Ég sit úti á hæglátri götu í miðborg Brugge. Með Gísla Martein í eyrunum og hóflega gott kaffi í bollanum bíð ég eftir að þvotturinn minn klárist á þvottastöðinni á horninu. Ég hjóla hingað vikulega með poka fulla af þvotti þar sem ég á ekki þvottavél. Né bíl.
Eftir minna en fimmtíu stafa málsgrein gætu eflaust einhverjir lesendur farið að staðsetja mig á hinum pólitíska ás út frá eigin heimsmynd. Það hlýtur að vera kýrskýrt hvað mér finnst um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, átökin í Palestínu, sjókvíaeldi og hátekjuskatta. Enda á ég ekki bíl.
Þegar næsta hjól ekur fram hjá mér reyni ég að staðsetja eigandann á sama ás en gríp jafnóðum í tómt. Ég hef ekki hugmynd um hvað þessari manneskju á svörtu hjóli með skjalatösku finnst um Evrópusambandið. Ekki frekar en ég veit hvað næsta hjólreiðakappa með blómakörfuna finnst um innflytjendamál. Hvað gæti parinu á tvíhjólinu fundist um borgarskipulagið? Ekki grænan. Ef ég væri stödd á Te og kaffi í Borgartúni gæti ég eflaust sannfært mig um að vita svörin við sömu spurningum.
„Hvenær gerðist það að lýðheilsuleg sparnaðarleið í formi hjóla breyttist í pólitíska yfirlýsingu?“
Á meðan ég held áfram að sötra kaffið mitt, halda klukkuvísar, þvottavélar og hjól borgarinnar áfram að snúast. Ég er enn með Gísla Martein í eyrunum sem er kominn því sem næst upp á háa C-ið þegar hann lætur Einar Þorsteinsson heyra það með því að saka hann um lýðskrumstilburði vinveitta einkabílnum. Hann telur Einar hafa talað með öðrum hætti þegar vinsældir hans voru meiri og hann var ekki eins örvæntingarfullur í atkvæði borgarbúa.
Hvenær gerðist það að lýðheilsuleg sparnaðarleið í formi hjóla breyttist í pólitíska yfirlýsingu? Af hverju er hægt að næla sér í atkvæði með því að tala niður virka ferðamáta? Og er þessi einfalda erindagjörð mín með skítug handklæði heimilisins vinstri sinnuð? Mögulega fer svarið eftir því hvort spurningunni sé beint til samborgara minna í Brugge eða Reykjavík.
Athugasemdir