Ójafnvægi næringarefna er talið hrjá 74 prósent alls landbúnaðarlands ríkja Evrópusambandsins. Ofgnótt köfnunarefnis í jarðvegi er að verða útbreiddara vandamál sem gæti reynst skaðlegt heilsu manna, ræktun, vistkerfum og loftslaginu. Á sama tíma er magn lífræns kolefnis, sem er nauðsynlegt til að halda jarðvegi heilbrigðum, að minnka á landbúnaðarsvæðum.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var og gefin út í samstarfi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Umhverfisstofnunar Evrópu. Í skýrslunni kemur fram að nauðsynlegt sé að bregðast nú þegar við áður en skaðinn verði. Gríðarlegt magn skíts frá dýrum sem haldin eru á verksmiðjubúum víðs vegar um álfuna, er meðal ástæðna þess að þetta ástand hefur skapast.
Ofgnótt köfnunarefnis í jarðvegi hefur verið þekkt vandamál um hríð. Ójafnvægi næringarefna í jarðvegi spillir vistkerfum, hefur áhrif á vöxt og viðgang villtra jurta og annarra lífvera.
Athugasemdir