Kjósið ekki Ísrael.
Menn segja: Listamenn bera ekki ábyrgð á gerðum stjórnvalda. Það á ekki að koma niður á listamönnum, sem troða upp á viðburðum, af hvaða tagi sem þeir eru, þótt fólk sé ósátt við framferði stjórnvalda í ríki þeirra.
Undir venjulegum kringumstæðum væri það rétt.
En nú eru EKKI venjulegar kringumstæður.
Nú er verið að fremja þjóðarmorð, það er verið að drepa börn, það er verið að svelta fólk til bana, og forsætisráðherrann í Ísrael kemur fram í fjölmiðlum og beinlínis hælist um yfir því hvað hann ætlar að vera harður í framhaldinu.
Hann og hans menn eru augljóslega sekir um stríðsglæpi — um það þarf engum blöðum að fletta — og það óvenjulega svívirðilega stríðsglæpi, og það geta því ekki talist „venjulegar kringumstæður“.
Þess vegna er fullkomlega heimilt, eðlilegt og sjálfsagt að gera þá kröfu á hendur Yuval Raphael og félaga hennar í Eurovision-flokki Ísraels að þau taki afstöðu gegn því sem nú er að gerast.
Og geri þau það ekki, þá hljótum við að líta svo á að þau styðji það.
Sviðið í Eurovision
Ef stjórnvöld á Íslandi væru sek um þó ekki nema brotabrot af því sem ísraelsk stjórnvöld og ísraelski herinn eru nú sek um, þá myndi ég sannarlega krefjast þess að sérhver Íslendingur mótmælti hástöfum og notaði til þess hvert tækifæri.
Líka sviðið í Eurovision.
Og þessa kröfu mundi ég gera, alveg sama hvað á undan væri gengið.
Þetta er mikilvægt.
Alveg sama hvað á undan er gengið.
Alveg sama þótt við séum andsnúin Hamas og framferði þeirra 7. október, þá getum við ekki skorast undan því að fordæma – og það hástöfum – það sem nú er að gerast á Gazasvæðinu.
Alveg sama hvað á undan er gengið, þá eru þetta samt viðurstyggilegir stríðsglæpir sem okkur ber siðferðileg skylda til að fordæma.
Samþykk þjóðarmorði?
Og ef við gerum það ekki, þá erum við í reynd að lýsa okkur samþykk þjóðarmorðinu.
Eða að minnsta kosti skiptir það okkur ekki neinu sérstöku máli.
Og ef Yuval Raphael gerir það, þá bregst hún líka skyldum sínum sem siðleg manneskja.
Alveg sama hve sorgmædd og hrygg hún kann að vera yfir blóðbaðinu 7. október.
Og þess vegna erum við – þótt í smáu sé – að verðlauna framferði Ísraels með því að greiða Ísrael atkvæði í Eurovision-keppninni.
Svo við skulum sleppa því.
Þó það sé vissulega í aðra röndina í meira lagi hlálegt við að símaatkvæði greitt í kátlegri söngvakeppni geti átt eitthvað skylt þá baráttu upp á líf og dauða sem palestínska þjóðið heyr nú á Gasa, þá er það nú samt svo.
Svo sleppið því að greiða Ísrael atkvæði ef þið ætlið að horfa á og greiða atkvæði.
Lagið sem Yuval Raphael flytur er snoturt og hún syngur það vel. Það er heldur ekkert athugavert við boðskap þess í sjálfu sér.
En það er flutt undir fána ríkis sem einmitt núna er að fremja vísvitandi og grimmileg þjóðarmorð á Gaza.
Yuval Raphael er ekki upp á sitt eindæmi í Sviss.
Hvað mun gerast?
Hún er fulltrúi ísraelska ríkisins. Hún kemur fram fyrir ísraelska ríkissjónvarpið sem er fulltrúi ísraelska ríkisins.
Ríkisins sem Benjamin Netanyahu stýrir.
Þess vegna skulum við ekki kjósa Ísrael ef við ætlum að kjósa eitthvað í Eurovision á annað borð.
Því við vitum alveg hvað mun gerast ef Ísrael fær fullt af stigum, tala nú ekki um ef Yuval Raphael vinnur.
Við vitum hver mun fagna mest.
Benjamin Netanyahu.
Því hann mun segja – og það með réttu: „Þetta sýnir að Evrópu er skítsama um Gaza. Fyrst fólkið kýs söngflokk sem kemur fram undir ísraelskum fána, þá merkir það að myndirnar af deyjandi, sveltandi blæðandi börnum í sjónvarpsfréttunum, þær ná ekki til fólks. Það er öllum sama. Við getum gert það sem okkur sýnist.“
Hver mun fagna mest?
Og Benjamin Netanyahu mun mæta fremstur í flokki út á flugvöllinn í Tel Aviv til að taka á móti Yuval Rapahel og félögum hennar, ef henni gengur vel, og hann lítur þá á árangur hennar sem sinn árangur.
Svo kjósið ekki Ísrael.
Jújú, þetta er að vísu BARA söngvakeppni og það svona heldur léttvæg, með fullri virðingu.
En við vitum að hún skiptir samt máli.
Og enginn veit það betur en Benjamin Netanyahu.
Þess vegna mun hann fagna hverju einasta atkvæði sem þið greiðið Yuval Raphael á laugardaginn.
Gerið honum það ekki til geðs.
Hinar siðferðilegu gungur
Gerið það heldur ekki til geðs þeim siðferðilegu gungum sem segja enn að það sé ekki hlutverk listamanna eða almennings að taka afstöðu þegar framin eru þjóðarmorð.
Til hvers halda listamennirnir að guð hafi gefið þeim hæfileika til að skapa, túlka og tjá betur en aðrir?
Til að þeir þegi meðan náungi þeirra er drepinn?
Nei, þegjum ekki, og styðjum ekki þá sem þegja, og styðjum ekki á nokkurn þá sem kannski einmitt núna eru að senda eldflaugar af stað.
Athugasemdir (2)