RÚV greinir frá því að fréttastofan hættir að senda út sjónvarpsfréttir klukkan 22 á kvöldin í sumar. Fréttatíminn sem hefur verið á dagskrá klukkan 19 færist hins vegar aftur um klukkustund, og verður sýndur klukkan 20.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins hættir að senda út fréttir í sjónvarpi klukkan 22 á kvöldin í sumar. Eftir það verður einn fréttatími í sjónvarpi, klukkan 20 á kvöldin. Þetta var tilkynnt á starfsmannafundi fréttastofunnar í dag.
„Fréttaneysla hefur breyst gríðarlega síðustu ár og við ætlum að laga okkur að þeim breytta veruleika. Með því að draga úr sjónvarpsframleiðslu getum við lagt meiri áherslu á fréttir á stafrænum miðlum þar sem flestir neyta þeirra,“ hefur RÚV eftir Heiðari Erni Sigurfinnssyni fréttastjóra: „Þetta er ekki hugsað sem hagræðing heldur áherslubreyting.“
Frá og með 24. júlí verða sjónvarpsfréttir komnar með nýjan tíma, klukkan 20 í stað klukkan 19. Fram að þeim tíma, og frá því að EM kvenna í fótbolta hefst þann 2. Júlí, verða sjónvarpsfréttir hins vegar sýndar klukkan 21 sem er sami háttur og var hafður á hjá RÚV þegar EM karla í fótbolta fór fram.
Athugasemdir