættir. Garðabær kom upp lokunarpósti til að loka á innakstur þegar hættur voru að skapast. Aðkoma að og inn á Heiðmerkursvæðið sunnar úr Kópavogi býður upp á möguleika sem ekki hafa sést í umræðunni upp á síðkastið.
Heppilega vill til að í dag er í gangi skipulagsvinna bæði í Kópavogi og Reykjavík sem kjörið er að nýta til farsælla lausna þeirra verkefna sem fyrirferðarmest eru núna. Í umræðunni við gerð svæðisskipulagsins lá fyrir vilji um að Kópavogsbær gengi frá góðum bílastæðum á Hjallamisgenginu, inn af Guðmundarlundi ásamt göngustígum og kæmi með sams konar aðkomu fyrir útivistarfólk að svæðinu við Selfjall.
Reykjavík myndi koma með hliðstæða lausn út frá Suðurlandsvegi. Tækifæri er núna fyrir Kópavogsbæ og Reykjavíkurborg að bæta þessa aðkomu. Mosfellsbær sem verið hefur of mikið á hliðarlínunni ætti að koma inn í þessa umræðu við endurskoðun síns aðalskipulags sem kynnt hefur verið í vinnslu.
Athugasemdir