Þegar ríkið kaus að nýta ekki forkaupsrétt sinn vegna viðskipta með meirihluta í félaginu Internet á Íslandi hf. (ISNIC) heyrði málaflokkur fjarskipta undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir stýrði.
Heimildin sagði frá því á vefnum í gær að ríkið hefði kosið að nýta ekki forkaupsrétt sinn og tilkynnt um þá ákvörðun í desember, en samkomulag um kaup á 73 prósenta hlut í ISNIC komst á í september. Fyrst heyrðist opinberlega af viðskiptunum á miðvikudaginn.
Með forsetaúrskurði um skiptingu málaflokka eftir að ný stjórn tók við færðust fjarskiptamál til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sem er nú í höndum Eyjólfs Ármannssonar.
Heimildin:"ISNIC var einu sinni alfarið í eigu hins opinbera, en það breyttist í einkavæðingarbylgjunni sem gekk yfir Ísland í kringum aldamót. Árið 2003 seldu Háskóli Íslands og aðrir opinberir aðilar 93 prósent hlut í félaginu til Íslandssíma hf., sem síðar varð þekkt sem Vodafone. Síðan gekk félagið kaupum og sölum en þrír einstaklingar hafa átt meirihluta félagsins í meira en áratug."