Þegar ég lít um öxl þá finnst mér ég vera ótrúlega heppin manneskja. Hvers vegna segi ég það? Jú, vegna þess að ég hef fengið að kynnast svo mörgum hliðum á lífinu, fengið að kynnast lífinu eins og það var áður en tæknin hóf innreið sína á fullu og verið þátttakandi í svo ótalmörgu í lífsins ólgusjó sem hefur mótað mig sem manneskju.
Ég er alin upp í sveit hjá afa og ömmu á Stað í Súgandafirði með annan fótinn en með hinn fótinn í sjávarþorpinu Suðureyri hjá foreldrum mínum. Þar sem mannlífið mótaðist af því að hver og einn einstaklingur var mikilvægur og allir þátttakendur í því að skapa gott samfélag þar sem ímyndunaraflið og sköpunarkrafturinn fengu að njóta sín meðfram mikilli vinnu. Í þorpinu Suðureyri sem ég ólst upp í voru á þeim tíma erfiðar samgöngur yfir vetrartímann svo samfélagið varð að vera sjálfu sér nægt með flesta hluti og treysti mikið á sjóflutninga með alls kyns vörur yfir veturinn.
Fólk sat ekki með hendur í skauti þótt vinnan væri mikil í kringum sjósókn, fiskvinnslu, kennslu og önnur þjónustustörf, heldur notaði það frítímann í að fræðast og að skemmta sér og öðrum. Það voru á þeim árum tvær matvöruverslanir, kaupfélagið og kaupmaðurinn á horninu, bókabúð, bókasafn, prestur, læknir, heilsugæsla, vélaverkstæði, tvær fiskvinnslur, skelvinnsla, fjöldi báta, beitning, togari, verkalýðs- og sjómannafélag, leikfélag, skátar, barnastúka, kvenfélag, íþróttafélag, barnaskóli, barnagæsla og síðar leikskóli, tónlistarskóli og bíó tvisvar/þrisvar í viku og böll oft í hverjum mánuði og hljómsveit á staðnum.
Í þessu umhverfi ásamt sveitinni ólst maður upp í og umgekkst fólk á öllum aldri sem er dýrmæt reynsla og þetta hefur kennt mér margt og það að mannfólkið er alls konar en það er eitthvað gott í öllum og það má læra eitthvað af öllum manneskjum. Það sem mér finnst að ég hafi líka lært af samferðafólki mínu er að vera ekki of dómhörð gagnvart náunganum þótt maður sé ekki alltaf sammála en standa þó alltaf með sjálfum sér í því sem maður telur vera rétt og læra eitthvað af mistökum sínum og annarra.
„Það er eitthvað gott í öllum og það má læra eitthvað af öllum manneskjum
Mannlífið á Suðureyri einkenndist líka af öflugu verbúðarlífi þar sem alls konar fólk kom og vann á vertíð í skemmri eða lengri tíma, ungt fólk, eldra fólk og fólk af ýmsum þjóðernum. Allur þessi suðupottur sýndi manni að við erum öll eins þegar upp er staðið með kosti og galla og það kenndi manni líka að forðast fordóma og reyna að byggja hugarfar sitt á jöfnuði og réttsýni.
Ég er elst í stórum hópi systkina og lífið kenndi mér að taka snemma ábyrgð á eigin lífi. Móðir mín, Þóra, kennari til 45 ára, er fyrirmyndin mín í lífinu og dugnaðarforkur og feður mínir, Magnús og Valgeir fósturfaðir, báðir látnir, voru öflugir sjómenn og kenndu mér að bera virðingu fyrir sjómennskunni og baráttu sjávarbyggðanna fyrir tilverurétti sínum.
Ég hitti ástina ung og við Hilmar, maðurinn minn, hófum búskap á Suðureyri fyrir hálfri öld og búum hér enn með hliðarhoppi mínu sem alþingismaður á Alþingi í 12 ár þar sem ég hef nú tekið sæti aftur eftir þriggja ára hvíldarinnlögn heima á Suðureyri eins og ég grínast með.
Lífsins skóli hefur verið mér dýrmætur og þó ég geti ekki veifað skírteini með fimm háskólagráðum þá tel ég að það sem ég hef fengið að starfa og glíma við og verið treyst fyrir í lífinu hafi verið gott veganesti. Það veganesti hefur reynst mér vel í félagsstörfum og í þeim trúnaðarstörfum sem ég hef verið kosin í gegnum árin í vinnu fyrir almenning og hjarta mitt slær með þeim sem eru órétti beittir eða standa höllum fæti og náttúru landsins.
Ég er svo heppin að eiga fjögur börn og sá tími í lífinu þegar þau voru að alast upp var mjög þroskandi og gleðiríkur og fylgir manni alla ævi og nú gleðja barnabörnin mann.
Ég byrjaði ung að vinna í fiskvinnslu, verslunarstörfum og síðar við Sundlaug Suðureyrar og meðfram þessum störfum var ég á fullu í verkalýðsbaráttu og pólitík, bæði í sveitarstjórnarmálum og landsmálum. Á þessum vettvangi kynntist ég fullt af áhugaverðu fólki sem ég hef lært margt af og reynt að taka það besta út og læra af mistökum en horfa alltaf fram á við og láta ekki tímabundna erfiðleika stoppa mig af því lífið heldur áfram og það eru alltaf tækifæri handan við hornið.
Þú færð ekki allt sem þú vilt og vilt ekki allt sem þú færð er sagt, en allir erfiðleikar geta gert mann sterkari, það lærði ég þegar maðurinn minn veiktist alvarlega fyrir 5 árum og lá á sjúkrahúsi í eitt ár en náði að lokum þeim styrk að komast heim og aftur út í lífið með sína hreyfifötlun. Þetta kenndi mér að gefast ekki upp og aðlagast nýjum veruleika og vera lausnamiðuð. Þakklæti, gleði og húmor má ekki tapast og að muna að það dýrmætasta í lífinu er fjölskylda manns og allt það góða samferðafólk sem maður hefur kynnst í gegnum lífið.
„Ég er enn að læra því ég er jú sprelllifandi
Það er engin leið að hætta í pólitík og nú hefur lífið fært mér aftur stórt verkefni, það að taka sæti aftur á Alþingi þar sem ég mun leggja mig fram um að gera gagn. Í hjarta mínu verð ég alltaf sami þorparinn og sveitastelpan því þar liggja ræturnar sem fylgja mér alla ævi.
Svo lengi lærir sem lifir og ég er enn að læra því ég er jú sprelllifandi.
Athugasemdir (1)