Félagsdómur dæmdi í dag verkföll Kennarasambands Íslands í 13 leikskólum og sjö grunnskólum víða um land ólögmæt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sambandið fór í mál gegn Kennarasambandinu vegna verkfallsaðgerðanna.
Verkfall KÍ í Snæfellsbæ er ekki dæmt ólögmætt þar sem allir félagsmenn leikskólakennara greiddu atkvæði í því sveitarfélagi um verkfallið. Því þarf KÍ að láta af verkföllum í þeirri mynd sem þau hafa verið, að Snæfellsbæ undanskildum. Sambandið gerir ráð fyrir því að þau börn og kennarar sem hafa verið í verkfalli undanfarna viku mæti því til skóla í fyrramálið, að leikskólanum í Snæfellsbæ undanskildum.
Síðasta samningafundi í húsakynnum ríkissáttasemjara lauk síðdegis á föstudag og næsti fundur er boðaður á morgun, mánudag.
Fyrstu verkföllin hófust 29. október eftir að samningafundum í kjaradeilu Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga annars vegar og ríkisins hafði lokið án árangurs. Þá hófst ótímabundið verkfall í fjórum leikskólum en tímabundið verkfall í þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla. Síðan hafa bæst við fleiri skólar og hafa verkfallsaðgerðir alls staðið yfir í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum. KÍ stefndi á að frekari verkföll myndu hefjast á næstunni í sex skólum til viðbótar.
Athugasemdir (1)