„Samstaða er pólitíska útgáfan af ást“
– Melanie Kaye/Kantrowitz (1945–2018)
Ég stend með þér.
Ég stend með þér, Hind Rajab. Sonur minn er fimm ára gamall að verða sex ára. Alveg eins og þú varst. Hann ætlar að verða ofurhetja. Þú varst það. Hjálpið mér, hvíslaðir þú í símann. 355 byssukúlur.
Ég stend með þér, Abdulhafith Al-Najjar. Átján mánaða sonur þinn var með krullað hár, þybbna fingur og stríðnislegt bros. Hann hét Ahmed og var myrtur í sprengingu á tjaldið ykkar í flóttamannabúðunum. Afhöfðaður. Litlum líkamanum haldið á loft.
Ég stend með þér, ónefndi ísraelski hermaður. Af því að zíónismi er plága. Rétt eins og öll hugmyndafræði sem miðar að því að afmennska annan samfélagshóp. Þér var sagt að skjóta allt sem hreyfðist. Gamla konu sem veifar hvítum klút. Aukastig fyrir að ná ófrískri konu. Þú verður aldrei sú bjarta manneskja sem þér var ætlað að vera.
Ég stend með þér, Þorgerður Katrín. Nú er komið að lokalausninni. Ísrael ætlar að herða árásir og koma öllum Palestínubúum út af Gaza. Þú segist ætla að tala áfram fyrir friði. En segir í sama andardrætti að „við vitum alveg upphafið“, sjöundi október 2023. Annaðhvort veistu ekkert um sögu þessa svæðis eða þú ert að lauma þessu að til að senda skilaboð til einhvers annars. Ert að passa þig að segja, undir rós: Ég stend samt með þér.
Samstaða er framkvæmd. Það að tala fyrir friði án aðgerða er innihaldslaus gjörningur.
Það þarf að standa á fætur. Gera eitthvað. Stundum að fórna einhverju. Það er ekki nóg að andvarpa og segja: „Þetta gengur ekki.“ Það þarf að sniðganga. Beita viðskiptaþvingunum. Taka þátt í málsókn. Aðgerðarleysi á þessum tímapunkti er samstaða með yfirstandandi ofbeldi. Það er hægt að dæma þá sem standa hjá. Hvar ætla íslensk stjórnvöld að standa í dómsal framtíðarinnar?
Samstaða er ást. Hvort elskar þú meira? Rétt barna til lífs eða viðskiptalega hagsmuni?
Athugasemdir (1)