80 ár og svo mörg mannslíf

Nú er þess minnst að átta ára­tug­ir eru liðn­ir frá því að Evr­ópustyrj­öld­inni miklu, 1939 til 1945, lauk. Hér verð­ur far­ið yf­ir hvað gekk á og hvað þessi bar­átta kostaði. Rakt­ar eru flestall­ar stærstu her­ferð­irn­ar þótt fljótt sé far­ið yf­ir sögu. Ekki er við því að bú­ast að all­ar töl­ur séu hár­ná­kvæm­ar en þær eru þó ef­laust svo rétt­ar sem verða má.

80 ár og svo mörg mannslíf
Milljónir barna voru drepin í síðari heimsstyrjöld eða dóu vegna hungurs, pesta og vanrækslu. Þessi börn í Auschwitz voru meðal þeirra heppnu sem lifðu af.

Aðdragandinn

Þegar Nasistaflokkur Adolfs Hitlers komst til valda í Þýskalandi 1933 tók strax að horfa ófriðvænlega í Evrópu. Hitler fór ekki í felur með þá fyrirætlun sína að hefna ófara Þýskalands í fyrri heimsstyrjöldinni og endurheimta það land sem Þjóðverjar höfðu þá misst, ekki síst til Póllands. Og ekki nóg með það því Hitler fór heldur ekki í felur með að hann ætlaði sér að vinna mikil landsvæði í austri og þá af Sovétríkjunum þar sem harðsvíruð kommúnistastjórn undir forystu Jósefs Stalíns var við völd. Hitler gerði bandalag við fasistastjórn Benito Mussolinis á Ítalíu og hóf að stríðsvæðast. Fjendur Þjóðverja frá í stríðinu 1914-1918, Bretar og Frakkar, vildu flest til vinna að halda friðinn og létu undan öllum kröfum Hitlers þar til fyrirætlanir hans um árás á Pólland var orðnar öllum ljósar 1939. Tvíveldin hétu að verja Pólland en Hitler kom þá með krók á móti bragði og gerði samning við Stalín, sem þá áður virst erkióvinur hans, og með því var ljóst að Bretar og Frakkar gætu vart komið Pólverjum til bjargar.


1939

1. september

Innrás Þjóðverja í Pólland. Tveim dögum síðar lýstu Bretar og Frakkar yfir stríði en aðhöfðust lítið gegn Þjóðverjum nema á sjó. Pólverjar máttu sín lítils gegn yfirburðum Þjóðverja í lofti. Þann 17. september réðust Sovétmenn inn í Pólland úr austri, samkvæmt leynisamkomulagi Hitlers og Stalíns. Þjóðverjar náðu Varsjá 27. september og 6. október gáfust leifar pólska hersins upp en fjöldi hermanna flúði land. Þjóðverjar tóku strax til við að þjarma mjög illilega að Pólverjum á yfirráðasvæði sínu og sama gerðu Sovétmenn í sínum hluta.

Rúmlega 200.000 Pólverjar voru drepnir, þar af 66.000 hermenn en hinir voru óbreyttir borgarar. Þjóðverjar misstu 16.000 manns og Sovétmenn 3.000. Þjóðverjar hófust strax handa um að drepa Gyðinga og myrtu 3.000 þeirra meðan á herferðinni stóð.


30. nóvember

Meðan svokallað „þykjustustríð“ ríkti millum Þjóðverja og bandamanna notuðu Sovétmenn tækifærið og réðust á Finnland 30. nóvember til að treysta stöðu sína á Vesturlandamærunum. Finnar vörðust af ótrúlegri hörku en urðu að lokum að lúta í lægra haldi fyrir ofurefli liðs. Í mars 1940 urðu þeir að afsala sér 11 prósentum af landi sínu.

26.000 Finnar týndu lífi en nærri 130.000 Sovéthermenn.


1940

9. apríl

Þjóðverjar réðust inn í Noreg til að treysta stöðu sína og tryggja járnflutninga frá Svíþjóð. Lögðu í leiðinni undir sig Danmörku sem gafst upp samdægurs. Norðmenn og Bandamenn vörðust af kappi en Bandamenn hurfu á brott þegar innrás Þjóðverja í vesturátt hófst og gafst norski heraflinn þá upp en stór hluti hans hélt áfram baráttunni frá Bretlandi.

Alls féllu rúmlega 1.300 Norðmenn, þar af 5600 óbreyttir borgarar. Þjóðverjar misstu tæplega 6.000 hermenn, Bretar tæplega 2.000 og Frakkar og Pólverjar um 500.


Katyn-skógur

Í mars og apríl lét Stalín drepa fjölda Pólverja, aðallega liðsforingja úr hernum, til að bæla niður hugsanlega andspyrnu við stjórn Sovétmanna á hans yfirráðasvæði í Póllandi.

Fullvíst er talið að nærri 22.000 Pólverjar hafi verið myrtir í Katyn-skógi og á fleiri stöðum.


10. maí

Nú réðust Þjóðverjar inn í Holland, Belgíu, Lúxemborg og Frakkland. Eftir ótrúlega sigurgöngu þýska hersins höfðu öll löndin gefist upp 25. júní, Frakkar síðastir.

Frakkar misstu 90.000 manns, Þjóðverjar 27.000, Bretar 3.500, Belgar 6.000,Hollendingar 2.500 og Ítalir, sem réðust inn í Frakkland að sunnan, 1.200.


Eystrasaltsríkin kramin

Sovétríkin lögðu undir sig Eistland, Lettland og Litáen án þess að skoti væri hleypt af enda höfðu ríkin séð hvernig fór fyrir Finnlandi. Þau voru síðan innlimuð í Sovétríkin að „ósk“ þeirra sjálfra.


Orrustan um Bretland

Um haustið og fram á vetur stóðu yfir loftárásir og loftbardagar er Þjóðverjar reyndu að knésetja breska flugherinn til að undirbúa innrás á Bretland.

Það mistókst en kostaði líf 14.000 óbreyttra borgara á Bretlandi, 1.500 breskra flugliða og 2.500 þýskra.


Október

Ítalir réðust inn í Grikkland frá Albaníu sem þeir höfðu lagt undir sig 1939. Ítalir fóru hrakfarir og hrökkluðust brátt til baka. Einnig réðust Ítalir frá Líbíu inn í Egiftaland sem Bretar héldu. Þeir fóru einnig hrakfarir þar, sjá hér aftar.

Ítalir og Grikkir misstu hvorir um sig 13.000 manns.


Orrustan um Atlantshafið

Árið 1940 stóð orrustan um Atlantshafið sem hæst. Bandamenn stövuðu siglingar til Þýskalands en þýskir kafbátar og hermenn reyndu að stöðva birgðaflutninga til Bretlands. Til að bæta vígstöðu sína tóku Bretar Ísland 10. maí. Þrátt fyrir að Þjóðverjar gengju hart fram höfðu þeir í raun tapað orrustunni þegar kom fram á 1943.

36.000 sjómenn bandamanna og 30.000 sjóliðar á herskipum þeirra féllu á hafinu 19391945. 73 prósent mannafla þýska kafbátaflotans féll, eða um 30.000. Í engum hersveitum var mannfallið hlutfallslega hærra meira nema í japönsku kamikaze-sveitunum. 5.000 aðrir þýskir sjóliðar féllu og. 


1941

Febrúar

Eftir að Ítalir hröktust undan Bretum frá Egiftalandi sendi Hitler her til Norður-Afríku til að snúa þar við blaðinu. Miklar sviptingar urðu á svæðinu næstu misserin en Bretar höfðu að lokum sigur og í nóvember 1942 komu Bandaríkjamenn til skjalanna. Þjóðverjar og Ítalir gáfust loks upp í Túnis í maí 1943.

Alls er talið að í þessum átökum hafi fallið 24.000 Ítalir, 25.000 Þjóðverjar og um 32.000 Bretar og bandamenn þeirra.


6. apríl

Þjóðverjar gerðu innrás í Júgóslavíu og Grikkland, enn til að bjarga Ítölum úr klípu og treysta stöðu sína við Miðjarðarhaf. Eins og oftar í upphafi stríðsins gerðu yfirburðir Þjóðverja í lofti útslagið og þeir náðu báðum löndum tiltölulega auðveldlega.

Af Júgóslövum féllu 3.500 hermenn, af Grikkjum nærri 14.000 en Þjóðverjar misstu 1.200 manns.


22. júní

Barbarossa. Innrás Þjóðverja og bandalagsþjóða þeirra (Ítala, Rúmena, Ungverja, Finna, Slóvaka og Króata) inn í Sovétríkin. Nærri 4 milljónir hermanna og 600.000 hross tóku þátt í árásinni. Sovétmenn fóru mjög halloka í byrjun og misstu mikið land, þar á meðal mestalla Úkraínu. Þjóðverjar settust um Leníngrad en í desember náði Rauði herinn að spyrna við fæti við Moskvu.

Allt að 1 milljón sovéskra hermanna féll í bardögum fram til áramóta 194142 og önnur milljón óbreyttra borgara, enda gengu Þjóðverjar fram af mikilli grimmd á herteknum svæðum. 3 milljónir sovéskra hermanna féllu í hendur Þjóðverja og af þeim dóu að minnsta kosti 2 milljónir af hungri, vosbúð, vinnuþrælkun eða voru hreinlega myrtir.

Af innrásarliðinu féllu til áramóta 174.000 Þjóðverjar, 60.000 Rúmenar, 4.000 Ungverjar og 24.000 Finnar, alls um 262.000 manns.


7. desember

Japanir, bandamenn Þjóðverja og Ítala, gera árás á flotahöfn Bandaríkjanna og heimsstyrjöldin berst til Kyrrahafs. Bandaríkjamenn slást í lið með Bretum gegn Þjóðverjum.

Sjá aftast.


1942

20. janúar

Á ráðstefnu í Wannsee nálægt Berlín skipulögðu Þjóðverjar fjöldamorð sín fyrir næstu misseri.

Fram að ráðstefnunni hafði rúmlega 1 milljón Gyðinga verið drepin á austurvígstöðvunum af Þjóðverjum og fólki af öðru þjóðerni. Eftir ráðstefnuna voru nálægt 5 milljónir myrtar til viðbótar á stöðum eins og Auschwitz, Treblika, Majdanek, Sobibor, o.fl.

Auk þess drápu Þjóðverjar í morðverksmiðjum sínum fjölda stríðsfanga, ekki síst Pólverja og Sovétmenn, 300.000 af Rómafólki, um 7.000 samkynhneigða karla og tæplega 300.000 fatlaða.


Austurvígstöðvarnar 1942

Fyrri hluta ársins gekk á ýmsu en um mitt ár hófu Þjóðverjar mikla sókn sem endaði í hrannvígum við Stalíngrad. Barist var af ótrúlegum ofsa af beggja hálfu og mannslíf aldrei spöruð. Þar var þýska hernaðarvélin loks brotin á bak aftur, endanlega eins og síðar kom í ljós.

Á öllu þessu ári féll rúm 1 milljón sovéskra hermanna, enda fólu bardagaaðferðir Rauða hersins í sér að vera ekki spar á mannafla. Af Þjóðverjum féllu 250.000 hermenn og 150.000 af bandamönnum þeirra.

Um það bil 1 milljón sovéskra borgara féll í valinn, 150.000 Pólverjar og margir fleiri.


1943

Júlí 1943

Bandamenn gera innrás á Sikiley og síðsumars á meginland Ítalíu. Ítalir losa sig við fasistastjórn Mussolinis og gefast upp en Þjóðverjar taka völdin í sínum hluta landsins og verjast af hörku á Norður-Ítalíu allt til stríðsloka.

Samtals féllu á Sikiley og Ítalíu 19431945 allt að 30.000 Bandaríkjamenn, 20.000 Bretar, 6.000 Kanadamenn, 6.000 Frakkar og nokkur fjöldi Pólverja og annarra bandamanna, alls um 62.000 hermenn. Um 55.000 þýskir hermenn voru drepnir og um 20.000 Ítalir á sama bili. 100.000 óbreyttir borgarar féllu, fórnarlömb fjöldamorða Þjóðverja, loftárása Bandamanna og hungursneyðar.


Austurvígstöðvarnar 1943

Þrek Þjóðverja var í raun þorrið og síðasta alvarlega sóknartilraun þeirra við Kúrsk um sumarið fór fljótt út um þúfur. Um leið hófst gagnsókn Sovétmanna í vesturátt.

Þrátt fyrir betra gengi Rauða hersins var mannfall enn ægilegt og jókst reyndar enn. Um 1,3 milljónir hermanna féllu. Manntjón Þjóðverja jókst og mikið því 520.000 þýskir hermenn dóu og 200.000 bandamenn Þjóðverja.

Óbreyttir borgarar í Sovétríkjunum féllu enn í hrönnum, nærri milljón manns og 100.000 Pólverjar.


1944

27. janúar

Nærri 900 daga umsátur Þjóðverja um Leníngrad er loks rofið. Það var eitt lengsta og hroðalegasta umsátur sem sögur fara af.

Mannfallið í borginni var verst veturinn 194142 en alls dó tæplega milljón íbúa borgarinnar, um 40 prósent. Rúmlega 620.000 sovéskir hermenn dóu við að verja borgina en hátt í 200.000 þýskir féllu við umsátrið.


6. júní – Normandy

Langþráð innrás bandamanna í Frakkland hófst í júní þegar um 150.000 hermenn voru settir á land. Þrátt fyrir harða andspyrnu Þjóðverja náðu bandamenn fótfestu og 25. ágúst var París frelsuð. Bandamenn gerðu sér vonir um að ráðast beint inn í Þýskaland um haustið en urðu að doka við og safna kröftum eftir bakslag við Rínarfljót. Það var þó ljóst að yfirburðir þeirra í mannafla og herbúnaði var slíkur að þegar herinn færi af stað yrði fátt um varnir.

Af bandamönnum féllu 68.000 Bandaríkjamenn, 17.000 Bretar, 5.000 Kanadamenn, 4.000 Frakkar og allmargt af breskum samveldishermönnum. Alls um 95.000 hermenn. Þýskir hermenn sem féllu eru taldir hafa verið 250.000.

Um 70.000 óbreyttir borgarar féllu, aðallega eftir loftárásir, flest í Frakklandi eða 40.000.


Austurvígstöðvarnar 1944

Blóðsúthellingarnar jukust enn, enda barist af gífurlegri grimmd af beggja hálfu. Sovétmenn ráku flótta Þjóðverja út úr Sovétríkjunum en misstu enn ógrynni liðs. Undir árslok voru þeir komnir inn í Pólland og að landamærum Þýskalands. Þjóðverjar hafa þá yfirgefið Grikkland og Balkanskaga til að einbeita sér að vörn heimalandsins.

Sovétmenn misstu 1,4 milljónir hermanna og voru ekki fleiri á nokkru öðru stríðsári. Hver einasti af þessum hermönnum var heill heimur út af fyrir sig. Sama má segja um þá 800.000 Þjóðverja sem féllu og 300.000 bandamenn þeirra.

700.000 óbreyttir borgarar Sovétríkjanna týndu lífi þetta árið, 70.000 Pólverjar.


1945

Vesturvígstöðvarnar 1945

Sókn bandamanna inn í Þýskaland hófst í janúar og hélt áfram, hægt en örugglega allt til stríðsloka.

Talið er að um 51.000 hermenn bandamanna hafi verið drepin í lokasókninni, þar af 37.000 Bandaríkjamenn og 10.000 Bretar. Þjóðverjar féllu um 250.000 við vörnina.

Um 25.000 óbreyttir borgarar í Þýskalandi létu lífið ef loftárásir eru ekki taldar með, rúmlega 5.000 í Hollandi og Belgíu og um 2.000 í Frakklandi.


Dresden

Sprengjuflugvélar Breta og Bandaríkjamanna gerðu miklar loftárásir á Dresden í febrúar og voru þær hluti af umfangsmiklum árásum á þýskar borgir, bæði hernaðarskotmörk og íbúabyggðir, allt frá 1941 og til stríðsloka. Íkveikjuárásir eins og á Hamborg í júlí 1943 urðu sérlega umdeildar eftir stríðið. Margar borgir voru nánast lagðar í rúst enda urðu yfirburðir bandamanna í loft algjörir er leið á stríðið. Manntjón var þó ekki eins mikið og stundum er sagt, og árásirnar höfðu nær engin áhrif á baráttuþrek Þjóðverja.

Talið er að alls hafi 430.000 þýskir borgarar farist í loftárásunum. Í Dresden féllu sennilega rúm 25.000 manns, en ekki rúmlega 100.000 eins og fólk trúði lengi.

Kostnaður í mannafla við þessar loftárásaherferð var mjög hár, því 38.000 breskir flugliðar, 28.000 Bandaríkjamenn og 10.000 Kanadamenn og aðrir samveldismenn féllu öll stríðsárin. Alls um 76.000, um einn þriðji allra þeirra sem tóku þátt í árásunum.

Um 32.000 þýskir flugliðar féllu við að reyna að verjast árásunum.


Austurvígstöðvar 1945

Sókn Sovétmanna úr austri náði til Berlínar seinni part apríl 1945. Þrátt fyrir að stríðið væri löngu tapað vörðust Þjóðverjar enn af vonlausri örvæntingu enda bannað að gefast upp af Hitler. 

Á fyrstu fjórum mánuðum stríðsins féllu rúmlega 1,2 milljónir þýskra hermanna á austurvígstöðvunum og 250.000 hermenn bandamanna þeirra, ekki síst Ungverjar. Í fyrsta sinn var mannfall Þjóðverja meira en Sovétmanna, þó féllu 800.000 sovéskir hermenn, eða sem svarar tveimur íslenskum þjóðum.

Enn dóu 300.000 óbreyttir borgarar í Sovétríkjunum, aðallega af hungri og skorti, og 30.000 pólskir borgarar.

Frá hausti 1944 og til stríðsloka féllu 700.000 óbreyttir borgarar í Þýskalandi þar sem sókn Rauða hersins stóð. Þau sem féllu í loftárásum bandamanna úr vestri eru ekki talin þar með.

2,5 milljónir þýskra hermanna féllu í hendur Sovétmanna öll stríðsárin og lifði aðeins um helmingur þeirra stríðið af. Það var þó töluvert betra hlutfall en meðal þeirra sovésku stríðsfanga sem Þjóðverjar tóku. Af 5,7 milljónum stríðsfanga í heild lifðu af aðeins um 25 prósent.


Kyrrahafsstríðinu lýkur

Eftir kjarnorkuárás Bandaríkjanna á Japan í byrjun ágúst lýkur heimsstyrjöldinni. Í Kyrrahafsstríðinu féllu 8,5 milljónir Kínverja (þar af 6 milljónir óbreyttra borgara), 2 milljónir japanskra hermanna og 600.000 óbreyttra borgara, 116.000 bandarískra hermanna og 87.000 Breta. Tæp 600.000 Filippseyinga (aðallega óbreyttir borgarar) féllu og 2 milljónir í Indónesíu og 1 milljón í Indókína, 250.000 í Búrma, 100.000 í Kóreu og um 200.000 í öðrum löndum.

Alls um 16 milljónir manna.

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Hefði ekki dottið í hug að ráða sjálfan sig
2
Viðtal

Hefði ekki dott­ið í hug að ráða sjálf­an sig

Bogi Ág­ústs­son hef­ur birst lands­mönn­um á skján­um í yf­ir fjóra ára­tugi og flutt Ís­lend­ing­um frétt­ir í blíðu og stríðu. Hann seg­ir heim­inn hafa breyst ótrú­lega mik­ið til batn­að­ar á þess­um ár­um en því mið­ur halli á ógæfu­hlið­ina í rekstri fjöl­miðla á Ís­landi. Af öll­um þeim at­burð­um sem hann hef­ur sagt frétt­ir af lögð­ust snjóflóð­in fyr­ir vest­an ár­ið 1995 þyngst á hann. Enn þann dag í dag man hann hvernig var að þurfa að lesa upp nöfn þeirra sem dóu í flóð­inu á Flat­eyri.
„Ég var bara glæpamaður“
3
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Hver er Jón Óttar? - „Ég hef sjálfur fylgst með fólki mánuðum saman“
4
Fréttir

Hver er Jón Ótt­ar? - „Ég hef sjálf­ur fylgst með fólki mán­uð­um sam­an“

Jón Ótt­ar Ólafs­son, einn þeirra sem stund­aði njósn­ir fyr­ir Björgólf Thor Björgólfs­son ár­ið 2012, gaf út glæpa­sögu ári síð­ar þar sem að­al­sögu­hetj­an er lög­reglu­mað­ur sem stund­ar hler­an­ir. Jón Ótt­ar vann lengi fyr­ir Sam­herja, bæði á Ís­landi og í Namib­íu, en áð­ur hafi hann ver­ið kærð­ur af sér­stök­um sak­sókn­ara, sem hann starf­aði fyr­ir, vegna gruns um að stela gögn­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár