Aðalmeðferð hófst í morgun í máli gegn Alfreð Erling Þórðarsyni sem er ákærður fyrir að hafa orðið eldri hjónum að bana í Neskaupstað þann 21. ágúst síðastliðinn. Í úrskurði Landsréttar um gæsluvarðhald yfir Alfreð Erling var vitnað í mat geðlæknis sem segir hann hafa stjórnast af alvarlegu geðrofi og séu veikindi hans langvinn. Til að hafa stjórn á þeim þurfi hann vistun á viðeigandi stofnum.
Aðalmeðferðin er rekin fyrir Héraðsdómi Austurlands en þinghaldið fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Alfreð er ákærður fyrir manndráp svipt hjónin Björgvin Ólaf Sveinsson og Rósu Benediktsdóttur lífi, þar sem þau voru stödd á heimili sínu. Samkvæmt ákæru veittist Alfreð að þeim báðum innandyra með hamri og sló þau bæði oft með hamrinum, einkum í höfuð, allt með þeim afleiðingum að þau hlutu bæði umfangsmikla og alvarlega áverka á höfði, þar á meðal ítrekuð brot á höfuðkúpum og áverka á heila og smærri áverka á öðrum hlutum líkama en þau létust bæði af völdum áverka á höfði.
Fjögur börn hjónanna krefjast samtals um 45 milljóna í miskabætur.
Hann er einnig ákærður fyrir vopnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 12. maí 2024 utandyra við Kaupvang á Egilsstöðum haft í vörslum sínum á almannafæri hníf með 15 sm blaðlengd.
Var í næstum engum samskiptum við hjónin
Alfreð Erling kom í dómsal í fylgd lögreglumanna íklæddur joggingbuxum og vínrauðri hettupeysu. Hann hélt á hálfdrukkinni kókflösku og talaði í lágum hljóðum þegar á hann var yrt.
Hann var meðal annars spurður út í samband sitt við hin látnu en hann svaraði því að þau hefðu átt sauðfé á sveitabæ foreldra hans. Þá væri hann kunningi barna þeirra. Annars hefði hann ekki verið í samskiptum við þau.
Alfreð afþakkaði að tjá sig um sína persónulegu hagi eða sögu sína um andleg veikindi. Þá vísaði hann í það sem kæmi fram í lögregluskýrslu þegar hann var inntur eftir því hvað hefði átt sér stað á umræddum degi í ágúst 2024. „Ég sé bara ekki ástæðu til þess,“ sagði hann þegar hann var spurður hvers vegna hann vildi ekki tjá sig umfram það sem hefði komið fram í skýrslutöku.
Hlé var gert á þinghaldi eftir að ljóst var að Alfreð Erling myndi ekki svara frekari spurningum, á meðan beðið var eftir vitnum sem væntanleg væru fyrir dóminn.
Athugasemdir (1)