Fyrir fimmtán árum voru ljósin á göngum bráðamóttökunnar slökkt á næturnar, en nú eru gangarnir flóðlýstir allar nætur. Ástæðan er sú að sjúklingar liggja á göngunum og í verstu tilfellum er búið um þá á baðherbergjum. Á göngunum eru læti, stöðugt áreiti og stundum skapast þar hættulegar aðstæður. En þar er fárveikt fólk látið liggja. Og þar þarf starfsfólk spítalans að sinna sjúklingum. Frammi á gangi þurfti nýlega að setja þvaglegg í mann. Í annan stað þurfti að tilkynna aðstandendum alvarlegar fregnir við sjálfsalann frammi, við hvell hljóðin í neyðarbjöllunni, því hvergi var hægt að finna næði.
Árið 2018 vakti mikla athygli þegar dætur 92 ára gamallar konu, sem hafði dottið og fengið slæmt höfuðhögg, greindu frá því að hún hefði verið látin sofa á salerninu á Landspítalanum vegna plássleysis, með kúabjöllu til að gera vart við sig. Í dag kippir fólk sér varla upp við slíkar frásagnir lengur.
Gluggalaust rými sem var ætlað sem biðsvæði er nú orðið að legurými þar sem fólk dvelur jafnvel í nokkra sólarhringa. Tækjabúnaður er ófullnægjandi og sú staða hefur komið upp að starfsfólk spítalans hefur þurft að forgangsraða þeim sjúklingum sem fá hjartasírita.
„Það er sama með hvaða augum horft er á stöðu sjúkrahúsmála á Íslandi, við blasir kolsvört mynd“
Fimmtán ár eru síðan Benedikt Kristjánsson hóf störf sem sérfræðingur í bráðalækningum á bráðamóttöku Landspítalans. Frá þeim tíma hefur ástandið á bráðamóttökunni gjörbreyst. Og hann hefur áhyggjur af stöðunni. „Þetta er ekki mannúðlegt,“ segir hann í viðtali við Jóhannes Kr. Kristjánsson í hlaðvarpsþættinum Á vettvangi, sem unninn er í samvinnu við Heimildina. „Að vera veikur og fastur í rúmi á gangi í flóðlýsingu og bara eins og ég kalla þetta, í dýragarðinum.“
Benedikt bendir á hið augljósa, að Landspítalinn er stofnun sem er í vandræðum, löngu sprunginn. Á síðustu árum hafa starfsmenn sent frá sér hvert neyðarkallið á fætur öðru án þess að nokkuð hafi breyst.
Ástandið á bráðamóttöku Landspítalans hefur ekki alltaf verið svona og það þarf ekki að vera svona. Þetta er ekki náttúrulögmál heldur afleiðing ákvarðana stjórnmálamanna sem hér hafa verið við völd.
„Íslendingar þurfa bara að fara að ákveða sig – hvað vilja þeir?“
Fjölgun þjóðar, fækkun sjúkrarúma
Allan sólarhringinn, alla daga ársins, streyma sjúklingar að bráðamóttöku Landspítalans.
Árið 2023 voru 94 þúsund komur á slysa- og bráðamóttökur Landspítalans. Eða um 7.800 komur á mánuði, tæpar 2.000 á viku, um 280 á dag. Ellefu ný mál á klukkustund, eitt nýtt mál á um fimm mínútna fresti.
„Þegar fólk kemur á bráðamóttöku þá er ákveðinn hluti þess hóps sem er í lífshættulegu ástandi. Ef það tefst um klukkutíma að við náum að skoða fólkið þá eru einhverjir sem lifa það ekki af,“ útskýrir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.
Ástandið var fyrirsjáanlegt. Á fimm ára tímabili, frá 2018 til 2023, fjölgaði Íslendingum um 40 þúsund. Fyrir utan 2,2 milljónir ferðamanna sem sóttu Ísland heim í fyrra.
Á sama tímabili fjölgaði öldruðum, 70 ára og eldri, um ríflega 20 prósent. Sem birtist meðal annars í því að frá 2019 til 2023 varð 19 prósent aukning á fjölda þeirra sem leita til Landspítalans. Spítalinn er svo yfirfullur að á tveggja mánaða tímabili í haust, í september og október, neyddust 69 sjúklingar til að dvelja lengur en 100 klukkustundir á bráðamóttökunni.
Hver legudagur felur í sér 24 klukkustunda dvöl á deildinni. Á síðasta ári voru 9 þúsund legudagar á bráðamóttökunni. Samtals voru innlagnir á Landspítalann 28 þúsund og legudagar þar 221 þúsund. Nýting á legurýmum var 99 prósent.
Í því samhengi má benda á að almennt er talið æskilegt að nýting á rúmum sé ekki meiri en 85 prósent, til að hægt sé að mæta álagstoppum. Erlendis er viðmiðið víða enn lægra, eða 80 prósent. En hér er ekkert óalgengt að nýting á sjúkrarúmum fari yfir 100 prósent á góðum degi. Á bráðadeildum Landspítalans var nýting sjúkrarúma til dæmis 103 prósent í október 2021, 101 prósent á sama tíma 2019 og 100 prósent tveimur árum fyrr.
„Um síðustu aldamót var byrjað að fækka rúmum á spítalanum“
Enda skrifuðu fjórir sérfræðingar á Landspítalanum harðorða grein sem birtist í Læknablaðinu árið 2021. „Síðastliðinn áratug hefur ófremdarástand ríkt á Landspítala vegna fjölda bráðveikra sjúklinga sem ekki komast tímanlega á legudeildir og liggja því langdvölum á bráðamóttöku sjúkrahússins,“ sagði meðal annars. „Ýmsar ástæður liggja að baki en þyngst vegur ónógur fjöldi sjúkrarúma á Landspítala. Um síðustu aldamót var byrjað að fækka rúmum á spítalanum líkt og á flestum sjúkrahúsum Vesturlanda samhliða aukinni áherslu á göngu- og dagdeildarþjónustu. En svo virðist sem ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til fyrirsjáanlegrar fjölgunar aldraðra sem hófst í kringum síðustu aldamót og mun halda linnulaust áfram næstu áratugi.“
Sérfræðingarnir bentu á að á meðan Íslendingum hefur fjölgað um 90 þúsund frá aldamótum hefði sjúkrarúmum á Landspítala fækkað um 500 og annað eins á öðrum sjúkrahúsum landsins. Með öðrum orðum: Á meðan Íslendingum fjölgaði um 30 prósent hrundi fjöldi sjúkrarúma á hverja 1.000 íbúa niður um 69 prósent. Eftir þetta gríðarlega hrun var fjöldi sjúkrarúma á Íslandi orðinn 28 prósent lægri en meðaltal annarra þjóða í vesturhluta Evrópu.
Til að leysa vandann þyrfti 30 prósent fjölgun sjúkrarúma á bráðamóttöku og samsvara opnun fjögurra nýrra legudeilda, skrifuðu sérfræðingarnir og vöruðu við ástandinu: „Það er sama með hvaða augum horft er á stöðu sjúkrahúsmála á Íslandi, við blasir kolsvört mynd.“
Alvarleg atvik
„Það er svo augljóst að það var allt gert til þess að koma henni út af bráðamóttökunni sem fyrst,“ sagði faðir 42 ára gamallar konu sem leitaði mikið veik á bráðamóttökuna en var send heim tveimur tímum síðar. Erilsamt var á bráðamóttökunni þetta kvöld en engar rannsóknir höfðu verið gerðar, blóð- eða þvagprufur voru ekki teknar og sjúkrasaga hennar var ekki skoðuð.
„Ég vil engum það að missa barnið sitt. Þurfa að koma að því og reyna að endurlífga það“
Í viðtali við RÚV kallaði faðir hann eftir réttlæti. „Mér var ekki einu sinni svarað þegar ég sagði að hún væri ekkert betri. Ég fékk ekkert svar.“
Konan fannst látin í rúminu sínu nokkrum klukkutímum seinna. „Hún er farin og kemur ekki aftur. Ég vil engum það að missa barnið sitt. Þurfa að koma að því og reyna að endurlífga það,“ sagði faðir hennar.
Álagið hefur afleiðingar
Árið 2022, ári eftir að fjórir sérfræðingar á Landspítalanum vöruðu við ófremdarástandi, bárust Embætti landlæknis sex tilkynningar um alvarleg atvik á bráðamóttöku. Þrjú þeirra tengdust andláti sjúklinga skömmu eftir útskrift af bráðamóttökunni.
Á meðal hinna látnu var maður á sextugsaldri sem leitaði til bráðamóttöku á milli jóla og nýárs. Hann var almennt heilsuhraustur en kenndi sér meins, fékk skoðun og var sendur heim. Nokkrum klukkustundum síðar var hann látinn.
Fleiri slíkar sögur hafa verið sagðar á síðustu árum.
Hversu margir þurfa að deyja til að eitthvað breytist?
SOF-andi nefndir eða ríkisstjórn
Heilbrigðismál eru stærsti einstaka útgjaldaliður ríkisins og hefur vaxið jafnt og þétt á síðustu árum, líkt og í öðrum OECD-ríkjum. Þrátt fyrir það hefur rekstur Landspítalans verið í járnum. Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá því í sumar skýrir ástandið að einhverju leyti.
Við ákvörðun fjárheimilda heilbrigðisstofnana er að jafnaði gert ráð fyrir raunvexti upp á 1,8 prósent á ári til að mæta fólksfjölgun, hækkandi meðalaldri og framþróun í meðferðarúrræðum. En það dugar ekki til þegar gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um 8,5 prósent fram til ársins 2029, og að fjölgunin verði að meðaltali ríflega 3 prósent á ári í hópi 65 ára og eldri. Við vinnslu fjármálaáætlunar 2025 til 2029 gerði heilbrigðisráðuneytið því tillögu um leiðréttingu á þessu viðmiði. Tillagan var ekki samþykkt, en þess í stað lagði fjármálaráðuneytið til að heilbrigðisráðuneytið færði fjármuni frá hjúkrunarheimilum yfir í Landspítala, með þeim skilaboðum að það sé á ábyrgð ráðuneytisins að koma til móts við stofnanir sínar telji það að fjármögnun þeirra sé ekki fullnægjandi.
„Það er ekkert samfélag sem hefur tekist að leysa heilbrigðismál að fullu“
Eitt stærsta vandamál spítalans er að ekki er hægt að koma fólki frá spítalanum á viðeigandi stofnanir. Í lok síðasta árs voru 20 prósent rúma á bráðalegudeildum upptekin vegna sjúklinga sem biðu úrræða utan spítalans. Flestir þeirra þurftu að komast í hjúkrunarrými sem eru ekki til. „Við þurfum að byggja fleiri hjúkrunarrými og það hraðar,“ sagði varaformaður Vinstri grænna í kappræðum Heimildarinnar, en til væri nefnd á vegum hins opinbera sem þyrfti að yfirfara allar opinberar framkvæmdir. „Hún er skammstöfuð SOF, það vantar bara -andi þar fyrir aftan. Við verðum að geta byggt hraðar.“
Enginn gæti haldið því fram að vandinn yrði leystur með nýrri ríkisstjórn, sagði varaformaður Sjálfstæðisflokksins: „Það er ekkert samfélag sem hefur tekist að leysa heilbrigðismál að fullu.“
Enn stærri áskorun væri að manna kerfið en að fjármagna það. Í umsögnum Landspítala um fjárlagafrumvarp síðustu ára hefur þetta tvennt verið tiltekið: Vöxtur er vanáætlaður og mannekla viðvarandi. Launakjör þurfi að vera samkeppnishæf og starfsumhverfi aðlaðandi. Þrátt fyrir viðvörunarorð Landspítalans er staðan ekki skárri en svo að fyrr í mánuðinum samþykktu læknar verkfallsaðgerðir.
Hversu margir þurfa að hætta til að eitthvað breytist?
Allt uppbókað
Annað sem kom fram í svörum fjármálaráðuneytisins við tillögu heilbrigðisráðuneytisins var að þegar hefði verið ráðist í styrkingu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustað til að létta á álaginu á spítalanum.
Þrátt fyrir það eru dæmi um að ekki sé hægt að bóka tíma hjá lækni á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna álags. Ef á annað borð er hægt að komast að hefur verið allt að þriggja mánaða bið eftir tíma hjá heimilislækni. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti í samtali við Vísi fyrr á árinu að stundum væri allt uppbókað. „Því miður þekkjum við þannig tilfelli.“
Til að vel væri þyrfti þrjátíu lækna og tuttugu hjúkrunarfræðinga til viðbótar á heilsugæsluna. Enda hefur dregið úr trausti og ánægju með heilsugæsluna á undanförnum fjórum árum. Þegar íbúar á höfuðborgarsvæðinu svöruðu þjónustukönnun Sjúkratrygginga töldu 73 prósent þeirra brýnt að stytta biðina, auk þess sem auka þyrfti aðgengi að læknum.
Í dag er í fyrsta lagi hægt að fá tíma hjá heimilislækni hjá Heilsugæslunni á Miðbæ um miðjan desember. Ef þú ert heppinn.
Hversu ráðþrota þarf fólk að verða til að eitthvað breytist?
Vonin dó í dag
Vandinn er öllum ljós, en birtingarmyndin blasir best við á bráðamóttökunni.
Í lok síðasta árs sagði sérfræðilæknir þar upp með þeim skilaboðum að ekki væri pláss til að sinna sjúklingum, vaktir undirmannaðar og vinnuumhverfið hreinlega hættulegt. Hjúkrunarfræðingar hefðu hrökklast frá í tugatali og sérfræðilæknum fækkaði stöðugt. Þegar þrír ættu að vera á vakt væri allt of oft aðeins einn á vakt. „Ég held að það séu allir sammála um að öryggi sjúklinga sé ógnað.“
„Það sem setti endanlega naglann í mína kistu var að lesa fjárlagafrumvarpið“
Margítrekað ákall til stjórnvalda um auknar fjárveitingar og aðgerðir hefðu engu skilað. Honum hefði ekki þótt auðvelt að taka ákvörðun um að hætta, en „það sem setti endanlega naglann í mína kistu var að lesa fjárlagafrumvarpið“. Við lesturinn hafi honum orðið ljóst að enginn vilji væri fyrir hendi til að bæta ástandið á spítalanum.
„Það er engum hollt að starfa í því umhverfi sem fólki er þar búið og því síður að sækja þangað þjónustu,“ voru kveðjuorð Eggerts Eyjólfssonar.
Árið áður kvaddi hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku með svipuðum orðum: „Ég get ekki horft upp á þetta lengur,“ skrifaði Soffía Steingrímsdóttir. Staðan hafi farið stöðugt versnandi síðustu fimm árin. „Vonin dó í dag, þegar ég gafst upp.“
Hversu oft þarf að segja þetta til að eitthvað breytist?
Vísa ábyrgð á yfirvöld
Ár eftir ár eftir ár eftir ár hafa neyðarköll borist frá Landspítalanum.
Árið 2022 greindi slökkviliðs- og sjúkraflutningakonan Áslaug Birna Bergsveinsdóttir frá því að bráðamóttakan væri stöppuð, sjúklingar um alla ganga og bíða þyrfti með sjúklinga á sjúkrabörunum í lengri tíma.
„Svona ástand er stórhættulegt“
Sama ár sendi stjórn Félags bráðalækninga heilbrigðisráðherra opið bréf. Í bréfinu var áréttað að bráðamóttakan réði ekki við að sinna hlutverki sínu og réttindi sjúklinga væru fótum troðin. „Svona ástand er stórhættulegt,“ sagði í bréfinu. „Íslenska þjóðin lifir við þá tálsýn að á Íslandi sé heilbrigðiskerfi sem er sambærilegt við önnur kerfi í Norður-Evrópu. Því fer fjarri.“
Ári fyrr sendi félagið frá sér yfirlýsingu um að veikum og slösuðum sjúklingum á bráðadeild væri stefnt í hættu. „Komi til alvarlegra atvika á bráðadeild sem rekja má til manneklu, ófullnægjandi starfsaðstöðu eða annarra tengdra þátta, vísum við allri ábyrgð á þeim atvikum til forstjóra Landspítala, Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem æðsta yfirmanns heilbrigðismála, Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Alþingis sem fer með fjárveitingarvald ríkisins,“ sagði í yfirlýsingunni.
Í sömu viku lýsti fagráð Landspítalans áhyggjum af því að hjúkrunarfræðinga vantaði á 500 vaktir á bráðamóttökunni þetta sumarið. Neyðarköllum Landspítalans var svarað á fundi þáverandi heilbrigðisráðherra með læknaráði: „Það er töluverð áskorun fyrir ráðherra að standa með Landspítala þegar koma ályktanir á færibandi.“
Kannski þarf engan að undra að þegar landlæknir lýsti því hvað hefði breyst frá því að hann hóf eftirlit með deildinni árið 2018 var að nú vantaði lækna á deildina. „Það var ekki vandamál þarna fyrst þegar við fórum þangað árið 2018. Þá var yfirlæknirinn nokkuð brattur.“
„Krónísk katastrófa.“ Þannig var lýsing erlendra sérfræðinga sem voru fengnir til að meta ástandið á bráðamóttökunni.
„Krónísk katastrófa.“
Hversu alvarlegar þurfa lýsingarnar að verða til að eitthvað breytist?
Hættur og farinn
Læknar hafa haldið áfram að kalla eftir aðstoð.
Hver einasti sérfræðilæknir sem starfaði á bráðamóttöku, að yfirlæknum frátöldum, skrifuðu undir bréf til forstjóra Landspítalans. Í bréfinu sagði að spítalinn væri vísvitandi að setja sjúklinga og starfsfólk spítalans í hættu. Óþarfa alvarleg atvik myndu koma upp sem gætu leitt til dauða, hætt væri við því að sjúklingar fengju ranga greiningu og ranga meðferð. Mannekla kæmi í veg fyrir að hægt væri að tryggja öryggi sjúklinga og gerði það að verkum að sjúklingar sem þangað leita verði fyrir óþarfa töf sem geti reynst lífshættuleg.
Eggert Eyjólfsson sérfræðilæknir var á meðal þeirra sem skrifuðu undir. Nú er hann hættur og farinn.
Í von um lausnir leituðu læknar lengra. Embætti landlæknis barst ábending í desember 2018 frá lækni á bráðamóttökunni um að ástandið þar væri óviðunandi. Í kjölfarið upphófst reglulegt eftirlit með deildinni. Á þessu tímabili hefur landlæknir reglulega sent heilbrigðisráðherra minnisblöð, þar sem þungum áhyggjum er lýst. Húsnæði og mönnun uppfylla ekki lágmarkskröfur um rekstur heilbrigðisþjónustu.
„Þetta er bara ömurlega ljótt og erfitt“
Tveimur árum eftir að landlæknir hafði fyrst samband við ráðherra vegna málsins hafði ekkert breyst. „Nú er svo komið að vandinn er af þeirri stærðargráðu að við þetta ástand verður ekki unað. Það getur skapað jarðveg fyrir óvænt atvik og hættu á frekara brottfalli starfsfólks,“ sagði í úttekt landlæknis árið 2020.
Sömu orð voru endurtekin árið 2022. „Miðað við núverandi aðstæður á bráðamóttöku er mikil hætta á að ekki sé hægt að tryggja öryggi sjúklinga og starfsfólks.“
Ef hægt væri að loka bráðamóttökunni hefði landlæknir lagt það til við ráðherra. Það hefur hún margoft sagt honum. En það hefur ekki breytt neinu. Ekki enn.
Mæta til að sigra
„Þetta er bara ömurlega ljótt og erfitt,“ útskýrir hjúkrunarfræðingur í viðtali við Jóhannes Kr. Kristjánsson.
„Þetta er ekki vandamál sem æðstu ráðamenn þjóðarinnar vita ekki af. Það er búið að tala um þetta í svo ofboðslega langan tíma en vandamálið stækkar bara og stækkar.“
Vitneskja stjórnvalda er svo sannarlega til staðar. Þetta er spurning um vilja, getu og forgangsröðun. Forgangsröðun sem kostar samfélagið meðal annars mannslíf, heilsu og öryggistilfinninguna. Fyrir utan kostnaðinn sem felst í því að takast á við vanda sem hefur vaxið og því þegar fært heilbrigðisstarfsfólk lætur sig hverfa af þessum vettvangi.
En þrátt fyrir allt mætir starfsfólk bráðamóttökunnar enn til starfa og gerir sitt besta til að sinna veikum og slösuðum. „Við mætum í vinnuna til þess að sigra.“
Það má þakka fyrir það.
Athugasemdir (1)