Hvað dettur ykkur í hug þegar þið heyrið orðið víkingar?“ Spurninguna bar eiginmaður minn upp við hóp íslenskra barna sem elst nú upp í Bretlandi og sækir helgarskóla í íslensku í London. Svörin voru önnur en hann hafði átt von á.
„Ræningjar.“ „Blóðhundar.“ „Barbarar.“
Frá sjónarhóli okkar Íslendinga eru forfeður okkar víkingarnir holdgervingar hugrekkis og framtakssemi. Í grunnskóla er okkur sagt frá heimshornaflakki þeirra, sjálfsbjargarviðleitni og hæfileika þeirra á sviði viðskipta og skipasmíða. Í nýlegri kennslubók í Íslandssögu sem Námsgagnastofnun gaf út segir: „Víkingaöld er að mörgu leyti merkilegasta tímabilið í sögu Norðurlanda en afrek norrænna manna á þeim tíma gerðu þá að mestu heimsborgurum Evrópu.“
En „afrek“ eins er óréttlæti annars.
Dýrð langskipanna
Hinn 8. júní árið 793 horfðu munkarnir á eyjunni Lindisfarne við norðausturströnd Englands til sjávar. Utan úr þokunni birtist óvættur, höggormur eða dreki sem beraði tennurnar. Eftir því sem skepnan nálgaðist land varð munkunum þó ljóst að ekki var um að ræða eiginlegt skrímsli heldur skip, stærra og hraðskreiðara en þeir höfðu nokkru sinni séð.
Drungi himins speglaðist í hjálmum þungvopnaðra manna sem stukku frá borði og þustu upp ströndina. Örvæntingaróp fylltu loftin er innrásarherinn slátraði munkunum einum af öðrum. „Heiðingjar tröðkuðu á líkum dýrlinga í musteri Guðs eins og mykju á götu.“ Gestirnir yfirgáfu eyjuna klyfjaðir gersemum klaustursins.
Eiginmaður minn reyndi hvað hann gat til að sannfæra íslensku börnin í Bretlandi um sannleiksgildi þeirrar söguskoðunar sem honum hafði verið innrætt í Álftamýrarskóla; áræðni víkinganna og dýrð langskipanna. En allt kom fyrir ekki. Í breska skólakerfinu, þar sem börnin stunda nám, hófst víkingaöldin með hrottalegri slátrun á munkunum í Lindisfarne. Í breska skólakerfinu læra þau um Alfegus, erkibiskup af Kantaraborg, sem víkingar drápu eftir að hafa farið ránshendi um dómkirkjuna hans og brennt hana til grunna. Í breska skólakerfinu eru víkingarnir ofbeldismenn, þjófar og þrælasalar, sem skildu eftir sig sviðna jörð.
Á skjön við veruleikann
Á sama tíma og eiginmaðurinn messaði yfir íslenskum börnum í London um ágæti víkinganna tókust Íslendingar á um sjávarhetjur nútímans: kvótaeigendurna.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi standa nú fyrir auglýsingaherferð gegn hækkun veiðigjalds. Af auglýsingunum að dæma hrinda sægreifar landsins fleyjum sínum úr vör af ósérhlífni og dirfsku í leit að „möguleika á að græða helling af peningum“ svo að þeir megi bera verðmætin heim, ástkæru þorpi sínu til bjargræðis, eins og víkingarnir forðum.
En rétt eins og í tilfelli víkinganna er afrek eins óréttlæti annars. Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, kallaði auglýsingarnar „áróður“. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra kvað alla þjóðina sjá að veiðigjöld væru réttlát aðgerð. Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens sakaði stórútgerðina um að hafa „ryksugað upp kvótann í þorpi eftir þorp og skilið eftir sviðna jörð“.
Það er erfitt að sjá víkingana í hetjuljóma eftir að hafa heyrt lýsingar á kirkjunni í Lindisfarne „þakinni blóði guðsmanna og rúinni öllum skrautmunum“. Því sama hvað við látum eins og strandhögg víkinganna hafi verið þess tíma verslunarleiðangur í Kringluna og stúlknarán á Írlandi hafi verið í ætt við að pikka upp sæta skvísu á djamminu, er slík söguskýring á skjön við veruleikann.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi leitast nú við að handstýra sögunni. En jafnvel þótt sægreifar landsins verji öllum hagnaði sínum af auðlind þjóðarinnar í söguskýringar auglýsingastofu tala staðreyndirnar sínu máli.
Hvað dettur ykkur í hug þegar þið heyrið orðið kvótaeigendur?
Athugasemdir (2)