Starfsmannaleigur hafa gegnt stóru hlutverki í þenslu íslensks vinnumarkaðar undanfarna áratugi. Meginforsenda starfsemi erlendra vinnuleiga hér á landi er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sem felur í sér frjálst flæði fjármagns og vinnuafls milli þeirra ríkja sem samningurinn nær til. Alþjóðahyggja hefur lengi verið einn stólpi í hugmyndafræði verkalýðshreyfingar allra landa, en sú alþjóðahyggja á reyndar ekki mikið skylt við þá sem birtist í starfsmannaleigum samtímans. Starfsmannaleigur eru í grunninn sala eins aðila á vinnuafli annars með hagnaðarvon að leiðarljósi. Sá sem leitar til starfsmannaleigu er ekki umbjóðandi leigunnar í þeim skilningi að hann veiti leigunni umboð sitt heldur kaupir leigan vinnuafl hans til að selja áfram. Slíkar leigur reyna þá gjarnan að koma í veg fyrir að sá hinn sami skrái sig í verkalýðsfélag og njóti réttinda sem fylgja félagsaðild. Verkafólk er þá „vara“ í viðskiptum og burðarstoð nánast takmarkalausrar þarfar ríkjandi afla fyrir hagvöxt og jafnframt réttlítið og jafnvel réttlaust vinnuafl sem gengur kaupum og sölum.
„Undirritaður hefur komið í íverustað pólsks verkamanns í Reykjavík sem var um það bil 10 fermetrar, og ekkert annað þar inni en skítug dýna; hvorki lak, koddi né sæng“
Undirritaður hefur komið í íverustað pólsks verkamanns í Reykjavík sem var um það bil 10 fermetrar, og ekkert annað þar inni en skítug dýna; hvorki lak, koddi eða sæng. Salerni á gangi sem virtist ekki hafa verið hreinsað í einhverja mánuði. Eitthvað sem átti að kallast „eldhús“ var sameiginlegt fyrir alla þá sem bjuggju í herbergjum á sama gangi. Þetta rými var þannig að flestir íbúar kusu að laga kaffi eða te og jafnvel hita sér mat í herberginu. Leigjandi herbergisins var maður sem kom til Íslands gegnum starfmannaleigu og þurfti að greiða fyrir herbergið og aðstöðuna sem því fylgdi vel þriðjung af launum sínum. Starfsmannaleigan var hans launagreiðandi sem tók við greiðslum frá vinnukaupanda og greiddi honum eftir að hafa dregið frá húsaleigu og ýmis önnur gjöld.
Af verktökum
Fyrir tveimur árum þurftu hjón á hæfum pípara og öðrum iðnaðarmönnum að halda. Þau höfðu samband við smið sem þau þekktu og vissu að hefði sambönd við aðra iðnaðarmenn. Sá benti á íslenskan pípulagningamann sem tók að sér verkið, en því aðeins að ákveðinn múrari sæi um verkið; það gengi þá snurðulaust. Pípulagningamaðurinn kom í eigin persónu til þess að ganga frá samningum. Það reyndist næstsíðasta heimsóknin hans í íbúðina; seinni heimsóknin var þegar hann kom með rukkunina.
Píparinn rekur nefnilega fyrirtæki og ræður til sín verktaka sem vinna verkin; setur með öðrum orðum upp verð sem felur í sér pípulagnir, múrverk og flísalagnir. Hjónunum, sem höfðu reiknað með að sá sem þau sömdu við myndi vinna að minnsta kosti þann hluta sem hans iðngrein náði til, varð ljóst að „heimurinn“ hafði breyst frá því þau þurftu síðast að leita til iðnaðarmanna. Þeir komu einn af öðrum, pípari, múrari, aðstoðarmaður múrara og verkamaður; enginn þeirra talaði íslensku og allir voru „verktakar“. Búið var að semja um heildarverð fyrir framkvæmdina við píparann. Hann hafði menn frá Lettlandi, Litáen, Rúmeníu og Úkraínu sem verktaka. Litáinn sá um flísalagnir og hafði að sínu leyti aðstoðarmenn, ófaglærða verkamenn, á sínum snærum sem einnig voru „verktakar“ og unnu óþrifalegustu verkin.
„Því aftar sem drepið er niður í slíka lifandi verktakakeðju, þeim mun lægri eru launin og starfsumhverfið erfiðara og óheilsusamlegra
Hér var lifandi keðja „verktaka“, eða öllu heldur gerviverktaka sem eru ekki í verkalýðsfélagi og þar af leiðandi ekki með þau réttindi sem íslensk lög gera ráð fyrir að launþegar njóti. Það er einnig nokkuð ljóst að því aftar sem drepið er niður í slíka lifandi verktakakeðju, þeim mun lægri eru launin og starfsumhverfið erfiðara og óheilsusamlegra, auk þess sem grundvallarmannréttindi og réttindi sem verkalýðshreyfingin hefur á liðinni öld og áratugum aflað sínum félagsmönnum. Þetta er Íslandi í dag!
Er hægt að bregðast við?
Í öllum löndum Evrópu eru starfandi verkalýðsfélög og verkalýðshreyfing; reyndar misjafnlega vel á sig komin. Frjálshyggja umliðinna áratuga hefur sums staðar gengið að verkalýðshreyfingu nærri dauðri en hvergi þó alveg. Í Póllandi, (því landi þar sem „Solidarność“ eða Samstaða fæddist, í sinni upprunalegu mynd sem verkalýðshreyfing, og varð burðarásinn í þeim miklu breytingum sem leiddu til hruns austurblokkarinnar 1989 til 1991) er svo komið að vel innan við 10 prósent verkafólks er félagsbundið; í byggingargeiranum eru innan við 2 prósent verkafólks félagsbundið. Það er þversagnakennt að í þeim löndum sem áður töldust til fylgiríkja Sovétríkjanna, er þátttaka verkafólks í verkalýðsfélögum hvað lægst í Evrópu. Til samanburðar er þátttaka verkafólks í íslenskum stéttarfélögum 80 til 90 prósent; og trónir hæst Evrópuríkja.
Stórar virkjanaframkvæmdir á Íslandi hafa gjarnan kallað á erlent vinnuafl. Á tímabilinu 1966 til 1967 var Búrfellsvirkjun í vinnslu. Á þeim tíma var erfitt að fá til starfa menn vana vinnuvélum og stórvirkum tækjum. Í samráði við hlutaðeigandi verkalýðsfélög voru verkamenn fengnir erlendis frá. Brátt kom hins vegar í ljós að erlendir verkamenn ynnu störf sem járniðnaðarmenn töldu sig eiga forgangsrétt til. Forgangsréttur verkalýðsfélaga var þá lykill að lausninni, lykill sem verkalýðshreyfingin hefur borið gæfu til að standa vörð um. Þetta ákvæði gerði atvinnurekendum skylt að leita samþykkis hlutaðeigandi verkalýðsfélaga ef þörf þótti á að flytja inn erlent vinnuafl. Að sínu leyti bar stéttarfélagi sem fékk ósk um innflutning á vinnuafli á sitt borð að meta það út frá raunforsendum, hvort þörf væri á vinnuafli eða ekki. Það var því komið undir samþykki eða höfnun verkalýðsfélaga hvort vinnuafl væri sótt til annarra landa. Þetta breyttist með samþykkt Alþingis um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu sem tók gildi í ársbyrjun 1994. Þess skal getið að þegar ósk kom um að aðildarumsóknin færi í þjóðaratkvæðageiðslu var því hafnað. Með þeirri ákvörðun var opnað fyrir „fjórfrelsið“ (frjálsan flutning fólks, varnings, þjónustu, fjármagns) sem fól í sér frjálst flæði fjármagns og vinnuafls innan svæðis sem telur 31 ríki.
Ef atvinnurekendur og starfsmannaleigur vilja flytja inn vinnuafl utan EES þarf að leita samþykkis Vinnumálastofnunar. Innan þess mengis er þó ekki það verkafólk sem kemur hingað til vinnu innan tímaramma sem nær yfir 90 daga. Um það fólk gildir undanþáguákvæði í lögum um „atvinnuréttindi útlendinga“ og nægir að atvinnurekandi eða starfsmannaleiga tilkynni slíka heimsókn á netinu. Fólk sem kemur á þessum forsendum er þá gjarnan skráð sem „verktakar“ sem er reyndar titill sem einnig er of oft hengdur á verkafólk frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Því fylgir nefnilega sú meinloka að réttindi þess fólks, meðal annars hvað varðar lífeyri, eru verulega skert um leið og kaupandi vinnuaflsins, atvinnurekandinn eða starfsmannaleigan er laus við að greiða vinnutengd gjöld sem þeim annars er skylt. Reyndar eru dómafordæmi fyrir því að „gerviverktakar“ fái að njóta sömu réttinda og félagsbundnir launþegar. Að sækja rétt sinn fyrir dómi er hins vegar ekki auðfarin leið, og þrautaganga fyrir hvern farandverkamann.
Alþjóðavinnumálastofnunin ILO og ETUC, Samband evrópskra verkalýðsfélaga, eru stofnanir með það yfirlýsta markmið að standa vörð um samfélagslegt réttlæti og jöfnuð þar sem tækifæri til mannsæmandi atvinnu og tekna eru jöfn. Sú góða reynsla sem við Íslendingar höfum af félagsbindingu launþega og forgangsréttarákvæðum kjarasamninga með þeim margvíslegu réttindum sem íslensk verkalýðshreyfing hefur náð að knýja í gegn á umliðnum áratugum kallar á spurninguna hvort ekki sé hægt að tryggja að allir sem hér vinna, hvort sem er til lengri eða skemri tíma, sitji við sama borð.
Frá Noregi berast þær fréttir þessa dagana að þar sé vilji til að banna starfsmannaleigur og víða í Evrópu er verið að reyna að þrengja að slíkri starfsemi. Íslensk verkalýðshreyfing, Alþýðusambandið og ekki síst félög eins og Efling og Hlíf hafa unnið mikið og gott starf til að koma í veg fyrir og/eða draga úr misnotkun á erlendu verkafólki. Það virðist þó vera eilífðarstríð sem tekur stöðugt á sig nýtt form. Spurningin er hvort ekki sé hægt að virkja Samtök evrópskra verkalýðsfélaga (ETUC) til að:
1. draga úr eða banna verktakavæðingu verkafólks.
2. að koma á rafrænu upplýsinganeti innan EES-svæðisins þar sem hver sem þangað leitar geti sótt upplýsingar svo sem um stéttarfélög og almenn réttindi í einstökum löndum. Rúmenskur verkamaður sem vill til Íslands getur þá farið inn á heimasíðu verkalýðsfélags í sínum heimabæ og fræðst þar um aðstæður á Íslandi; um lágmarkslaun, lífeyrisréttindi, tryggingar og ekki síst um forgangsréttarákvæði kjarasamninga. Hvort hér sé yfirleitt vinnu að fá og hvaða verkalýðsfélög þar eru starfandi, hvaða þjónustu og réttindi slík félög veita og hver væru lágmarkslaun og meðallaun á hans verksviði. Slíkt upplýsinganet gæti í reynd gert starfsmannaleigur óþarfar og komið í veg fyrir það ömurlega mansal sem þrífst í skjóli „frjáls flæðis fjármagns og vinnuafls“.
Tilraunir til sjálfsbjargar
Saga verkalýðshreyfingar geymir ótal dæmi um tilraunir til sjálfsbjargar. Ef gluggað er í heimildir íslenskrar verkalýðshreyfingar frá því í árdaga 20. aldar má sjá viðleitni til samhjálpar sem tók bæði til vinnusköpunar og vinnumiðlunar. Þegar félagslegt öryggisnet verkafólks var lítið sem ekkert var eitt fyrsta verk hreyfingar þessa sama fólks að skapa sitt eigið öryggisnet. Sumar þessara tilrauna tókust vel og lifðu lengi, aðrar miður vel. Verkamannafélagið Dagsbrún léði til dæmis félagsmönnum garðskika til kartöfluræktar, stóð að stofnun kaup- og pöntunarfélaga og stofnaði fyrirtækið „Samingsvinnan“ sem tók að sér lestun og losun skipa við Reykjavíkurhöfn.
Hér, líkt og í mörgum nálægum löndum, var einnig áhugi innan verkalýðsfélaga að geta haft áhrif á hvernig vinnu væri miðlað. Vinnumiðlanir verkalýðsfélaga eru þekkt frá Danmörku og Þýskalandi um aldamótin 1900. Spurning er hvort vinnumiðlun sé eitthvað sem „hið opinbera“ ríki og sveitarfélög eigi að sjá alfarið um líkt og var raunin hér lungann úr 20. öld. Eru kannski slíkar miðlanir best komnar í höndum „athafnaskálda“ fólks sem rekur slík fyrirtæki af hagnaðardrifnum ástæðum? Gæti verkalýðshreyfingin sjálf hugsanlega komið sér upp slíkri þjónustu fyrir félagsmenn sína? Lært af fortíðinni og beislað nútímatækni snjallvæðingar til þess að tryggja verkafólki að það fái áreiðanlegar upplýsingar um atvinnumöguleika, atvinnuástand, húsnæði og laun í ólíkustu löndum; innan EES og jafnvel utan.
Ef Elon Musk getur sent fólk til tunglsins ættu samtök verkafólks innan EES að geta tekið saman höndum og komið á fót sinni eigin vinnumiðlun með rafrænu upplýsinganeti í okkar snjallvædda evrópska samfélagi. Með því myndi væntanlega margt vinnast til hagsbóta fyrir fólk sem er ofurselt hagnaðardrifnum starfsmannaleigum; starfsmannaleigum sem gera fátækt fólk að réttlítilli og réttlausri söluvöru. Evrópsk verkalýðshreyfing gæti þar með eignast tæki í baráttunni við mansal. Til þess þarf þó einhver að hafa frumkvæði. Nú á tímum mikillar gerjunar innan íslenskrar verkalýðshreyfingar er spurning hvort þar sé ekki að finna þá sem gætu leitt slíkt starf á evrópskum vettvangi?
Athugasemdir (1)