Félagið Ísland-Palestína boðaði til mótmæla við utanríkisráðuneytið þar sem krafist var aðgerða vegna árása Ísrael á Gaza.

Til þeirra var boðað í gær eftir að Sameinuðu þjóðirnar greindu frá því að á næstu 48 klukkustundum mætti gera ráð fyrir að 14 þúsund börn verði hungurmorða á Gaza; „Tíminn er á þrotum fyrir Palestínumenn á Gaza. Ísrael notar hungur sem vopn og börn eru að deyja vegna næringarskorts,“ segir í tilkynningu vegna mótmælanna. Þar kom ennfremur fram að fjórtán þúsund jafngildi fjölda óbreyttra borgara sem Rússlandi hafi myrt í Úkraínu á síðustu þremur árum.

„Þetta er þjóðarmorð og glæpur gegn mannkyni. Grófustu brot sem til eru í mannlegu samfélagi,“ segir í tilkynningu frá félaginu Ísland-Palestína. „Við krefjumst viðskiptaþvingana á Ísrael, þátttöku Íslands í ákæru Suður-Afríku fyrir alþjóðadómstólnum og alþjóðlegrar sniðgöngu á Ísrael í íþrótta- og menningarsamstarfi - strax. Ísrael þarf að yfirgefa Gaza og Vesturbakkann fyrir fullt og allt. Alþjóðasamfélagið þarf að axla ábyrgð á þætti sínum í þjóðarmorðinu, því skjóli sem það hefur veitt Ísrael hjá alþjóðastofnunum og aðstoð sem vestrænar þjóðir hafa veitt Ísraelum með stanslausum vopnasendingum. Tryggja verður óheft og frjálst flæði neyðaraðstoðar og hefja endurbyggingu á Gaza þegar í stað.“
Athugasemdir (1)