Leiðtogar Evrópuríkja hittast núna í Kyiv, höfuðborg Úkraínu, og ræða um að taka frumkvæðið af Bandaríkjunum, nú þegar Bandaríkjaforseti hefur tekið afstöðu með Rússlandi í friðarsamningum Bandaríkjanna og Rússlands um framtíð Úkraínu.
„Þið getið ekki treyst Pútín. Þið getið ekki gert samning við Pútín, því það er um leið samningur við Kína,“ segir Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands. „Treystið mér, þetta stoppar ekki í Úkraínu,“ bætir hann við.
„Ekkert okkar getur spáð fyrir um hvað gerist næstu vikur og mánuði,“ segir forsætisráðherra Hollands, Dick Schoof.
Auk leiðtoga Evrópuríkja er Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, viðstaddur fundinn, og forsætisráðherra Japans, Shigeru Ishiba, ávarpar hann að heiman.
„Við getum ekki snúið aftur til tíma þar sem vald veitir rétt,“ sagði Trudeau, áður en hann þuldi upp búnað sem Kanada veitir Úkraínu nú til viðbótar við það sem þegar var komið.
Athugasemdir