Bjarni Benediktsson, starfandi matvælaráðherra, hefur gefið út leyfi til veiða á hövlum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá matvælaráðuneytinu.
Leyfin eru tvö; annað til veiða á langreyðum og hitt til veiða á hrefnum. Það er Hvalur hf., félag undir stjórn Kristjáns Loftssonar, sem fær leyfi til að veiði langreyðar og Tjaldtangi ehf, sem gerir út Halldór Sigurðsson ÍS, fær leyfið til að veiða hrefnur.
Tvær aðrar umsóknir bárust til hrefnuveiða en svo virðist sem þeim hafi verið hafnað.
Hvalveiðar hafa lengi vel verið afar umdeildar og komst umræða um þær í hámæli nýverið þegar leyniupptökur af syni og viðskiptafélaga Jóns Gunnarssonar, fyrrverandi þingmanns, komu fram í dagsljósið. Heimildin fjallaði ítarlega um málið þann 11. nóvember síðastliðinn.
Þar fullyrti hann að Jón hafi samþykkt beiðni Bjarna Benediktssonar um að þiggja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins gegn því að Jón komist í aðstöðu til veita veiðileyfi til Hvals hf. Það yrði arfleifð Jóns að tryggja Kristjáni Loftssyni nánum vini sínum leyfið.
Það leyfi hefur nú verið veitt.
Svandís Svavarsdóttir, þáverandi matvælaráðherra, bannaði hvalveiðar tímabundið í fyrrasumar. Síðar varð það niðurstaða umboðsmanns Alþingis að ákvörðun hennar stæðist ekki lög.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingkona Vinstri grænna, sat í matvælaráðuneytinu þegar ríkisstjórnin sprakk og boðað var til kosninga. Hún neitaði, líkt og aðrir ráðherrar flokksins, að sitja áfram í starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Í stað þess að skipa nýja ráðherra í starfsstjórnina var verkefnum dreift á milli annarra ráðherra. Það kom í hlut Bjarna að taka að sér ráðherraembætti í matvælaráðuneytinu.
Þrátt fyrir að búið sé að kjósa nýtt þing er ekki enn búið að mynda ríkisstjórn. Starfsstjórnin, með Bjarna innanborðs, er því enn við völd.
Flokkar í stjórnarmyndun studdu hvalveiðibann
Mikið hefur verið tekist á um málið á Alþingi en Andrés Ingi Jónsson, fráfarandi þingmaður Pírata, lagði fram frumvarp um bann við hvalveiðum síðasta haust. Þingmenn úr Flokki fólksins, Samfylkingu og Viðreisn lögðu frumvarpið fram með Andrési Inga. Þessir þrír flokkar eiga nú í viðræðum um nýja ríkisstjórn.
Með því að leyfa hvalveiðar til fimm ára, eins og gert var árin 2009, 2014 og 2019, segir matvælaráðuneytið að nokkur fyrirsjáanleiki í atvinnugreininni sé tryggður.
„Leyfin framlengjast árlega um eitt ár og heimilt er að flytja allt að 20% af veiðiheimildum hvers árs yfir á næsta ár. Fiskistofa og Matvælastofnun munu sem fyrr hafa eftirlit með veiðunum.“
Í tilkynningu matvælaráðuneytisins kemur fram að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar hafi verið á þá leið að árlegar veiðar hrefnu til ársins 2025 nemi ekki meira en 217 dýrum.
„Árið 2018 voru sex hrefnur veiddar við Ísland og árið 2021 var ein hrefna veidd. Engar langreyðar hafa verið veiddar á árinu 2024, árið 2022 voru 148 dýr veidd eftir þriggja ára veiðihlé og 24 dýr voru veidd árið 2023.“
Fréttin hefur verið uppfærð
Athugasemdir (2)