Kláfur sá sem félagið Eyrarkláfur ehf. áformar að reisa á Eyrarfjalli ofan Ísafjarðar getur ferjað 45 manns í hverri ferð og í kringum 500 manns á klukkustund. Kláfinn telja aðstandendur verkefnisins upplagða afþreyingu fyrir ferðamenn sem koma í tugþúsundavís með lystiskipum til Ísafjarðar ár hvert. Áætlanir gera ráð fyrir að árlega verði 29 þúsund manns flutt upp á fjallið til þess að njóta útsýnis.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í matsáætlun um verkefnið sem nú hefur verið auglýst í Skipulagsgátt. Forsvarsmaður Eyrarkláfs ehf. sagði í viðtali við fjölmiðilinn FF7 fyrir ári að áætlaður heildarkostnaður verkefnisins væri 3,5 milljarðar króna og að far með kláfnum kosti 7.500 fyrir fullorðinn einstakling.
Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin þyrfti í umhverfismat. Því mótmælti Eyrarkláfur ehf. og kærði til úrskurðarnefndar auðlindamála. Nefndin hafnaði hins vegar kröfu félagsins.
Veitingastaður á toppnum
Framkvæmdin felur í sér að byggja byrjunarstöð kláfsins við hlíðarfót Eyrarfjalls og endastöð í 700 metra hæð á toppi Eyrarfjalls. Um miðja vegu yrði reistur millistaur. Við endastöðina yrði byggður biðsalur og einnig er fyrirhugað að reisa þar móttökusal og veitingastað. Að auki stendur til að gera göngustíga úr möl og pöllum meðfram fjallsbrún Eyrarfjalls. Hið fyrirhugaða framkvæmdasvæði er allt í eigu Ísafjarðarbæjar, segir í matsáætluninni. Hafa bæjaryfirvöld undirritað viljayfirlýsingu vegna framkvæmdanna.
Síðasta sumar komu 195 skemmtiferðaskip til Ísafjarðarbæjar með um 180 þúsund farþega um borð. „Vöntun er á afþreyingu og útivist fyrir allan þann mannfjölda sem kemur í land á Ísafirði og myndi kláfurinn vera góð viðbót við annað á svæðinu,“ segir í matsáætluninni. Gert er ráð fyrir að reksturinn á kláfnum sé aðallega yfir sumartímann en þó hægt að hafa opið um helgar yfir vetrartímann ef veður leyfir.
Ekki hafa verið gerðar veðurfarslegar rannsóknir á Eyrarfjalli sjálfu en framkvæmdaaðilar hafa m.a. stuðst við veðurgögn frá Þverfjalli og flugvellinum á Ísafirði. Einnig verða notaðar upplýsingar frá þremur veðurstöðvum sem Fossavatnsgangan rekur á Heiðinni, Nónvatni og Miðfellshálsi.
Í matsáætluninni kemur fram að hægt sé að reka kláfinn í allt að 22 m/sek vindi. „Ljóst er að þótt kláfurinn verði ekki í notkun að vetrarlagi þurfa vírar, staurar og byggingar að þola það veðurfar sem er á svæðinu að vetri til,“ segir í áætluninni. Hvassviðri, ofankoma og ísing séu náttúruvárþættir sem gæta verði að.
Athugasemdir