Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur vísað frá kæru Verðlagsstofu skiptaverðs sem laut að ákvörðun Skattsins um að synja stofnuninni um aðgang að gögnum um makrílútflutning. Ástæðan er að nefndin telur sig ekkert með samskipti á milli tveggja ríkisstofnanna að gera.
Verðlagsstofa skiptaverðs, stofnun sem heyrir undir matvælaráðuneytið, kærði Skattinn, sem heyrir undir fjármálaráðuneytið, til úrskurðarnefndarinnar í febrúar síðastliðnum. Var það liður í tilraun Verðlagsstofunnar til að fá afhent gögn sem varða athugun hennar á uppgjöri makrílvertíðar ársins 2024.
Skatturinn hafði áður afhent hluta gagnanna en synjaði um frekari afhendingu. Úrskurðarnefndin taldi málið ekki falla undir upplýsingalög þar sem Verðlagsstofan er sjálft stjórnvald. Með því hafi stofnunin ekki aðgang að kæruheimild á grundvelli upplýsingalaga og var málinu því vísað frá.
Niðurstaðan staðfestir að stofnanir ríkisins geta ekki krafist aðgangs að gögnum hjá öðrum stjórnvöldum á grundvelli upplýsingalaga.
Athugasemdir