Verkfall er nefnt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í svörum könnunar um Storytel sem Rithöfundasamband Íslands lét gera meðal félagsmanna sinna í haust; verkfall í þeim skilningi að höfundarverk þeirra fari ekki inn á Storytel nema gerðir verði nýir samningar.
„Hættum öll að gefa leyfi fyrir því að bækurnar okkar fari í Storytel
„Upphæðir sem Storytel hafa boðið mér og fleirum eru fyrir neðan allar hellur og langt fyrir neðan það sem eðlilegt getur talist,“ skrifar einn rithöfundurinn í athugasemd við spurningu um hvort viðkomandi sjái fleiri leiðir fyrir RSÍ til að bæta hlut höfunda er kemur að streymisveitum. „Þörf væri á að segja upp öllum núverandi samningum við Storytel, og semja upp á nýtt þar sem höfundar fengju meiri hlut,“ skrifar annar, og sá þriðji: „Hættum öll að gefa leyfi fyrir því að bækurnar okkar fari í Storytel.“
Lágar greiðslur
Hugmyndir sem nefndar eru í könnuninni, og hvort fólk væri hlynnt þeim, eru til að mynda að bækur fari ekki inn á áskriftarveitur fyrr en ári eftir útgáfu og sett séu bókalög sem myndu meðal annars styrkja stöðu rithöfunda gagnvart streymisveitum. 98% svarenda segjast hlynntir bókalögum og 79% hlynntir því að RSÍ beiti sér fyrir föstu bókaverði fyrsta árið eftir að bók kemur út sem myndi þýða að bækur færu ekki inn á streymisveitur fyrr en að þeim tíma liðnum.
Athygli er vakin á því að RSÍ á ekki beina aðild að samningum Félags íslenskra bókaútgefenda við Storytel en hefur til þessa reynt að tryggja höfundum hærri tekjur af útgáfu bóka þeirra með samningaumleitunum í gegnum FÍBÚT án mikils árangurs. Langsamlega flestir höfundar sem svöruðu könnuninni, eða 96%, sögðust hlynntir því að bækur séu gefnar út á hljóðbókarformi. Önnur svör sýna hins vegar að þeir upplifa að viðskiptamódel Storytel gangi ekki upp þegar kemur að greiðslum til höfunda.
Fjórði höfundurinn skrifar: „Fólk hefur ekki hugmynd um hvað kjör okkar eru slök hjá Storytel. Þarf að koma fram með tölurnar.“ Hér verður bætt úr því.
Sjöfaldur munur
Hildur Knútsdóttir er einn ástsælasti höfundur barna- og ungmennabóka á Íslandi og hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Vetrarhörkur. Þríleikur hennar; bækurnar Ljónið, Nornin og Skógurinn, hafa notið vinsælda. Fyrr í vetur tók Hildur sig til og deildi uppgjöri sínu fyrir bóksölu á síðasta ári. Upphæðin nam rúmum 1,6 milljónum króna sem kom fyrir sölu á alls 10 verkum sem komið hafa út á liðnum árum, hvort sem er í formi prentaðrar bókar – innbundinnar eða í kilju –, rafbók eða hljóðbók. Af uppgjörinu mátti sjá að Hildur fékk rúmar 697 krónur í sinn hlut fyrir hvert selt eintak af Ljóninu í innbundinni prentaðri útgáfu en rúmar 100 krónur í hvert skipti sem bókinni var streymt á Storytel. Því þarf að streyma bókinni sjö sinnum á Storytel til að höfundurinn fái jafnmikið greitt fyrir það og eitt selt eintak út úr búð. Til að verðlaunahöfundurinn Hildur fái tíu þúsund krónur greiddar þurfa hundrað manns að hlusta á Ljónið á Storytel en hún fær sömu upphæð eftir að fimmtán manns hafa keypt bókina innbundna.
Í umfjöllun Heimildarinnar um Storytel frá vorinu 2023 kom fram að dæmi væri um að rithöfundur hafi fengið 93 krónur fyrir hverja hlustun á meðallanga skáldsögu sína. Lengd bókarinnar skiptir máli því greiðslur til höfundar miðast við tímann sem tekur að hlusta á bókina, en meðallöng skáldsaga er um sjö til átta klukkustundir í upplestri. Landstjóri Storytel á Íslandi sagði þá að þau gætu ekki gefið upp greiðslur fyrir stakar bækur þar sem þjónustan byggi á streymi en ekki sölu: „Það er ekki hægt að bera saman hlustun í streymi við kaup á prentaðri bók, þetta eru mismunandi vörur.“ Margrét Tryggvadóttir, formaður Rithöfundasambandsins, sagði þau hafa gert fjölmargar athugasemdir við þetta fyrirkomulag. „Lægsta talan sem við höfum séð fyrir hverja hlustun er 11 krónur. Það var barnabók sem náði ekki klukkutíma en var samt alveg þokkaleg barnabók.“
Forsendurnar bresta
Storytel hóf útgáfu hljóðbóka á Íslandi árið 2018 og hefur síðan vaxið svo að þegar bækur koma út er gjarnan eitt af því fyrsta sem spurt er að: „Hvenær kemur hún svo út á Storytel?“ Margir tala um að þeir „lesi“ mun fleiri bækur eftir að Storytel kom til sögunnar, og þeir hlusti jafnvel á bækurnar á ferðalögum, þegar þeir skúra og ryksuga, og á meðan þeir eru í göngutúr með hundinn; nokkuð sem gat verið erfitt að gera með físískar bækur. En á meðan fjöldi þeirra sem hlustar á hljóðbækur fer síhækkandi hafa greiðslur til höfunda dregist verulega saman, en grundvöllur þess að fólk skrifi bækur er almennt sá að það fái greitt fyrir það. Greiðsla fyrir vinnuna er forsenda þess að fólk geti helgað sig ritstörfum.
Storytel var stofnað fyrir 19 árum í Svíþjóð af Jonas Tellander og Jóni Baldri Haukssyni undir nafninu Bokilur, en fyrirtækið er nú starfandi á 25 mörkuðum þar sem áherslan er á Norðurlöndin, Holland, Tyrkland, Búlgaríu og Bandaríkin. Mikil umræða skapaðist um höfundarréttarmál hér á landi þegar Storytel hóf innreið sína á íslenska markaðinn. Jón Baldur sagði þá í samtali við Morgunblaðið að þarna gæti spilað inn í að um nýjung væri að ræða og því ekki skrýtið að einhverjir verði óöruggir:
„Það hefur auðvitað verið umræða um þetta í hinum löndunum sem við störfum í, en svo verða allir sáttir. Það er ánægja og gott samkomulag milli okkar og höfunda annars staðar á Norðurlöndunum og allir fá nóg fyrir sinn snúð. Ég mæli með að fólk gefi þessu smátíma til að sjá betur hvernig þetta virkar. Þetta gæti líka opnað nýja möguleika fyrir íslenska höfunda. Í Svíþjóð eru fjölmargir höfundar sem ekki höfðu náð að vekja athygli á hinum hefðbundna markaði en eru núna komnir með góðan markað fyrir afurðir sínar í gegnum Storytel.“
„Allir fá nóg fyrir sinn snúð
Það var einmitt þannig sem Storytel kynnti sig fyrir íslenskum höfundum, að þetta væri tækifæri fyrir þá til að ná frekari útbreiðslu, en ekki bara það heldur gæti fólk fengið að kynnast þeim í gegnum streymið og færi í framhaldinu að kaupa bækur þeirra í meira mæli. „Allir fá nóg fyrir sinn snúð.“ Sem reyndar varð alls ekki raunin.
Bóklestur fer minnkandi, staða íslenskunnar fer versnandi, læsi er verra og kjör rithöfunda fara versnandi. Á allt þetta er bent í umsögn Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, um tillögu til þingsályktunartillögu um bókmenntastefnu fyrir árin 2024–2030. „Hagþenkir bendir á að bóksala hafi dregist saman og telur að blikur séu á lofti varðandi kjör þeirra sem starfa við að skrifa bækur. Hljóðbókaveitur séu í einokunarstöðu og greiðslur til höfunda smánarlegar,“ segir þar enn fremur.
Leggja til bókalög
Í umsögn RSÍ er sérstaklega fjallað um Storytel, ekki síst því að samningsstaða bæði höfunda og útgefenda sé mjög slæm þar sem Storytel sé nær einrátt á markaði. Bent er á að enda þótt velta á bókamarkaði hafi aukist þá fái höfundar sífellt minna í sinn hlut. Greiðslur séu ógagnsæjar og engin leið fyrir höfunda að átta sig á fyrirkomulagi þeirra. Sambandið leggur til að bókalög að norskri fyrirmynd verði sett á Íslandi og að lögfest verði ákvæði um að óheimilt sé að birta nýjar bækur í streymisveitum fyrr en að liðnum ákveðnum tíma frá útgáfu þeirra.
Storytel AB, móðurfélag Storytel á Íslandi, hugðist kaupa 70 prósent hlut í Forlaginu, stærstu bókaútgáfu landsins, í júlí 2020. Í desember sama ár var hætt við fyrirhugaðan samruna eftir að fyrir lá að Samkeppniseftirlitið myndi ekki samþykkja samruna fyrirtækjanna.
Rithöfundasambandið lagðist gegn samrunanum og í ályktun sem stjórnin sendi félagsmönnum kom fram að stjórnin vantreysti sænska móðurfélaginu og stjórnendum þess. „Þegar um er að ræða fákeppni á sviði menningar verður að stíga sérstaklega gætilega til jarðar,“ sagði einnig í ályktuninni.
Eftir aðkomu Samkeppniseftirlitsins gerði Storytel þess í stað langtímasamkomulag við Forlagið um „stórátak í raf- og hljóðbókavæðingu bóka Forlagsins og dreifingu efnisins hjá Storytel“.
Taka yfir útgáfur á nýjum mörkuðum
Þessar fyrirætlanir Storytel eru raunar í takt við vinnubrögð fyrirtækisins víða um heim. Fyrir þremur árum var Tyrkland sá markaður sem Storytel óx hraðast á en þar hóf fyrirtækið starfsemi sína eftir kaup á stærsta hljóðbókaframleiðanda landsins. „Þetta endurspeglar mynstur í alþjóðlegri útrás Storytel þar sem fyrirtækið kaupir stærsta keppinautinn á markaðnum, eins og við höfum einnig séð í Búlgaríu og nú síðast Ísrael. Þetta er stefna sem einnig var fylgt eftir í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þar sem Storytel keypti stærsta keppinaut sinn, Kitab Sawti, eftir að hafa komið sér fyrir í landinu,“ segir í The New Publishing Standard árið 2021, vefriti um útgáfumál á alþjóðavísu. Á fjárfestakynningu 2020 kom fram að Ísland væri eina landið þar sem Storytel byrjaði að skila hagnaði innan árs.
Þegar farið er á forsíðu Storytel á Íslandi kemur fram að þar eru „hundruð þúsunda raf- og hljóðbóka“ og „Yfir 400 titlar frá Storytel Original“. Tvær áskriftarleiðir eru í boði, Unlimited, sem sagt er besti kosturinn fyrir einn hlustanda þar sem verðið er 3.290 krónur á mánuði fyrir ótakmarkaða hlustun, og síðan Family, sem eru tveir til sex aðgangar og 100 klukkustundir af hlustun fylgja fyrir hvern aðgang. Verðið er 3.990 krónur á mánuði. Til samanburðar kostar miðstærð af BBQ King af matseðli Domino's það sama, 3.990 krónur. Allt að 600 klukkustundir af efni á Storytel fyrir alla fjölskylduna fyrir sama verð og miðstærð af pitsu. Ef eitthvað virðist bogið við þetta reikningsdæmi er gott að rifja upp að Hildur Knútsdóttir fær 100 krónur fyrir hverja hlustun af Ljóninu. Tæplega 40 manns þurfa að hlusta á bókina hennar á Storytel til að hún hafi efni á miðstærð af BBQ King.
Bækur þýddar með gervigreind
Í lestrarkönnun sem Miðstöð íslenskra bókmennta lét gera á árinu var spurt hvar fólk fær helst hugmyndir að lesefni, og segjast 33 prósent fá þær á Goodreads, Storytel, Audible eða öðrum sambærilegum öppum/síðum sem tengjast bókum. Til samanburðar segjast 36 prósent fá hugmyndirnar vegna umfjöllunar í fjölmiðlum, en flestir, eða 56 prósent, fá hugmyndir að lesefni frá vinum/fjölskyldu. Hægt var að velja fleiri en einn flokk en þetta eru þeir stærstu.
Þegar flett er neðar á síðu, eða app Storytel, er listi yfir „Topp 50 bækurnar á Íslandi í dag!“ Þar er fremst bókin Opinberanir eftir Torill Thorup, þegar þessar línur eru ritaðar. Útgefandi hennar er Lind&Co, sænsk útgáfa sem Storytel keypti fyrir þremur árum. Storytel er tekjuhæsti útgefandinn á Íslandi og miðað við framboð, og eftirspurn, af bókum frá Lind&Co á íslensku fer það að verða ein fyrirferðarmesta útgáfan hér á landi. Þýðandi Opinberana, og raunar allflestra bóka útgáfunnar úr sænsku yfir á íslensku, er Nuanxed. Það er sænskt fyrirtæki, stofnað 2021, sem sérhæfir sig í þýðingum með gervigreind. Nokkuð er síðan Storytel á Íslandi óskaði eftir starfsfólki til að yfirfara þýðingar gervigreindar, og er Berglind Þráinsdóttir einnig skráð þýðandi bókarinnar. Lesari bókarinnar fyrir Storytel er leikkonan Þórunn Erna Clausen.
Ef gripið er niður í lýsingu á bókinni, sem er á toppnum yfir vinsælustu bækurnar, segir: „Guðrún trúir Ingu fyrir því að barnið sem hún gengur með sé ekki Marteins, heldur Níelsar föður hennar, eiginmanns Ingu. Sannleikur Guðrúnar fær Ingu til að ganga á eiginmann sinn sem viðurkennir allt.“ Þetta er bók sem virðist tilvalið að hlusta á við hreingerningar, eða úti í göngutúr með hundinn. Og kostnaður Storytel við útgáfuna er mun minni en þegar Hildi og öðrum rithöfundum er greitt fyrir verk sitt enda var þegar búið að gefa bókina út á sænsku, og hún síðan einfaldlega þýdd með gervigreind. Allir fá nóg fyrir sinn snúð verður, sumir fá nóg fyrir sinn snúð. Storytel fær sitt en rithöfundar standa úti í kuldanum.
Viðskiptamódelið stendur
Meginmarkmiðin í áðurnefndri tillögu til þingsályktunar um bókmenntastefnu eru að stuðlað verði að sköpun og útgáfu á íslensku, að stuðlað verði að auknum og bættum lestri, og að stuðningur við sköpun og útgáfustarfsemi sé skilvirkur „og taki mið af örri tækniþróun og samfélagsbreytingum“. Tillagan var reyndar ekki samþykkt og lögð aftur fyrir Alþingi í vetur þar sem hún gekk til allsherjar- og menntamálanefndar eftir fyrri umræðu, skömmu áður en þing var rofið og boðað til kosninga.
Íslendingar kaupa færri eiginlegar bækur og gefa sjaldnar bækur en áður. Bóklestur fer minnkandi, lesskilningur versnar og streymisveitur á borð við Storytel hafa mikil áhrif.
Í umfjöllun Heimildarinnar í fyrra sagði landstjóri Storytel á Íslandi engin áform um að breyta viðskiptamódeli Storytel hér á landi. Hún lagði áherslu á að því fleiri sem gerist áskrifendur „því fleiri krónum höfum við að deila til rétthafa“. Þannig hagnist allir. Allir fái nóg fyrir sinn snúð. Allavega Storytel.
Athugasemdir