Nýlega birti leikarinn Elliot Page mynd af sér og kærustu sinni á samfélagsmiðlum þar sem þau stóðu saman á regnbogagötunni á Skólavörðustíg. Þau brostu bæði og voru greinilega að njóta sín á ferðalagi saman.
Flest fólk myndi eflaust bara hugsa, „flott hjá þeim“, og halda svo áfram með lífið. En ákveðinn hópur á netinu virðist hafa fátt betra að gera en að nýta öll tækifæri til þess að níðast á fólki – og er hinsegin fólk undantekningarlaust tekið fyrir af þessum hópi.
Undir fréttum af þessu fylltust kommentakerfi hjá íslenskum fjölmiðlum af alls kyns dónalegum, niðrandi og ljótum athugasemdum þar sem fólk kepptist við að miskynja leikarann og segja honum að „leita sér hjálpar“ – en fyrir fólk sem kannast ekki við leikarann þá er hann trans og kom út árið 2020.
Áköll til leikarans að leita sér hjálpar eru áhugaverð af þeim sökum að það er nákvæmlega það sem trans fólk gerir.
Að lifa sátt í eigin skinni
Fyrsta skrefið sem flest trans fólk tekur til að gera eitthvað í sínum málum er einmitt að fara til sálfræðings eða geðlæknis. Þaðan fær fólk oftast tilvísun til sérfræðinga og undirgengst svo kynstaðfestandi ferli, sem rannsóknir sýna að eykur lífsgæði trans fólks til muna, og gerir þeim kleift að lifa sátt í eigin skinni. Að fá að vera þú sjálf er nefnilega miklu betra fyrir okkur en að bæla niður hver við erum.
Það virkaði svo sannarlega fyrir mig. Ég kom út úr skápnum fyrir rúmum 16 árum síðan og hef síðan klárað meistaragráðu í háskóla, á frábæra og stuðningsríka fjölskyldu og vini og er búin að vera í dásamlegu sambandi í níu ár, og vinn við það sem mér þykir skemmtilegt og gagnlegt.
Mér hefur aldrei liðið betur, og ég er á allan hátt hamingjusamari en ég var þegar ég kom út úr skápnum. Að leita mér hjálpar virkaði nefnilega, og á það ekki að vera tabú eða notað gegn fólki á niðrandi hátt.
„Ef fólki er svona annt um andlega heilsu trans fólks, þá virkar langbest að vera bara almennilegur við þau
Allar rannsóknir og vísindi á þessu sviði sýna að kynstaðfestandi ferli og stuðningur sé rétta leiðin til að hjálpa trans fólki, og eykur lífsgæði og ánægju fólks með lífið svo um munar. Það skýtur því skökku við að fólk láti eins og Elliot, sem kom út fyrir fimm árum og fór í gegnum sitt ferli og er í hamingjusömu sambandi, þurfi að leita sér hjálpar.
Ef fólki er svona annt um andlega heilsu trans fólks, þá virkar langbest að vera bara almennilegur við þau.
Auðveldara að óttast
Ég held nefnilega að fólk sem upplifir svona neikvæðar tilfinningar í garð trans fólks sé það sem þurfi á naflaskoðun að halda. Vegna þess að það er ekkert eðlilegt við það að sjá fallega mynd af tveimur manneskjum sem eru ástfangin og finna sig knúinn til þess að setja inn neikvæðar og niðrandi athugasemdir.
En kraftur fordóma getur verið mikill, og yfirtekur hann oft rökhugsun, skynsemi og mannlega hluttekningu. Það getur verið gríðarlega erfitt að uppræta fordóma og koma fólki aftur á rétta braut – og í sumum tilfellum er það eflaust nær ómögulegt. Það er nefnilega auðveldara að óttast og berjast gegn því sem við þekkjum ekki, frekar en að horfast í augu við það sem býr að baki slíkum viðbrögðum af okkar hálfu.
Hvort sem það eru persónuleg áföll sem valda þessari hegðun, eða einfaldlega djúpstætt hatur á fólki sem er öðruvísi eftir að hafa gleypt við neikvæðum áróðri á samfélagsmiðlum, þá situr það eftir að svona hegðun er engum gagnleg.
Ætti að fara að eigin ráðum
Það væri því óskandi að fólk sem lætur svona myndi einfaldlega fara að eigin ráðum, og leitaði sér hjálpar og horfðist í augu við eigin fordóma. Trans fólk, líkt og annað fólk, á rétt á að fá að lifa sínu lífi í samræmi við eigin sannfæringu. Að setja sig upp á móti því er að setja sig upp á móti mennskunni sjálfri og frelsi annarra.
Ég segi því bara, af fullri einlægni: leitið ykkur hjálpar. Lífið er of stutt til þess að vera heltekinn af fordómum gagnvart örlitlum samfélagshópi að þú eyðir frítíma þínum í að reyna að særa og niðurlægja þau. Lífið getur verið svo miklu fallegra og skemmtilegra.
Þegar öllu er á botninn hvolft, langar okkur ekki öll að vera hamingjusöm og sátt við lífið? Miðað við myndina hans Elliots þá sýnist honum allavega hafa tekist það.
Ég óska virkum í athugasemdum þess sama.
Athugasemdir (1)