Þreytulegur forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, tók á móti leiðtogum frá 13 bandalagsþjóðum, hverjum á fætur öðrum, í anddyri Intercontinental-hótelsins í miðborg Kyiv eftir að þau komu til baka frá minningarathöfn á Maidan-torgi. Leiðtogar ríkjanna voru að minnast þeirra hundraða þúsunda sem hafa fallið síðan allsherjarinnrásin hófst þremur árum áður, 24. febrúar 2022.
Við blaðamenn, um 100 manns, fylgdumst með móttökunni, samanþjappaðir í ráðstefnusal á annarri hæð hótelsins. Fjórir skjáir, einn á hverjum vegg, sýndu fundinn þar sem leiðtogar lásu yfirlýsingar um stuðning og vottuðu úkraínsku þjóðinni samúð – ásamt því að gefa loforð um staðfastan stuðning, þó með misjöfnum efnislegum skuldbindingum.
Tvenns konar ræður
Það var nánast hægt að skipta ræðum þeirra í tvo hópa: þau sem höfðu skýrt plan, fjármögnun og markmið – og hina sem sögðu einfaldlega: „Við erum með ykkur.“
Eftir að hafa síðastliðin þrjú ár fjallað um stríðið í Úkraínu hef ég lært að þekkja efnislitlar yfirlýsingar, tilfinningaþrungnar og loftugar ræður þar sem engum beinum aðgerðum er lofað.
Ef ég ætti að velja eina sem einhvers konar uppáhalds væri það yfirlýsingin: „Við erum með ykkur eins lengi og þarf.“ Oftast er þetta sagt í lok ræðu um evrópska samstöðu og erfiða tíma, en sjaldan er spurt: Með okkur hvernig? Eins langt og hvað þarf?
Opið loforð um óskilgreindan endi.
Hins vegar má ekki gera lítið úr alvarlegum tóninum á ráðstefnunni. Nær allir voru sammála um að Evrópa yrði að standa saman og tryggja eigið öryggi – jafnvel óháð Bandaríkjunum, sem sendu ekki fulltrúa í ár og kusu sama dag gegn ályktun Sameinuðu þjóðanna um að fordæma innrás Rússa í Úkraínu.
Ursula Von der Leyen var fulltrúi Evrópusambandsins en einnig rödd margra þeirra þjóða sem áttu fulltrúa á ráðstefnunni. Það var markvert að tungumálið og tónninn var mun harðari inn á við en oft áður.
Stærsta loforðið
Stærsta einstaka loforðið kom frá forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau; 5 milljarðar kanadískra dollara, stór vopnasending og fjórir þjálfunarhermar fyrir F-16 orrustuþotur, sem er gífurlega mikilvægt þar sem Úkraína er með töluvert fleiri F-16 þotur en flugmenn.
Þó nokkrir leiðtogar tóku þátt í fundinum í gegnum síma, en sumir komust einfaldlega ekki og sendu fulltrúa í staðinn. Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, komst ekki vegna ferðar til Bandaríkjanna, og Andrzej Duda, forseti Póllands, var einnig fjarverandi af sömu ástæðu. Hann fór til Washington í því skyni að hvetja Trump til að krefjast þess að Bandaríkin gerðu engan „svikasamning“ við Rússa eða Úkraínu.
Pólland hefur hingað til veitt Úkraínu mestan stuðning allra þjóða þegar allt er talið saman – veitt milljónum borgara skjól. Frá fyrsta degi innrásarinnar hefur Pólland stöðugt aukið útgjöld til varnarmála og mun pólski herinn að öllum líkindum verða stærsti landher Evrópu árið 2026, á eftir Úkraínu.

Norðurlöndin voru einnig stór hluti af ráðstefnunni og sendu öll fulltrúa, þar á meðal Ísland.
Eins og fram kom í umfjöllun Heimildarinnar um ráðstefnuna flutti Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra öfluga ræðu þar sem hún sagði: „Gildin sem Úkraína hefur barist fyrir eru gildin sem okkar þjóð hefur byggt tilveru sína á.“
Ekki bara gildi, heldur einnig öryggi. Kristrún hélt áfram: „Því án virðingar fyrir alþjóðalögum og alþjóðlegu reglubundnu kerfi væri öryggi lands eins og míns alvarlega ógnað.“
Við Íslendingar erum stofnaðilar að NATO og eina þjóðin án hers í sambandinu, og þar með undanskilin lágmarksgjaldi til varnarmála ólíkt öðrum ríkjum. Samt sem áður njótum við sömu verndar og aðrar þjóðir innan bandalagsins.
„Gildin sem Úkraína hefur barist fyrir eru gildin sem okkar þjóð hefur byggt tilveru sína á
Landfræðileg staða landsins veitir okkur vissan skjöld en gerir okkur einnig að skotmarki. Ástæðan fyrir aðild okkar að NATO er sú að Ísland var í áratugi eins konar bensínstöð fyrir flugflota og vopnasendingar frá Bandaríkjunum. Kafbátar sigla í kringum landið allan ársins hring og við erum samskiptamiðstöð fyrir stóran hluta af hernaðarneti bandalagsins. Það er ekkert sem segir að óvinaher gæti ekki séð Ísland í sama ljósi og NATO gerir.
En, eru rússneskar hersveitir að fara að sigla upp Faxaflóa í átt að Nauthólsvík? Líkurnar eru hverfandi. En hér er margt sem NATO telur verðugt að vernda sem útskýrir hvers vegna við komumst upp með að verja aðeins 0,2% af landsframleiðslu í varnarmál.
Þakklæti í verki
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, talaði eins og flestir aðrir leiðtogar Evrópu um þakklæti fyrir hetjulega baráttu Úkraínu og hversu erfitt væri að koma því í orð. Hins vegar, sagði hún, að þau gætu sýnt þakklætið í verki.
Danir eru fremstir á lista þjóða miðað við höfðatölu þegar kemur að gjöfum til Úkraínu, bæði fjárhagslega og hernaðarlega. Þeir hafa gefið allar stórskotabyssur, stærstan hluta F-16 þotna, og halda áfram að styðja Úkraínu þar sem hægt er. Nú leiða þeir einnig sérstakt framtak í að fjárfesta beint í úkraínskum vopnaiðnaði – eitthvað sem við Íslendingar höfum ákveðið að taka þátt í.
Hún hvatti allar evrópskar þjóðir til að auka stuðning við Úkraínu – ekki á morgun heldur í dag. Hún lagði áherslu á að fjarlægja allar sjálfsettar rauðar línur, stórefla innlenda vopnaframleiðslu og fjárfesta beint í úkraínskri framleiðslu.
Vopnahlé án þess að friður hafi verið tryggður myndi auka hættuna fyrir Evrópu, ekki minnka hana. Það myndi aðeins gefa Rússlandi tækifæri til að bæta í vopnabúr sitt og ráðast aftur á Úkraínu – eða jafnvel á annað nágrannaríki.
Tveir mánuðir til stefnu
Mette sagði að 3% væru ekki nóg – það þyrfti alvarlega fjárfestingu. Að hennar mati hefðum við um tvo mánuði til að taka þessar nauðsynlegu ákvarðanir, annars yrði það einfaldlega of seint.
Alexander Stubb, forseti Finnlands, sagði að Finnar hefðu ekki fengið að ganga í Evrópusambandið fyrr en Sovétríkin féllu. Hann minnti á að Finnland hefði tapað 10% af landsvæði sínu til Rússlands, þar á meðal svæðum þar sem bæði faðir hans og afi fæddust.
Hann sagði skýrt að þetta snerist ekki um Úkraínu heldur um heiminn sem samfélag. Ef Úkraína tapar, töpum við öll.
Finnland, ásamt öðrum, leggur til að þrýstingur á Rússland verði aukinn eins mikið og unnt er. Ákvörðunarvaldið yrði fært aftur til Evrópu og tryggt að Bandaríkin veittu bakstuðning. Allt skipulag um hvernig þessu verði háttað þarf að liggja fyrir áður en samið er um vopnahlé.
Friedrich Merz, líklegur næsti kanslari Þýskalands, hefur eftir ummæli Bandaríkjanna síðustu daga lýst því yfir að Evrópa þurfi að öðlast sjálfstæði frá áhrifum Bandaríkjanna.
Hann hefur verið þekktur fyrir að vera töluvert staðfastari þegar kemur að hernaði en forveri hans var og því líklegri að veita bæði Úkraínu meiri aðstoð, veita hana fyrr og auka fjárútlát í Þýskalandi til varnarmála til að ná því markmiði.
Athugasemdir (2)