Ég tel mig afar lánsama manneskju. Frumburður frábærra foreldra, fædd í framsæknu og friðsælu landi þar sem samfélagið var svolítið hrátt og í mikilli mótun, allir gátu farið í skóla, fengið heilbrigðisþjónustu og aðgengi að vatni, rafmagni og hlýju heimili óháð stétt og stöðu. Þvílík forréttindi! Að auki umvafði fósturjörðin mig með stórbrotinni náttúru, orku og veðuröflum sem ég bar óttablandna virðingu fyrir og hefur mótað þjóðina í aldanna rás. Held í alvörunni að Ísland sé best í heimi!
Ég gekk í skóla, eignaðist systkini, fékk að æfa íþróttir og læra á hljóðfæri, ferðast, veiða, spila, púsla, fara á skíði, hjóla, syngja, mála, læra og lita. Allt eftir bókinni og meira til. Ég var prúð og stillt og gekk mjög vel í námi og leik og var stundum uppnefnd Gígja tía. Það sat ekki vel í litlu hjarta. Skapaði pressu á sama tíma og það var viðurkenning.
Foreldrar mínir voru metnaðarfull og styðjandi, það var mikið lagt upp úr því að við ættum góða fótlagaskó sem keyptir voru hjá Steinari Waage, skjólgóðar og hlýjar útiflíkur svo við gætum notið þess að láta veðrið berja á okkur og herða eins og best var á kosið. Okkur var kennt að bera virðingu fyrir skóladótinu, ydda liti og blýanta og allar bækur voru plastaðar og merktar bak og fyrir. Pabbi fór með bænirnar og söng endalaust af vísum og sagði sögur á meðan að mamma passaði að öll púslin væru á réttum stað og dót frágengið.
Mamma mín var þar að auki sannkallaður forvarnarfulltrúi síns tíma, eiginlega forveri Herdísar Storgaard (sem hefur farið hamförum í öryggismálum barna og unglinga síðan 1991) því þegar langflest börn dingluðu sér á milli framsæta í fjölskyldubílnum var ég í sérstökum vínrauðum barnabílstól til 5 ára aldurs en þá tók við hálfgerður kubbur sem var troðið milli mín og öryggisbeltisins til að taka mögulegt högg af mér. Ég var beisluð niður í vagninn sem ungabarn og haltu þér nú … Ég notaði líka hjálm á skíðum þegar ég var 8 ára, árið 1981, líklegast eina barnið í Bláfjöllum með hjálm fyrir utan Orra bróður. Já, framsækin var hún mamma mín og hjálmarnir voru flottir. Minn var eins og norski fáninn, rauður með hvítum og bláum röndum frá hnakka fram að enni en Orra hjálmur var eins og sænski fáninn, blár með gulum röndum. Held að okkur systkinunum hafi bara fundist við svolítið nett í fjallinu.
Ég fékk stífan ramma sem unglingur um hve lengi ég mátti vera úti og er eiginlega sannfærð um að allir skólasáttmálar um útivistartíma barna og unglinga hafi verið samdir af mömmu minni löngu áður en þeir voru innleiddir í skóla og foreldrafélög landsins. Allt kom þetta þó frá góðum stað. Henni var mjög annt um velferð mína og í alvörunni þá hefði hún átt að verða einhvers konar öryggismálaráðherra, slíkur var eldmóðurinn.
En víkjum að því sem lífið hefur kennt mér. Uppáhaldstilvitnun mín er: Manstu hver þú varst áður en heimurinn sagði þér hver þú átt að vera? Ég tengi sterkt við þessa setningu og eftir því sem ég eldist og geng í gegnum fleiri raunir lífsins verður alltaf skýrara og skýrara hvers vegna, því þegar ég lít um öxl sé ég hvað ég var oft aftengd sjálfri mér og mínum innri áttavita og fylgdi í blindni einhverjum gátlistum samfélagsins og annarra um hvað er „réttast“ og hvað ekki. Halda mig innan rammans. Eða kannski öllu heldur; hvað er öruggt og hvað ekki? Ekki það að ég hafi verið skoðana- eða stefnulaus í lífinu, síður en svo, og í stórum dráttum hefur líf mitt verið dásamlegt, gjöfult og gengið nokkuð stórslysalaust fyrir sig. Ég giftist yndislegum manni, eignaðist þrjú dásamleg börn, kláraði tvær háskólagráður og alls konar starfstengt nám og hef verið óhrædd við að prófa mismunandi starfsvettvanga. Svo dó pabbi minn langt fyrir aldur fram, ég skildi, fór í ofbeldissamband sem ég náði að losa mig út úr, börnin hafa glímt við stór verkefni síðustu ár og alltaf reyndi maður að standa í lappirnar. Gera það „rétta“. Þetta tók allt sinn toll. Eðlilega.
En það eru alls staðar tækifæri. Líka í áföllum og breytingum lífsins. Það má kannski segja að áföll síðustu ára hafi ýtt mér í dýpri sjálfskoðun og skilning á sjálfri mér og ákvörðunum mínum í gegnum lífið. Þvílík gjöf, því ég er í alvörunni að endurskoða eitt mikilvægasta ástarsamband lífsins – við sjálfa mig. Stundum leit þetta samband út eins og kjarnorkustríð væri í uppsiglingu, slík voru átökin. Ég hef meðal annars verið að brjóta af mér rammana sem æskan og unglingsárin settu mig í. Hætta að reyna að „standa mig“ og „gera rétt“ og farin að byggja mér annars konar virki sem hentar mér og mínum kjarna betur. Hlusta dýpra á minn innri áttavita og taka ákvarðanir út frá því.
Ég er nefnilega búin að sjá, finna og upplifa hvað ég er mikið. Ég er ekki nóg, ég er mikið og vil ekki breyta því á nokkurn hátt. Ég er ekki allra og það er bara allt í lagi. Ég þekki mörk mín betur og finn sterkar fyrir því hvort ég tengi við fólk eða ekki og álit annarra læt ég sem vind um eyru þjóta. Ég skapa oftar, græt meira, hlæ hærra, sæki kraft í náttúruna og þá mögnuðu hleðslu sem útivist gefur manni, enda jafnast fátt á við að tengjast orku náttúrunnar.
„Kjarninn minn endurspeglar líka fataskápinn minn sem er eins og búningageymsla fyrir gleðigöngu Hinsegin daga, þvílík er litadýrðin og glimmerið
Við erum öll einstök og styrkleikarnir felast í því að vita hver við erum, hver kjarninn er, virkja hann til góðra verka og þekkja mörkin sín. Ég komst að því að kjarninn minn er mjög orkumikill. Umbreytingarafl, eldur, sól, foss, regnbogi og litadýrð. Kom í raun ekki á óvart því ég hef alltaf verið orkumikil og sumum hefur fundist nóg um. Kjarninn minn endurspeglar líka fataskápinn minn sem er eins og búningageymsla fyrir gleðigöngu Hinsegin daga, þvílík er litadýrðin og glimmerið. Það er heldur ekki skrýtið að ég hafi upplifað mig aðþrengda í gömlu römmunum en þessi kjarni er ekki hrifinn af höftum, er voldugur og getur gagnast mér mjög vel í lífinu en getur líka skaðað ef ekki er skýrleiki og sterk tengsl mín við mig. Það hef ég reynt. Styrkleikar okkar eru nefnilega oft líka veikleikar okkar. Hin hliðin á peningnum.
Þetta svokallaða kjarnaferli mitt hefur alveg tekið á og stundum langar mig að setja á mig hjálm, belti og brodda, bara til vonar og vara, en það sem ég finn þegar slík hugsun læðist að mér er að hún heftir mig, skaðar frelsi mitt og sjálfstæði. Ég vil ekki fara inn í öryggið eða öllu heldur inn í óttann við höftin, heldur finna von, trú og frelsi og leyfa lífinu að leiða mig inn í ævintýri. Ég er enn að læra að treysta, treysta innsæinu og bæta orkunýtinguna og breyta kjarnorkustríði mínu í gleði- og friðarljós.
Athugasemdir (1)