Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í dag íbúakosningu um Coda Terminal-verkefni Carbfix. Mikill styr stóð um verkefnið en íbúar mótmæltu harðlega staðsetningu þess. Carbfix hyggst, í gegnum Coda Terminal-verkefnið, flytja inn 3 milljónir tonna af koldíoxíði frá fyrirtækjum erlendis og dæla því ofan í jörð þar sem það umbreytist í stein á um tveggja ára tímabili.
Í upphafi átti verkefnið að vera bundið við Straumsvík en fleiri borteigum hefur verið bætt við samkvæmt nýjustu áætlunum og nær ein þeirra upp í Kapelluhraun sem er skammt frá Völlunum.
Íbúar hafa mótmælt verkefninu af fjölmörgum ástæðum, meðal annars vegna hættu á jarðskjálftum, sem vísindamenn telja þó ólíklega. Einnig vegna mikillar óvissu sem einkennir verkefnið sem hefur ekki enn verið fjármagnað að fullu. Carbfix er eitt af undirfyrirtækjum Orkuveitunnar og er stefnan á að fá fjárfesta inn í verkefnið. Þá vildi Carbfix að Hafnarfjarðarbær legði til höfn til verkefnisins, sem hefði kostað hátt í tíu milljarða króna.
Það var svo á fundi með bæjarbúum í sumar sem bæjarfulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins tilkynntu að það yrði haldin íbúakosning áður en lengra yrði haldið með málið.
Tillagan um að íbúakosning yrði haldin þegar öll gögn málsins og valkostir væru fyrirliggjandi, var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Athugasemdir